Uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs

Fimmtudaginn 27. apríl 2000, kl. 23:29:56 (6806)

2000-04-27 23:29:56# 125. lþ. 103.41 fundur 538. mál: #A uppsagnir eða mismunun í starfi vegna aldurs# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur, 125. lþ.

[23:29]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég kem hér upp til þess að taka undir þessa tillögu hv. þm. Ögmunar Jónassonar. Ég tel að hún sé mjög mikilvæg og vil minna á tillögu sem hefur legið fyrir þinginu og komið til umræðu, um sveigjanleg starfslok þar sem 1. flm. er Guðmundur Hallvarðsson. Ég tel allt of mikla æskudýrkun í þessu landi og að við eigum að meta þann auð sem býr í fólki á hvaða aldri sem það er meðan það treystir sér til þess að vinna. Við eigum að bera virðingu fyrir því að það geti ráðið því sjálft hvort það hættir fyrr eða seinna. Sumir vilja hætta fyrr og það á að leyfa fólki það. En þeir sem hafa starfsþrek eiga að fá að vinna lengur. Ég benti á það í ræðu minni um þáltill. um sveigjanleg starfslok að það er mikill sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið þegar fólk er ekki neytt til að hætta að vinna. Ég tel það mjög mikilvægt að fólk fái að njóta sín í starfi eins lengi og það hefur vinnuþrek.