Fæðingar- og foreldraorlof

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:19:41 (6834)

2000-04-28 16:19:41# 125. lþ. 104.22 fundur 623. mál: #A fæðingar- og foreldraorlof# (heildarlög, breyting ýmissa laga) frv. 95/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:19]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka framúrskarandi góðar viðtökur sem þetta mál hefur fengið í umræðunni í dag. Ég er búinn að vera hér síðan 1974 samfellt og ég man ekki eftir veigamiklu frv. sem hefur fengið jafneinróma stuðning og það mál sem hér er til umræðu.

Hraðinn á afgreiðslu frv. hefur verið gagnrýndur, þ.e. að hv. félmn. fái skamman tíma til að fara yfir málið og það er alveg rétt. En málið er hv. þingmönnum ekki ókunnugt. Á undanförnum þingum hafa fjölmörg þingmál verið flutt um þetta efni. Samtök atvinnulífsins hafa ályktað um málið, samtök launafólks líka og ýmsar tillögur hafa komið fram. Stórar nefndir hafa a.m.k. í tvígang fjallað um að reyna að koma skikkanlegri skipan á fæðingarorlofsmálin. En það hefur ekki orðið árangur fyrr en nú. Ég vil þakka öllum sem hafa komið að þessu máli. Frv. var samið í félmn. í samráði við ráðuneytisfólk úr fjmrn. og heilbr.- og trmrn. og viðkomandi ráðherra. Ég vil nota tækifærið til að þakka þeim öllum góð og sköruleg vinnubrögð.

Ég las markmiðsgrein frv. hér í upphafi en þar segir, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður.

Þá er lögum þessum ætlað að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.``

Þetta er meginmarkmið þessa frv. og ég legg ríka áherslu á rétt barnsins til umgengni við báða foreldra ef mögulegt er að koma því við. Ef mögulegt er að koma því við eiga börnin rétt í sjálfu sér til þess að umgangast báða foreldra.

Barnalögin eru í endurskoðun og ég geri mér vonir um að geta lagt fram í haust frv. sem afgreitt yrði næsta vetur til nýrra og bættra barnalaga og þar verður að sjálfsögðu tekið á þessum rétti barnanna. Samkvæmt þessu frv. er barninu tryggð, nema þá í undantekningartilvikum, sólarhringssamvist við foreldri í níu mánuði eða samvist í 18 mánuði ef foreldrar kjósa að halda hluta vinnu. Það er sem sagt bara í undantekningartilvikum að ekki er um níu mánaða sólarhringssamvist að ræða, þ.e. í fyrsta lagi ef barnið er ekki feðrað, í öðru lagi ef faðirinn er í útlöndum og kærir sig ekkert um barnið eða sinnir ekkert um það og í þriðja lagi ef forsjárforeldri neitar hinu forsjárlausa um rétt til töku fæðingarorlofs.

Nú háttar þannig til að úrskurðarnefnd er samkvæmt lögum þessum sett upp um fæðingar- og foreldraorlof og ég get vel hugsað mér að setja í reglugerð einhverja opnun þar sem fjallað væri um þessi undantekningartilvik þannig að einstætt foreldri gæti leitað til þessarar úrskurðarnefndar og rökstutt sitt mál þannig að litið yrði á þessar sérstöku kringumstæður. En ég held hins vegar að það sé allra hluta vegna mjög mikilvægt að barnið fái, ef þess er nokkur kostur, rétt til að umgangast báða foreldra.

Mér hefur á undanförnum dögum, og sjálfsagt fleirum alþingismönnum, borist staðlaður tölvupóstur frá hópi kvenna sem telja rétt sinn vera rýrðan með þessu frv., þ.e. þar er vitnað til þess að konur í þjónustu hins opinbera hafi samkvæmt lögum núna einar rétt á sex mánaða fæðingarorlofi, en nú sé rétturinn rýrður niður í þrjá mánuði þar sem þrír mánuðir þurfi að vera samkomulag við föðurinn. Þær telja það vera spor aftur á bak.

Ég tel nú fremur litla hættu á því að barnsfaðir færi að kúga undir sig þessa þrjá sameiginlegu mánuði ef konan vildi endilega vera heima. Ég tel frekar litla hættu á því. Það er erfitt að gera öllum til hæfis en mér finnst ekki ástæða til þess að gera mikið úr þeirri hættu.

Ég var fyrir þrem, fjórum árum kvaddur til yfirheyrslu hjá sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um mismunun gagnvart konum. Það var mikil upplifun að mæta fyrir þessari nefnd. Hún fór mjög vandlega yfir stöðu kvenna á Íslandi og yfirleitt fengum við framúrskarandi jákvæða meðhöndlun. Tvennt var talið að stæði upp á okkur og þyrfti úr að bæta. Það var í fyrsta lagi kynbundinn launamunur sem hér væri til staðar og ég tel að þetta frv., þegar að lögum verður, verði verulegt skref í þá átt að eyða þessum kynbundna launamun. Í öðru lagi var vakin athygli á réttleysi sveitakvenna sem sannarlega er líka til staðar.

Við samningu þessa frv. athuguðum við sérstaklega hvernig þetta sneri að konum í sveit eða bændakonum og í ljós kom að réttarstaða sveitakvenna er mjög mismunandi og í ýmsum tilfellum mjög bág, þ.e. sambúð, skráð eða óskráð, og hvort þær væru taldar fyrir búi. Það var því alveg ljóst að það þyrfti að meðhöndla með sértækum hætti. Ég vil leyfa mér að lesa hér úr skýringum við 13. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Makar bænda sem ekki eru formlega skráðir sem aðilar að búrekstri og starfa heldur ekki utan búsins hafa ákveðna sérstöðu þar sem þeir eru hvorki skilgreindir sem starfsmenn hjá búinu né sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð bænda, nr. 12/1999, er þeim hins vegar skylt að greiða iðgjöld til Lífeyrissjóðs bænda í samræmi við reiknuð laun þeirra í landbúnaði samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt. Vegna þessarar sérstöðu er nauðsynlegt að meðhöndla þá sérstaklega þar sem tekjuöflunarmöguleikum þeirra eru víða þröngar skorður settar. Verður því frá jafnréttissjónarmiði að meta vinnuframlag þeirra á búinu sem a.m.k. 50% starfshlutfall. Þessi sérstaða á hvorki við um þá maka sem vinna utan bús í 50% starfi eða hærra starfshlutfalli né heldur um þá sem eru formlegir aðilar að búrekstri.``

Sé kona ekki formlegur aðili að búrekstri fær hún 75 þúsund á mánuði að lágmarki.

[16:30]

Hér var varpað fram spurningu kannski í hálfkæringi um hvernig ætti að fara með ráðherra sem eignaðist barn, þ.e. konu sem væri ráðherra og eignaðist barn og henni væri skylt að vera heima eða vera hjá barninu fyrsta hálfa mánuðinn. Ég sé nú ekki að þetta sé mjög flókið vandamál. Ráðherra mundi hún vera eftir sem áður þó að hún væri heima hjá sér alveg eins og ráðherra sem verður veikur heldur áfram að vera ráðherra þó að hann þurfi tímabundið að dvelja á sjúkrahúsi t.d. Starfsfólk í ráðuneytum eða aðstoðarmaður ráðherra leysir hin daglegu viðfangsefni í samráði væntanlega við viðkomandi ráðherra. Ef t.d. þyrfti að standa fyrir máli ráðuneytisins á Alþingi þá getur einhver annar úr ráðherrahópnum, t.d. formaður viðkomandi flokks, leyst það verkefni.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á það hvar ætti að vista Fæðingarorlofssjóðinn. Það var satt að segja nokkurt umhugsunarefni. Mér fannst alveg koma til greina að vista Fæðingarorlofssjóðinn hjá Vinnumálastofnun og þá með sérstöku tilliti til þess að þá hefði ég vald á því að láta vinnuna fara fram að verulegu leyti t.d. úti á landi. Þetta varð nú ekki að ráði og menn mátu það meira að Tryggingastofnun hefði yfir að ráða vélakosti og þjálfun og hluti af málinu væri nú þegar hjá Tryggingastofnun þannig að eðlilegra væri að vista þetta hjá Tryggingastofnun jafnvel þó að peningarnir kæmu að svona miklu leyti úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem er vistaður í félmrn.

Hv. þm. gat um þáltill. sem hann hefur flutt og er til meðferðar í hv. allshn. um að kanna það að færa verkefni milli ráðuneyta. Sérstaklega er bent, ef ég man rétt, í tillögunni á að færa Tryggingastofnun til félmrn. Við sendum mjög jákvæða umsögn frá félmrn. til allshn. um þessa tillögu. Ég tel að flest verkefni Tryggingastofnunar færu best hjá félmrn. En það er önnur saga.

Ég þakka enn og aftur fyrir framúrskarandi góðar viðtökur á þessu máli og lifi í voninni um að það nái afgreiðslu og verði að lögum áður en þingi lýkur í vor.