Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 17:57:02 (6847)

2000-04-28 17:57:02# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. sem við ræðum hér sé til mikilla bóta og ég styð framgang þess þótt ég hafi ekki verið viðstaddur lokaafgreiðslu þess úr hv. allshn. Ástæðan fyrir þessu frv. er vissulega alveg ljós. Kröfunefnd ríkisins gengur miklu lengra í kröfugerð sinni en reiknað var með við lagasetninguna um þjóðlendur á síðasta kjörtímabili. Þessi lagasmíð nú er gerð til að skjóta skildi fyrir landeigendur sem annars þyrftu að leggja í mikinn kostnað við að verjast og ekki bara verjast heldur, ef úrskurðir fara í einhverju samkvæmt tillögum fulltrúa ríkisins, sækja rétt sinn og færa fram sönnur á það fyrir dómstólum að þinglýst lönd þeirra séu í raun veru þeirra.

Óbyggðanefnd er samkvæmt lögunum ætlað að leiða álitamál til lykta og úrskurða einnig að eigin frumkvæði. Í þjóðlendulögunum er miðað við að hún hafi lokið þessu starfi sínu árið 2007. Að sjálfsögðu set ég traust mitt á að óbyggðanefnd ástundi hlutlæg vinnubrögð, annað hvort væri. Ég efast í raun alls ekkert um það. Óbyggðanefndin hefur ekkert úrskurðað enn þá þótt vissulega hafi þess misskilnings lítillega gætt í umræðunni í þjóðfélaginu. Hún hefur ekki unnið til þess á neinn hátt að vera tortryggð. Hún hefur stöðu sérdómstóls á flesta grein og er ekki við hæfi að gefa sér það fyrir fram að nefnd, skipuð hæfum mönnum samkvæmt lögum frá Alþingi, kunni ekki með sitt umboð að fara. Hins vegar er auðvitað eðlilegt að velta því fyrir sér hvaða hlutverk við höfum fengið óbyggðanefndinni. Gjarnan er vitnað til meðferðar Norðmanna á skyldum og viðlíka málum.

Óbyggðanefnd kemur til með að úrskurða og gangi úrskurður nefndarinnar einhvers staðar inn á þinglýst eignarlönd þá þarf viðkomandi landeigandi að sækja málið á hendur ríkinu. Spurningin er hvort þannig sé ekki verið að fá óbyggðanefndinni það hlutverk að vera vendipunktur sem snýr við sönnunarbyrðinni. Í stað þess að ríkið þurfi að sækja sín mál, væntanlega með stjórnskipaðri kröfunefnd, þurfa landeigendur að sækja til að hnekkja úrskurði óbyggðanefndar ef úrskurðir falla á þá.

[18:00]

Með þeirri framkvæmd sem af stað er farin í kröfugerð ríkisins eru margir uggandi, vonandi að ástæðulausu. Ráðherraskipuð nefnd er nefnd með töluvert umboð. Hún á fyrir hönd ríkisins að setja fram ábyrg og raunhæf sjónarmið byggð á heimildum og þeim mun skýrari heimildum sem hún dregur línur sínar lengra inn á þinglýst eignarlönd.

Mér virðist að nefnd sem á að vera ábyrg og á að ígrunda kröfur sínar vel sé komin á fremstu grös í kröfugerð sinni. Af framgangi kröfunefndarinnar að dæma virðist hún ekki telja að þinglýsingar og heimildir þær sem þinglýsingar byggjast á séu fullkomlega eðlilegar. Ég veit ekki til að nýjar heimildir séu fundnar sem réttlæta þær kröfur sem settar eru fram. Við vitnum gjarnan til Noregs í þessu sambandi. Ég vil benda á í fyrsta lagi að sögulegur aðdragandi þessarar lagasetningar er ólíkur hjá þessum tveimur þjóðum. Hér hefur ekki ríkt sama óvissa og í Noregi, enda eru hér til nákvæmar þinglýstar landamerkjalýsingar fyrir flestar jarðir á Íslandi.

Með landamerkjalögunum frá 1882 var komið góðri skipan á þessi mál og á landamerkjalýsingar sem að sjálfsögðu byggjast á eldri heimildum og þær eru gerðar fyrir allar jarðir.

(Forseti (HBl): Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann vilji gera hlé á ræðu sinni eða ljúka henni. Gert var ráð fyrir atkvæðagreiðslu.)

Herra forseti. Mér var fengið orðið til að flytja ræðu en ég á nú ekki mikið eftir af henni.

(Forseti (HBl): Það er ljómandi. Þá heldur hv. þm. áfram.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir. Og var þar kominn að landamerkjalýsingum þeim sem settar voru. Þinglýsingum byggðum á lögum frá 1882 hefur ekki verið mótmælt af ríkisvaldinu, enda átti ríkisvaldið frumkvæði að gerð þeirra landamerkjalýsinga og því að þeim var þinglýst sem landamerkjum jarða. Þetta er afar mikilvægt atriði. En í Noregi voru landamerki jarðanna til hálendisins hins vegar óskilgreind. Þarna er veigamikill munur á.

Ég vil einnig geta þess að kröfugerð ríkisins á Íslandi nær mun lengra samkvæmt framgangi kröfunefndar en gerist í Noregi. Þess má geta að ríkisvaldið í Noregi gerir aldrei kröfur til eignarréttar á landsvæðum sem liggja innan þinglýstra landamerkja jarða. Þarna er grundvallarmunur á framgangi Norðmanna og Íslendinga.

Því verð ég að segja að mér þykir kröfunefnd ríkisins hjá okkur Íslendingum fara eins og logi yfir akur eða eins og sinubruni á þessum dögum sem ekkert virðir nema hann sé hindraður með öllum tiltækum ráðum. Að sjálfsögðu mun óbyggðanefndin vinna verk sitt eðlilega. En að hætti ýmissa annarra hv. þm. og hæstv. ráðherra verð ég að lýsa efasemdum --- ekki um hæfni heldur um hæfi nefndarinnar og einstakra nefndarmanna, eða eins og Brandur biskup Sæmundarson sagði við Hvamms-Sturlu: Engi maður frýr þér vits en meir ertu grunaður um græsku.

Tökum dæmi. Nú hefur félagsskapur skotveiðimanna áhuga á að geta stundað fuglaveiðar hvar sem er nema í þéttbýli og kringum sveitabæi. Hindranir, svo sem eignarréttur einstaklinga setur því auðvitað skorður. Nú telur Félag skotveiðimanna að land sé ekki í einkaeign, þótt þinglýst sé, og vill hnekkja því með dómi. Á hvorum aðilanum hvílir þá sönnunarbyrðin, skotmanninum eða landeigandanum? Að sjálfsögðu á skotveiðimanninum.

Ef óbyggðanefnd úrskurðar nú í slíku máli þannig að landið sé ekki í einkaeign, þrátt fyrir þinglýstar heimildir þar um, og málið fer síðan fyrir dómstóla, hvar liggur þá sönnunarbyrðin? Hún er komin á landeigandann. Hann er þá kominn í þá stöðu að verða að sækja viðtekin réttindi sín sem hann hefur haft og ekki vitað betur en hann hafi haft óskorað tilkall til samkvæmt þinglýstum heimildum. Geri hann það ekki tapar hann einfaldlega landinu. Ef óbyggðanefnd sem sagt úrskurðar andstætt þinglýstum landamerkjum þá hefur sönnunarbyrði verið snúið við frá því gerst hefði fyrir úrskurð óbyggðanefndar.

Þetta má rekja lengra. Setjum svo að mikill áhugamaður um skotveiði og hagsmuni skotveiðimanna sé skipaður í kröfunefnd ríkisins og setjum svo að hann geri allítarlegar kröfur byggðar jöfnum höndum á þekkingu, samningatækni og óskhyggju. Setjum svo að óbyggðanefnd taki að einhverju leyti tillit til alls þessa. Hver er þá innbyrðis afstaða kröfunefndarmannsins og landeigandans? Landeigandinn þarf að sækja sitt mál gegn ríkinu og þar situr í fleti fyrir af ríkisins hálfu sá sami áhugamaður um skotveiði sem hefur fengið þá óskastöðu að vera ríkisins megin og verja hagsmuni sem falla alveg að hans eigin hagsmunum.

Herra forseti. Vel þarf að fylgjast með þessu máli og framgangi þess. Ég vil enda á því að segja að frv. er til mikilla bóta og ég stend að sjálfsögðu að jákvæðri afgreiðslu þess en áskil mér rétt til að fylgjast með og hlutast til um athugun á þessu síðar ef mér þykir ástæða til. En að ósk og beiðni hæstv. forseta ætla ég ekki að hafa ræðuna öllu lengri að þessu sinni.