Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 17:03:09 (6839)

2000-04-28 17:03:09# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, Frsm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[17:03]

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það svo að eftirlit landlæknis nái til þeirra snertiflata milli iðnstéttarinnar og heilbrigðisstéttarinnar, hvort heldur um er að ræða vottorð frá tannlækni eða almennum lækni um sóttvarnir og vinnu í samstarfi við tannlækni. (ÁRJ: Og heilbrigði tannholds.) Já, já, eftirlitið nær til þessara þátta. Það hefur komið fram.

Í viðræðum hv. iðnn. við ýmsa gesti sína, þar á meðal fulltrúa Tannlæknafélagsins og tannlæknadeildar Háskólans, lögðu menn mesta áherslu á að greina krabbamein, þeir lögðu þyngsta áherslu á það. Ég tel að því hafi þegar verið svarað í fyrra andsvari mínu.

Þá er líka rétt að benda á reynsluna sem fengist hefur af tannsmiðum og vísa til þeirrar sérstöku menntunar og þjálfunar sem tannsmiðum er ætlað til að greina sjúkdóma. Vandi fylgir vegsemd hverri og ábyrgðinni fylgir það auðvitað að kvikni minnsti grunur um slíkan kvilla, þegar viðskiptavinur kemur til tannsmiðs, þá hlýtur faglegur og metnaðarfullur tannsmiður að vísa viðskiptavini sínum strax til tannlæknis. Ég hef enga ástæðu til þess að ætla annað.