Þjóðlendur

Föstudaginn 28. apríl 2000, kl. 19:10:11 (6866)

2000-04-28 19:10:11# 125. lþ. 104.24 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 125. lþ.

[19:10]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka til máls í umræðunni og veit ekki hvort það þýðir neitt að fara að eiga orðastað við hv. 2. þm. Vestf., Sighvat Björgvinsson, þegar hann er kominn í þennan ham því þá er eins og hann hafi yngst um aldarfjórðung. Mér finnst ég vera kominn a.m.k. tuttugu og fimm ár aftur í tímann, það er eins og allt það sé þvegið af hv. þm. sem hann hefur lært af biturri reynslu og allur þroski sem hann hefur aflað sér á þingferli sínum sé bara burtu í einu vetfangi og hann er farinn að láta eins og hann lét fyrir tuttugu og fimm árum. En einmitt þá flutti hann svona ræður. Hirti ekki um staðreyndir en var þeim mun æstari.

Ég hef aldrei haldið því fram að allt land væri fortakslaust eign einstaklinga eða sveitarfélaga. Hins vegar hefur okkur hv. þm. greint iðulega á því hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur verið allan tímann þeirrar meiningar að réttast væri að taka allt land og lýsa það þjóðareign eða svo langt sem komist yrði.

En ég tel að þinglýst landamerkjabréf, án formgalla tek ég fram, verði að virða. Ef menn geta komið með bréf fyrir eignum sínum sem eru án formgalla þá tel ég óhjákvæmilegt að taka mark á því. Ég tel líka að óhjákvæmilegt sé að taka mark á löglega gerðum kaupsamningum þegar einstaklingar eða upprekstrarfélög eða sveitarfélög hafa keypt lendur af ríkinu.

Ég vil nota tækifærið og geta þess í framhjáhlaupi úr því ég er kominn að ég tel að sumt í kröfugerð fyrir hönd ríkisins varðandi jarðir í Árnessýslu gangi of langt. Ég tel að það sé allra hagur að allir aðilar gangi fram af hófsemi og sanngirni.

Við settum lög um þjóðlendur í góðri trú og þurfum að vanda vinnubrögð. Það var aldrei meiningin að hafa réttmætar eignir af einstaklingum eða sveitarfélögum og það veit ég að er alls ekki vilji fjmrh. að sölsa undir ríkið með yfirgangi það sem einstaklingar eða sveitarfélög eiga.