Barnalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:05:57 (6794)

2000-04-27 22:05:57# 125. lþ. 103.18 fundur 339. mál: #A barnalög# (ráðgjöf um forsjá og umgengni) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:05]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Frv. þetta sem flutt er af þingflokki Samfylkingarinnar er flutt í þeim tilgangi að skylda fólk til að sækja ráðgjöf við skilnað, eins og hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, 1. flm., rakti í framsöguræðu sinni. En því miður sanna dæmin að allt of oft verður ágreiningur á milli foreldra við skilnað og sambúðarslit hvað varðar forsjá, umgengnisrétt og búsetu barns.

Slík ráðgjöf sem hér er lögð til hefði þann tilgang að reyna að ná sáttum milli foreldra um þessi atriði en ljóst er að þolendur í slíkum deilum eru fyrst og síðast börnin. Frv. byggir þannig um leið á því að styrkja þá meginreglu sem barnalögin byggja á og felst í því að ávallt skuli hagsmunir barnsins hafðir í fyrirrúmi þegar ákvarðanir eru teknar sem snerta framtíð þess. Mjög mikilvægt er að sú regla sem barnalögin eru grundvölluð á sé styrkt í sessi eftir því sem unnt er og þetta frv. er svo sannarlega byggt á þeim grundvelli.

Frv. er líka ætlað að styrkja þá meginreglu barnaréttar að barn eigi rétt á að umgangast báða foreldra sína en því miður koma deilur á milli foreldra oft í veg fyrir að sá réttur sé virtur. Við vitum öll að skilnaður getur reynt verulega á tilfinningalíf fólks og það hefur oft þær afleiðingar í för með sér að ákvarðanir sem eru teknar í tengslum við sambúðarslit og skilnað eru kannski ekki alltaf byggðar á skynsemi heldur meira í skugga þeirra erfiðu tilfinninga sem tilheyra slíkum sambúðarslitum.

Samþykkt þessa frv. hefði það vafalaust í för með sér að við skilnað og sambúðarslit er a.m.k. líklegra en ella að fagleg sjónarmið yrðu í fyrirrúmi og hagsmunir barnsins yrðu virtir. Vissulega er ekki hægt að tryggja það með slíkri skyldu til ráðgjafar en það er a.m.k. líklegra en ella að þessi sjónarmið yrðu höfð í fyrirrúmi ef fólk er beinlínis skyldað til þess að sækja sér ráðgjöf. Það skortir kannski oft og tíðum vilja þeirra tveggja einstaklinga sem eru að slíta sambúð eða að skilja til þess að fara í slíka ráðgjöf og afleiðingarnar bitna því miður oft á börnunum og hagsmunum þeirra.

Það var líka rakið í framsögu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að frv. gerir ráð fyrir undantekningum frá skyldu til að sækja skilnaðarráðgjöf, annars vegar þegar um er að ræða ógildingu hjúskapar skv. 27. gr. hjúskaparlaga, og eins er ekki skylt að sækja skilnaðarráðgjöf ef krafist er skilnaðar á grundvelli 40. gr. hjúskaparlaga þar sem telja verður grundvöll fyrir ráðgjöf brostinn í slíkum tilvikum en sú grein fjallar um það þegar annað hjóna hefur orðið uppvíst að líkamsárás eða kynferðisbroti er bitnar á hinu eða barni sem býr hjá þeim, að þá getur hitt krafist lögskilnaðar enda sé verknaður framinn af ásettu ráði og valdi tjóni á líkama eða heilbrigði þess sem fyrir verður. Og eins ef maki hefur sýnt af sér atferli sem fallið er til að vekja alvarlegan ótta um að hann gerist sekur um framangreindan verknað.

Í raun og veru er haft þarna ákveðið svigrúm í tilfellum þar sem ekki er hægt að leggja það, ef svo má að orði komast, á hinn aðilann í hjúskapnum að sækja slíka ráðgjöf vegna slíkra tilvika og það er eðlilegt að frá þessari skyldu séu undantekningar í slíkum tilvikum.

Eins og hefur verið rakið höfum við fordæmi fyrir því að svona ráðgjöf reynist vel og m.a. í Noregi höfum við dæmi þess að þetta úrræði hafi reynst vel sem fyrirbyggjandi. Margir eru þeirrar skoðunar að slíkt fyrirkomulag spari bæði einstaklingum og samfélaginu orku, tíma og fjármuni eins og rakið er í athugasemdum með frv. Ég tek hins vegar undir það með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur að ég legg áherslu á að leitast sé við að hafa þessa ráðgjöf ekki það dýra að hún verði skattborgurum ofviða þó að ég hafi reyndar ekki þær tölur. Má vera að hv. frsm. kunni tölur sem segja hversu mikið hún mundi kosta en ég tel eðlilegt að halda slíkum kostnaði í skefjum en þó ekki þannig að komi í veg fyrir að þessari mikilvægu réttarbót yrði komið á vegna þess að ég held að það sé alveg tvímælalaust að hún mundi skapa mun betri grundvöll fyrir börn úr hjónaböndum eða sambúð sem er slitið. Það er fyrst og síðast skylda okkar að tryggja og að styrkja barnalögin og barnarétt þannig að auðveldara sé að tryggja þær meginreglur sem sú fræðigrein byggir á. Þetta frv. er til þess fallið þannig að ég vona það svo sannarlega að það verði samþykkt.