Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 17:37:00 (6844)

2000-04-28 17:37:00# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[17:37]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Hæstv. forseti. Þar sem ég var fjarverandi í iðnn. þegar málið var afgreitt ætla ég í stuttu máli að gera grein fyrir afstöðu minni í málinu.

Mér finnst í raun og veru um býsna flókið og erfitt mál að ræða. Það er erfitt fyrir leikmenn eins og okkur þingmenn að setja okkur í þessi spor. Hér er um afar mikla sérhæfni að ræða og kom það reyndar mjög vel fram í ágætri ræðu hv. þm. og læknis, Katrínar Fjeldsted, hér áðan sem flutti mjög góða og öfgalausa og um leið fræðandi ræðu. Við höfum hlustað á báðar þessar stéttir, tannsmiðina annars vegar og tannlæknana hins vegar, og þurfum síðan eða í raun og veru neyðumst síðan til að setja löggjöf sem mér finnst satt að segja á margan hátt óþolandi að þurfa að gera.

Eins og komið hefur fram hefur ríkt talsverð tortryggni milli þessara stétta. Stéttirnar eru auðvitað allsendis ólíkar, m.a. vegna þess að menntunarkröfur eru gjörólíkar, annars vegar er um langt og sérhæft háskólanám að ræða og hins vegar er um tiltölulega stutt iðnnám og námskeiðahald að ræða, sem er mismunandi eftir löndum. Eins og kom fram í ágætri ræðu hv. 11. þm. Reykn., Árna R. Árnasonar, er nauðsynlegt að stéttir haldi sjálfstæði sínu en ég vil meina að um leið og tannsmiðir fara að vinna í munnholi sjúklinga eða viðskiptavina sinna verði í raun og veru grundvallarbreyting á starfi þeirra. Þess vegna sé nauðsynlegt, eins og fram hefur komið hjá fjölmörgum þingmönnum sem hafa tjáð sig um málið, að stéttin heyri undir heilbrigðisstétt og þar með undir landlækni.

Hins vegar má segja að um ákveðna millilendingu sé að ræða sem verður í raun að reyna að sætta sig við, þ.e. grundvallaratriði málsins eru að viðskiptavinurinn eða sjúklingurinn leggur fram læknisvottorð við komu til tannsmiðs og menn hafa verið að ræða hér um það hvort þetta læknisvottorð ætti að vera frá lækni eða tannlækni. Miðað við ræðu sem ég hlýddi á hjá hv. þm. Katrínu Fjeldsted, sem þekkir þessi mál afar vel, tók þingmaðurinn það skýrt fram að í mörgum tilfellum sendi læknirinn sjúklinginn til tannlæknis í þessu skyni. Ég held því að það sé mjög eðlilegur ferill að heimilislæknir geti gefið út þetta vottorð en, eins og hv. þm. benti á, ef heimilislæknir sér eitthvað athugavert í tannholi sjúklingsins er hann þegar í stað sendur til tannlæknis.

Grundvallaratriði málsins er sem sagt þetta læknisvottorð og eins og ég sagði áðan er um ákveðna millilendingu að ræða sem ég mun reyna að sætta mig við.