Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 16:47:29 (6836)

2000-04-28 16:47:29# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. formanns iðnn. skrifaði ég undir þetta nál. um frv. til laga um starfsréttindi tannsmiða með fyrirvara og áskildi mér rétt og tilkynnti þar að ég mundi leggja fram tillögur til breytinga í samræmi við niðurstöðu heilbr.- og trn. Nú vill svo til að ég á sæti bæði í iðnn. sem fjallaði um málið og var með forræði á því, og einnig í heilbr.- og trn. sem fékk málið til umsagnar og umfjöllunar. Eins og fram kemur í nefndarskjölum og kom reyndar fram í framsögu um málið við 2. umr., tók iðnn. þetta mál til mjög gagngerrar umfjöllunar og sömuleiðis heilbr.- og trn.

Mig langar til að geta hérna nokkurra atriða sem ég tel að þurfi að koma fram í umræðunni og varða umfjöllun þessara tveggja nefnda um málið.

Í iðnn. var nokkuð rætt um heilbrigði munnhols og ýmsa sjúkdóma sem geta greinst í munnholi og þar var krabbamein mjög til umræðu en í heilbr.- og trn. voru ýmsir aðrir sjúkdómar og kvillar ræddir sem geta hrjáð fólk og þá sérstaklega fólk sem þarf síðar á þjónustu tannsmiða að halda. Mig langar til að lesa upp niðurstöðu heilbr.- og trn. sem ég er fullkomlega sammála í þessu máli. En heilbr.- og trn. var algjörlega sammála í málinu og hún komst að eftirfarandi niðurstöðum:

,,Lagt er til að starfsemi tannsmiða, sem öðlast hafa meistararéttindi, verði háð starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum. Umrædd starfsemi tannsmiða varðar heilbrigði fólks og því telur nefndin nauðsynlegt að skýr tenging verði við heilbrigðisstéttina. Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að landlæknir hafi eftirlit með þessari starfsemi jafnframt annarri heilbrigðisstarfsemi og því geti tannsmiðir ekki alfarið heyrt undir iðnaðarlöggjöfina.

Lagt er til að heilbrigðisvottorð tannlæknis liggi fyrir áður en tannsmiðir hefjist handa við vinnu í munnholi sjúklings. Þannig væri það á ábyrgð tannlæknis að meta almennt ástand munnhols.

Lagt er til að tannsmiðir vinni ekki að gerð tannparta á eigin ábyrgð. Við tannpartagerð reynir, að mati nefndarinnar, á sérhæfða þekkingu sem tannlæknar einir hafa, svo sem á slípun tanna.``

Síðan er lögð til breyting á frv. sem reyndar er búið að gera grein fyrir hér og var tekin upp í brtt. iðnn.

Ég tel að þær brtt. sem koma frá iðnn. séu ágætar svo langt sem þær ná. En þær ganga ekki eins langt og heilbr.- og trn. lagði til og þar vil ég nefna atriðið um að starfsemi tannsmiða, þ.e. sú starfsemi sem varðar sjálfstæð störf tannsmiða sem eru með meistararéttindi verði háð leyfi heilbrigðisyfirvalda, og ég hafði hugsað mér að koma með brtt. sem skerpti á því atriði. Aftur á móti hefur iðnn. komið með brtt. við brtt. sem komnar voru fram í þinginu og samkvæmt þeim brtt. skil ég málið svo að starfsemi sjálfstætt starfandi tannsmiða heyri undir eftirlit landlæknis. Ég treysti því að svo verði vegna þess að þar sem vinna þeirra í munnholi varðar heilbrigði er mjög mikilvægt að það heyri undir eftirlit landlæknis, bæði hvað varðar heilbrigðisvottorð og annað það er snýr að heilbrigðisyfirvöldum. Þess vegna vil ég taka fram því að það stendur í nál. að heilbrrn. setji reglur um sóttvarnir og starfsaðstöðu þeirra tannsmiða sem lokið hafa fyrirhuguðu námskeiði til starfsréttinda, þ.e. að þátturinn sem heyrir undir heilbrigðisyfirvöld sé tiltekinn, starfsaðstaðan og sóttvarnir. En ég tel mjög mikilvægt að víðtækara eftirlit heyri undir landlækni. Er það skilningur minn og fleiri heilbrigðisnefndarmanna, að ég tel, að þarna sé verið að koma til móts við þann vilja heilbr.- og trn. enn frekar.

Annað sem kom mjög sterkt fram í heilbr.- og trn. var að ýmsir sérfræðingar sem komu á fund nefndarinnar töldu rétt að heilbrigðisvottorð væri frá tannlækni en ekki aðeins frá almennum læknum. Reyndar tók ég eftir að hv. formaður iðnn. gat þess í máli sínu að gert væri ráð fyrir að vottorð yrði að vera frá lækni eða tannlækni. Meðal annars kom fram í máli Hrafns V. Tuliniusar frá Krabbameinsfélaginu og einnig aðstoðarlandlæknis sem komu á fund nefndarinnar að almennt væru það tannlæknar sem hefðu sérþekkingu á heilbrigði munnhols og því væri eðlilegt að óskað væri eftir vottorði frá tannlækni. Þess vegna hef ég ásamt hv. þm. Þuríði Backman og hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur sem eiga sæti í heilbr.- og trn. lagt fram brtt. á þskj. 1074 þar sem skerpt er á þessu atriði og tekin eru af öll tvímæli um að heilbrigðisvottorðið um heilbrigði munnhols verði frá tannlækni. 1. mgr. 1. gr. orðist því eins og hún er í brtt. frá iðnn., nema að styðjast verður við heilbrigðisvottorð frá tannlækni um að meðfæddir gallar eða sjúklegar breytingar séu ekki til staðar í munnholi og höfum við lagt þær brtt. fram við málið.

Í frv. er gert ráð fyrir að tannsmiðir fari í nám eins og klínískir tannsmiðir fá í Danmörku, þ.e. þeir tannsmiðir sem starfa sjálfstætt við mótagerð og smíðar á gervitönnum og gómum. Ég er ekki viss um að þekking tannsmiðs að loknu 133 tíma námi sé sambærileg við þekkingu tannlæknis sem er með margra ára nám við að meta heilbrigði munnhols, en engu að síður er þetta auðvitað mjög jákvætt og nauðsynlegt. Mig langar til að geta þess hér að þeir tannsmiðir í Danmörku sem hafa öðlast þessa menntun, þ.e. klínískir tannsmiðir, þurfa að fá starfsleyfi hjá heilbrigðisyfirvöldum og eru heilbrigðisstétt í Danmörku. Það er því ekki óeðlilegt að hið sama væri uppi á teningnum hér. En eins og ég sagði áðan er mjög komið á móts við það í þessari brtt. eða a.m.k. skil ég hana á þann hátt.

Vissulega er mikilvægt að viðurkenna störf tannsmiða því að þetta er mjög mikilvæg stétt þó að þróunin sé sú í löndunum í kringum okkur, og ég býst við að svo verði hér líka, að fólk haldi tönnum sínum lengur og jafnvel út ævina og vona ég að svo verði, enda er tannheilsa Íslendinga mjög góð og til fyrirmyndar. Ég tel að þróunin hljóti að verða á sama hátt á Íslandi og annars staðar og þá muni það heyra sögunni til að fólk sé með lausa heilgóma í framtíðinni, a.m.k. vona ég það.

Engu að síður vildi ég geta þess að það eru þessi tvö atriði sem ég helst geri athugasemdir við. Ég tel að þeir sem fást við heilbrigðismál í munni, eins og þarna er á ferðinni, þurfi að heyra undir heilbrigðisyfirvöld og sömuleiðis eftir þær upplýsingar sem komu fram í heilbr.- og trn. tel ég að tannlækni þurfi til að meta heilbrigði munnhols áður en tannsmiður hefst handa við mótagerð og smíðar á heilgómum.