Barnalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:20:00 (6796)

2000-04-27 22:20:00# 125. lþ. 103.18 fundur 339. mál: #A barnalög# (ráðgjöf um forsjá og umgengni) frv., Flm. ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:20]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem tóku þátt í umræðunni um þetta frv. og get tekið heils hugar undir þann málflutning.

Hér var nokkur umræða um hversu dýr þessi þjónusta mætti vera. Á Norðurlöndum hefur það ítrekað komið fram að þær þjóðir telja sig spara með því að veita þessa þjónustu strax, þ.e. áður en af skilnaði verður, að þar sé verið að fyrirbyggja mikinn kostnað í samfélaginu síðar meir ef ekki væri tekið á þessum málum. Eins og hv. þm. Þuríður Backman sagði er þarna ákveðin forvörn á ferðinni.

Í frv. tökum við einmitt á því að þessa þjónustu þurfi að veita alls staðar á landinu og vissulega væri æskilegt að við ættum fagfólk um allt land sem gæti sinnt þessu. Ef þetta verður gert að lögum, sem ég trúi að verði hvort sem það verður núna eða síðar, yrði það jafnvel til þess að menntað fólk settist að á landsbyggðinni til að sinna þjónustu sem þessari enda væri þessi þjónusta þar. Þangað til væri hægt að fara á milli eins og sérfræðiþjónustu í læknisþjónustunni er sinnt víða um landið.

Mig langar aðeins, vegna þess að það kom mjög sterkt fram í umræðunni hversu mikilvægt væri að koma á slíkri skilnaðarráðgjöf, að minnast enn á tilraun sem nú er gerð á vegum hæstv. dómsmrh. þar sem þessi þjónusta er veitt hér á höfuðborgarsvæðinu. En þetta er hvergi í lögum og þess vegna er mikilvægt að þetta verði sett í lög. Þegar fjallað var um þetta tilraunaverkefni dómsmrh., sem var sett á laggirnar í kjölfar umræðunnar hér á síðasta kjörtímabili, kom einmitt fram að það væri samfélaginu dýrt að vera ekki með þessa þjónustu.

Mig langar aðeins, herra forseti, að lesa hér umsögn frá Félagi einstæðra foreldra sem fylgdi fyrra þingmáli okkar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á síðasta kjörtímabili. Þá lögðum við fram þáltill. þar sem lagt var til að koma á úrræðum í þessa veru. Þetta bréf er frá 1997 og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Frá því snemma á níunda áratugnum hefur Félag einstæðra foreldra boðið félagsmönnum sínum aðgang að lögfræðiráðgjöf og árið 1995 var þjónustan bætt með því að ráðinn var félagsráðgjafi til félagsins. Sérfræðingarnir eru til viðtals hér á skrifstofu félagsins einu sinni í viku. Um helmingur allra þeirra mála sem hingað koma eru forsjár- og umgengnismál. Við sáum fljótlega að þörf væri á endurgjaldslausri aðstoð fyrir báða foreldra til þess að ganga frá svo mikilvægum málum sem þessum til frambúðar. Vönduð ráðgjöf á þessu stigi getur komið í veg fyrir mikil átök innan fjölskyldunnar síðar meir. Fyrir rúmlega ári síðan var tekin upp hér ráðgjöf og viðtalstímar fyrir báða foreldra í tilefni af ágreiningi varðandi umgengnismál. Dæmi er um að nýr maki foreldris komi með í slíkt viðtal. Lögfræðingur félagsins og félagsráðgjafi fara þá yfir ágreiningsmálin með foreldrunum. Eitt slíkt viðtal getur verið mjög árangursríkt því oftar er að deilur foreldra snúast um óuppgerðar tilfinningar sín á milli en velferð sameiginlegra barna. Foreldrar geta komið í fleiri viðtöl ef þau telja þess þörf.

Þegar samsetning hópsins sem leitar ráðgjafar hjá okkur er skoðuð kemur í ljós að hlutfall karlmanna sem leita eftir aðstoð hefur aukist um 14% þrjú síðustu ár. Forsjár- og umgengnismál eru u.þ.b. helmingur allra þeirra erinda sem berast. En mikil aukning hefur orðið síðustu þrjú ár hjá karlmönnum sem leita aðstoðar vegna þessara mála en hlutfall þeirra hækkar úr 22% árið 1994 í 63% árið 1996. Á árinu 1996 er mikill meiri hluti þeirra sem leita aðstoðar félagsins í umgengnis- og forsjármálum karlmenn.``

Þetta er auðvitað talandi dæmi um það ástand sem ríkir í þessum málum. Ég hef það frá lögfræðingi Félags einstæðra foreldra að oft eru þessi mál komin í mjög erfiða stöðu þegar leitað er til þeirra til að fá úrlausn mála. Og þess vegna er mikilvægt að tekið sé á þessu strax, tekið á þessu áður en skilnaðarpappírar eru afgreiddir, að allir hafi aðgang að þessu og þjónustan sé veitt foreldrunum þeim að kostnaðarlausu þar sem þetta er samfélaginu mikill sparnaður. Við verðum ávallt að hafa velferð barnanna og réttindi í fyrirrúmi og ávallt sem grundvöll.

Herra forseti. Það var nokkuð á reiki hvert þetta mál skyldi fara þegar ég flutti framsöguna. En ég held að réttast væri, þar sem þetta er mál dómsmrh. og barnalögin heyra undir hana, að það fari til allshn.