Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 23:22:57 (6805)

2000-04-27 23:22:57# 125. lþ. 103.41 fundur 538. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[23:22]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um að að komið verði í veg fyrir uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs.

Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að lagasetningu með það að markmiði að fólk sé ekki látið gjalda aldurs síns á vinnustað, hvort heldur er með uppsögnum eða mismunun í starfi.``

Margt bendir til að það færist í aukana að stjórnendur á vinnustöðum leggi áherslu á það við mannaráðningar að ráða ungt fólk til starfa fremur en þá sem eldri eru, jafnvel þótt síðarnefndi hópurinn búi að lengri starfsreynslu. Sums staðar er jafnvel gengið lengra, eldra fólki sagt upp störfum til að rýma fyrir þeim sem yngri eru.

Við þekkjum dæmi þessa úr ýmsum bankastofnunum, fjármálastofnunum, og því miður þá þekkjum við einnig dæmi þessa hjá stofnun sem er í eigu þjóðarinnar og í umsjá okkar, Íslandspósti hf. Þar er að sögn, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið, því miður farið að segja upp fólki sem er komið yfir 65 ára aldur. Það hefur verið sagt við þá einstaklinga sem hafa verið látnir fara eða sagt að þeir þurfi að ljúka störfum að þetta sé hin nýja svokallaða 65 ára regla, að það séu aldursmörkin, að þá þurfi fólk að víkja úr starfi. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið, m.a. frá einstaklingum sem í hlut eiga. Ég á eftir að taka þetta mál upp við annað tækifæri vegna þess að fyrir þinginu liggur fyrirspurn sem ég hef beint til hæstv. samgrh. um þá starfsmannastefnu sem Íslandspóstur rekur og þá ekki síst á landsbyggðinni, en þaðan hef ég heimildir fyrir þeim fréttum sem ég er hér að tíunda.

Þetta finnst mér algjörlega ófært. Með þessari þáltill. er ég að fara þess á leit að ríkisstjórnin kanni hvernig unnt sé að tryggja og treysta réttarstöðu þessa fólks. Ég veit að erfitt er að gera það svo afdráttarlaust sé. Það verður aldrei tryggt með lagasetningu að einstaklingum verði aldrei nokkru sinni sagt upp störfum þótt þeir séu komnir á þennan aldur en að þeir séu ekki látnir gjalda aldurs síns er önnur saga. Ef viðkomandi fær lagastoð til að vísa í þannig að sönnunarbyrðin hvíli hjá atvinnurekandanum, þeim sem segir honum upp störfum, þá held ég að það geti verið til góðs. Ég er að mælast til að kannað verði hvernig að þessu yrði staðið.

Jafnhliða þessari þróun hefur verið losað um ráðningarfestu þar sem hún hefur verið hvað traustust, þ.e. hjá opinberum starfsmönnum. Opinberar stofnanir og fyrirtæki hafa jafnvel gengið svo langt að taka upp þá stefnu að segja fólki upp störfum þegar það hefur náð tilteknum aldri, eins og gerðist hjá Íslandspósti. Mér er sagt að slíkt gerist þar, að það sé stefna þar, því miður. Þetta gerist langt innan við aldursmörk sem lög og samningar kveða á um. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þegar lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna var breytt árið 1996 var tekin upp sú nýbreytni að ráða embættismenn aðeins til fimm ára í senn. Þetta á einnig við um heilar starfsstéttir og má þar nefna lögreglumenn, tollverði og fangaverði. Allir þessir starfshópar eru ráðnir til fimm ára í senn. Þetta var gert þrátt fyrir mikil og kröftug mótmæli hér í umræðum á Alþingi. Og að lokinni þessari fimm ára ráðningu er metið að nýju hvort viðkomandi skuli endurráðinn.

Þetta hefur valdið óöryggi hjá eldra fólki og ekki að ástæðulausu. Mikilvægt er að fram fari endurskoðun á lögum með það fyrir augum að tryggja stöðu einstaklinga svo að þeir verði ekki látnir gjalda aldurs síns á vinnustað. Þannig yrðu til dæmis mjög veigamikil rök að vera fyrir því að launamenn sem starfa samkvæmt framangreindri fimm ára reglu fái ekki endurráðningu. Mikilvægt er að endurskoðun laganna fari fram í nánu samstarfi við samtök launafólks.

Mér er kunnugt um að innan samtaka launafólks er áhugi á að taka á þessum málum. Mér er einnig kunnugt um að víða á meðal atvinnurekenda eru uppi áhyggjur vegna þeirrar tilhneigingar sem gætir í þessa átt í starfsmannahaldi í fyrirtækjum og stofnunum. Þess vegna er rangt að alhæfa um viðhorfin í þessum efnum. Staðreyndin er sú að þessarar tilhneigingar gætir mjög víða í stofnunum og fyrirtækjum og ég hvet til þess að það verði tekið til skoðunar af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig réttindin verði bætt og treyst.

Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til efh.- og viðskn. að lokinni þessari umræðu. Ég geri mér reyndar ekki alveg grein fyrir því hvort það er rétti aðilinn til að fjalla um málið en tel þó svo vera. Ég fel stjórn þingsins í hendur vald til þess að ákveða hvar þessi þáltill. verður best vistuð.