Barnalög

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 22:35:24 (6798)

2000-04-27 22:35:24# 125. lþ. 103.21 fundur 396. mál: #A barnalög# (talsmaður barns í umgengnisdeilu) frv., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[22:35]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil fagna því frv. sem hér er fram komið, um breytingu á barnalögum, nr. 20/1992, með síðari breytingum.

Eins og 1. flm. frv., Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, skýrði frá áðan er frv. um að skipa barni talsmann þegar um ágreining um umgengni er að ræða. Þetta er mjög brýnt. Það er auðvitað þannig að ýmsar heimildir er að finna á hinum og þessum stöðum en það er líka mjög mikilvægt að skylda á sumum stöðum. Þetta varðar fyrst og fremst þrjá hópa barna, þ.e. börn fædd utan hjónabands, við vitum vel að stærsti hópurinn á Norðurlöndunum er á Íslandi. Í öðru lagi til að tryggja að börn sem fædd eru í hjónabandi verði ekki bitbein foreldra við skilnað. Talsmaður gæti líka komið þar inn í til þess að hlusta á sjónarmið þeirra og tryggja hag þeirra þar sem ráðgjöfin sem rædd var hér áðan ekki dugir. Í þriðja lagi og ekki hvað síst í almikilvægustu málunum, þ.e barnaverndarmálum. Að vísu er heimild í barnaverndarlögunum núna, en eins og barnaverndarmálum er háttað um landið efa ég að sú heimild sé nýtt sem skyldi, því miður. Auðvitað ætti hagur barnanna alltaf að vera í fyrirrúmi og þess vegna er mjög mikilvægt að í þeirri endurskoðun sem núna fer fram á lögum um vernd barna og ungmenna verði tekið á þessu og ég veit að svo mun verða.

Mjög mikilvægt er að hagsmunir barnanna séu í fyrirrúmi en ekki hagsmunir foreldra því að þá mundi kannski lítið breytast. Við þekkjum líka að Félagsþjónustan nýtir þetta að hluta til í úrræðum, þ.e. hún er með talsmann og í rauninni manneskju sem annast alveg barnið í sambandi við umgengni sem er mjög erfið milli hjóna eftir erfiðan skilnað og/eða þegar börn eru að kynnast foreldri. Þetta er því miður ekki algilt, enda álagið mikið í Félagsþjónustunni. Ég tel því að þetta frv. sé veruleg bót til að bæta og tryggja réttindi barnanna með því að á þau sé hlustað og aðstæður þeirra skoðaðar þannig að réttur þeirra til foreldranna sé virtur.

Ég vona þess vegna að þetta fái góða umfjöllun, þó að seint sé, í nefnd núna en ef það tekst ekki, þá verði það tekið upp að hausti.