Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 15:34:29 (6824)

2000-04-28 15:34:29# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, DrH
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[15:34]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég fagna fram komnu frv. um fæðingar- og foreldraorlof. Þetta er mikið jafnréttis- og fjölskyldumál og mikið tímamótamál. Þarna er um að ræða lengingu fæðingarorlofs í níu mánuði og að feður fái aukinn og sjálfstæðan rétt, sem ég tel mjög mikilvægt.

Réttur foreldra til fæðingarorlofs hefur verið í brennidepli í mörg undanfarin ár. Það hefur verið mikill munur á rétti fólks til fæðingarorlofs eftir starfsstéttum og feður hafa átt lítinn sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs. Það hefur oft og tíðum staðið verðandi mæðrum fyrir þrifum á vinnumarkaði að þær skulu einar hafa átt rétt á fæðingarorlofi. Þær hafa því miður oft verið spurðar að því þegar þær ráða sig í vinnu hvort þær hefðu í hyggju að eignast börn á næstunni. Það er í rauninni mannréttindabrot að spyrja fólk að svona löguðu. En nú ættu þær að sitja við sama borð og karlar og verða ekki spurðar að þessu hér eftir.

Frv. er eitt mesta og merkasta framfaraspor í jafnréttismálum og jafnréttisbaráttunni frá því konur fengu kosningarrétt að mínu mati. Mest er þó um vert að markmið frv. er að tryggja barninu samvistir við bæði föður sinn og móður. Því er ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Frv. tekur til réttinda foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs á vinnumarkaði og foreldra sem eru starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Frv. tekur einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.

Fæðingarorlofssjóðurinn mun jafna mjög aðstöðu atvinnurekanda þannig að þeir sem hafa ungar konur í starfi bera ekki einir hitann og þungan af fæðingarorlofi heldur einnig þeir sem hafa karlmenn í meiri hluta. Fæðingarorlofssjóðurinn er lausn fyrir allan vinnumarkaðinn, ekki aðeins fyrir opinbera vinnumarkaðinn heldur einnig almenna vinnumarkaðinn og með þessu er réttur barnsins til samvista við foreldra sína virtur.

Í athugasemdum við 13. gr. frv. stendur m.a. um greiðslufyrirkomulag, með leyfi forseta:

,,Frumvarpi þessu er einnig ætlað að ná til sjálfstætt starfandi einstaklinga en miða skal við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil og haft er til viðmiðunar þegar starfsmenn eiga í hlut. Mánaðarleg greiðsla til sjálfstætt starfandi foreldris skal því nema 80% af reiknuðu endurgjaldi sem greitt hefur verið tryggingagjald af fyrir sama tímabil.

Lagt er til að greiðsla í fæðingarorlofi foreldris sem er í 25--49% starfi í hverjum mánuði skuli þó aldrei vera lægri en sem nemur 54.021 kr. á mánuði og að greiðslur til foreldris í 50--100% starfi í hverjum mánuði verði aldrei lægri en 74.867 kr. á mánuði. Markmið þessa nýja kerfis er að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar þurfa að leggja niður störf vegna tilkomu nýs fjölskyldumeðlims sem þarfnast umönnunar þeirra. Þess vegna er að því stefnt að foreldrar fái 80% af meðaltali heildarlauna ...``

Þá er mjög mikilvægt atriði í þessari grein. Það er að makar bænda sem ekki eru formlega skráðir sem aðilar að búrekstri og starfa heldur ekki utan búsins hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeir eru hvorki skilgreindir sem starfsmenn hjá búinu né sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, er þeim hins vegar skylt að greiða iðgjöld til lífeyrissjóðs bænda í samræmi við reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Vegna þessarar sérstöðu er nauðsynlegt að meðhöndla þá sérstaklega þar sem tekjuöflunarmöguleikum þeirra eru víða þröngar skorður settar. Verður því frá jafnréttissjónarmiði að meta vinnuframlag þeirra á búinu sem a.m.k. 50% starfshlutfall. Þessi sérstaða á hvorki við um þá maka sem vinna utan bús í 50% starfi eða hærra starfshlutfalli né heldur um þá sem eru formlegir aðilar að búrekstri.

Það er ætlað að það sé tryggt að fjárhæð lágmarksgreiðslna komi til endurskoðunar á ári hverju við afgreiðslu fjárlaga og að við ákvörðun um hækkun þeirra verði tekið tillit til launaþróunar. Þetta tel ég að sé mikið réttlætismál.

Í frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna sem nú er í meðförum hv. félmn. er mikil áhersla lögð á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og ég tel að þetta frv. sé mjög í anda þess frv.

Það birtist lítil grein í Morgunblaðinu um daginn. Það er nú ekki alltaf sem maður les svona skemmtilegar greinar. Hún er eftir Ingólf V. Gíslason. Hann er þar að segja frá því að dagana 4.--5. maí verður haldin í Kaupmannahöfn ráðstefna sem heitir Yfir mörkin, þar sem verður fjallað um karla og konur í stjórnmálum, launavinnu og daglegu lífi, breytingar, væntingar og stöðu kynjanna. Hann segir frá því að hann hafi átt að hafa þar framsögu í vinnuhópi sem fjallaði um efnið: Karlar milli launavinnu og umhyggju. Svo segir Ingólfur, með leyfi forseta:

,,Þegar þetta var ákveðið fyrir nokkrum vikum reiknaði ég með að geta notað að stærstum hluta gamlar harmatölur um afleita stöðu fjölskyldumála á Íslandi og sérstaklega afleita stöðu íslenskra feðra. Svo héldu Geir Haarde, Ingibjörg Pálmadóttir og Páll Pétursson blaðamannafund og boðuðu miklar breytingar. Lenging fæðingarorlofs, tekjutenging greiðslna, sjálfstæður réttur feðra og mæðra og skipting í þrjá hluta. Þrír mánuðir fyrir feður, þrír fyrir mæður og þrír sem foreldrar geta skipt á mili sín. Ég sendi strax tölvupóst á starfsfélaga og aðra áhugasama í útlöndum og sagði þessi merku tíðindi.

Þá varð til nýtt hugtak í umræðunni á Norðurlöndum. Ég fékk tilkynningu um breytingar á þeim vinnuhóp sem ég á að taka þátt í. Nú á ég að gera grein fyrir ,,íslenska líkaninu`` varðandi fæðingarorlof og fæ lengri tíma en aðrir frummælendur. Og það sem meira er, hinir frummælendurnir eru beðnir um að haga sínum framsöguerindum þannig að þeir ræði hvernig önnur Norðurlönd geti best staðið að því að aðlaga sín kerfi ,,íslenska líkaninu``. Hugsunin á bak við það frumvarp sem ráðherrarnir kynntu er því orðin fordæmi, gefur tóninn í norrænni umræðu.``

Þetta finnst mér mjög mikilvægt að kæmi hér fram því það er mjög ánægjulegt en því miður ekki á hverjum degi sem Ísland er í fararbroddi í jafnréttismálum á Norðurlöndum og er þá mikið sagt.