Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:11:20 (6829)

2000-04-28 16:11:20# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:11]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í rauninni undirstrika orð hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Ég ætla ekkert að fara að lengja þá góðu og merku umræðu sem hefur átt sér stað um þetta fína frv.

En ég rak augun í eitt og mig langar að spyrja hæstv. félmrh. um það. Það er 3. mgr. 8. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Kona skal vera í fæðingarorlofi að minnsta kosti fyrstu tvær vikurnar eftir fæðingu barns.``

Ég velti því svona kannski til gamans fyrir mér ef kvenráðherra eignast barn meðan hún gegnir ráðherradómi. Fær þá viðkomandi kvenráðherra ekki að gegna ráðherradómi sínum í þær tvær vikur eða hvernig er þetta hugsað? Hvernig kemur sveigjanleikinn þarna inn í? Þetta eru vangaveltur sem brutust fram þegar ég var að lesa þetta gagnmerka frv. (Gripið fram í: Stefnir þingmaðurinn að ráðherradómi?)