Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 18:28:19 (6854)

2000-04-28 18:28:19# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[18:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér verður á að hugsa til Heimskringlu, herra forseti, en þar held ég að komi fyrir þessi setning: ,,Litlu verður Vöggur feginn.`` Og ég tel að það eigi við um hv. þm. Hjálmar Jónsson. ,,Litlu verður Vöggur feginn.``

Að vísu er rétt að í þessu er fólgin þessi litla úrbót og ég margnefndi að kostnaði kann að einhverju leyti að vera létt þarna af landeigendum eða bændum í viðskiptum við ríkisvaldið. En það er allt og sumt. Hér er ekkert annað boðað sem horfir til breytinga á framkvæmdinni. Og það held ég þar af leiðandi að hv. þm. og aðrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar verði að horfast í augu við. Okkur hefur a.m.k. ekki enn verið boðað að annað standi til en að halda áfram með framkvæmd málsins óbreytta.

Það sem ég hef þar af leiðandi leyft mér að vekja athygli á er að á þeirri framkvæmd laganna bera að sjálfsögðu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ábyrgð. Þannig er okkar stjórnskipun. Þetta er þingbundin ríkisstjórn. Að sjálfsögðu geta menn lýst sínum skoðunum og hafa til þess frelsi. Menn geta eftir atvikum gengið eins langt í því og þeir kjósa. En meðan þeir ekki segja skilið við sína ríkisstjórn og veita henni stuðning þá bera þeir í þessum stjórnskipulega skilningi ábyrgð á verkum hennar.

Ég átti nú einkum og sér í lagi við þau ummæli sem höfð eru eftir hæstv. landbrh. þegar ég tók mér það í munn að menn virtust vera að reyna að gera sig dýrlega í augum bænda. Þegar hæstv. landbrh. talar um hinn mikla sigur sunnlenskra bænda í málinu og úthúðar framgöngu fjmrh., --- ég leyfi mér að kalla það svo --- gagnrýnir mjög hans nefndarskipan, sem ég er út af fyrir sig ekki að gefa neitt gæðavottorð, þá finnst mér það lykta af því að ráðherra, sitjandi á sama tíma í ríkisstjórn við hliðina á þeim hinum sama fjmrh., sé á frekar ódýrum nótum að reyna að gera sig góðan í augum þeirra sem hann er að ræða við. Síðan er mér tjáð af kunnugum manni að sennilega sé tilvitnun mín í Hrólfs sögu kraka. Er því þá hér með komið á framfæri. En litlu varð Vöggur feginn.