Starfsréttindi tannsmiða

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 17:40:56 (6845)

2000-04-28 17:40:56# 125. lþ. 104.23 fundur 210. mál: #A starfsréttindi tannsmiða# frv. 109/2000, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[17:40]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Hv. formaður iðnn., Hjálmar Árnason, hefur farið mjög ítarlega í gegnum vinnu iðnn. Svona í framhjáhlaupi og kannski svolitlu spaugi þá er þetta ekkert smámál, ætli það sé ekki ígildi Fljótsdalsvirkjunar í tíma fyrir iðnn., sem tók mikla rispu varðandi það mál í desember.

Í 1. umr. um málið lagði ég ríka áherslu á það að ég liti svo á að tannsmiðir væru þjónustuaðilar heilbrigðisstétta og þyrftu þar af leiðandi að vinna með tannlæknum. Ég lít svo á að iðngreinar sem séu þjónustuaðilar heilbrigðisstétta geti fullvel verið áfram sem iðngreinar og ég nefni sem dæmi tannsmiði, stoðtækjasmiði, heyrnartækjasmiði og optikera. Ég held að í frv. sé mjög vel gengið frá öllum þeim atriðum sem átök voru um í umfjöllun málsins og ég tel t.d. að samstarf við tannlækna sé ígildi vottorðs. Stéttir sem vinna saman á þann hátt, sem kveðið er á um í þessum lögum og eins og skýrt er í nál., þurfa ekki beinhart vottorð vegna þess að samstarfið í sjálfu sér er ígildi vottorðs. Þannig túlka ég málin.

Ég held að í heildina litið sé þetta frv. gott, komi okkur öllum til góða og ég held að það mál að tengja iðnaðarmennsku sem þjónustar heilbrigðisstéttir sé allt önnur umræða. Þá þarf að fara yfir eins og ég nefndi áðan tannsmiði, stoðtækjasmiði, heyrnartækjasmiði, optikera o.fl. Það er dæmi sem við getum tekið á seinni stigum og er alltaf opið til umfjöllunar.

Ég tel að iðnn. hafi komist vel frá þessu máli og skrifaði undir án fyrirvara, en eins og komið hefur fram skrifuðu aðeins tveir nefndarmenn undir með fyrirvara.

Ég ætla ekki að lengja frekar umræðuna, virðulegi forseti, og þakka fyrir.