Afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 10:38:22 (6869)

2000-05-04 10:38:22# 125. lþ. 105.91 fundur 477#B afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[10:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins í framhaldi af því að á fundi í utanrmn. í gær var fellt að viðhafðri atkvæðagreiðslu með þremur atkvæðum gegn fimm að taka úr nefnd tillögu sem felur í sér að Alþingi beini því til stjórnvalda að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Um er að ræða endurflutta tillögu, alls sex sinnum á Alþingi Íslendinga. Allt og sumt sem farið var fram á af minni hálfu sem 1. flm. tillögunnar og okkar þriggja sem studdum að tillagan yrði afgreidd úr nefnd var að hún fengi að koma hér seint og um síðir til atkvæða á Alþingi.

Viðskiptabannið á Írak hefur eins og kunnugt er staðið í 10 ár með skelfilegum afleiðingum fyrir allan almenning og þá einkum börn í Írak. Sex sinnum, herra forseti, hefur verið reynt að fá fram efnislega afstöðu Alþingis með tilteknum hætti í þessu máli. Jafnoft hefur það mistekist. Nú urðu lyktir málsins sem sagt þessar í utanrmn. Þar var meirihlutaafli beitt, ekki gegn efni tillögunnar heldur gegn því að hún fengi yfir höfuð að koma til efnislegrar afgreiðslu eða umfjöllunar.

Mér eru þessi málalok, herra forseti, mikið umhugsunarefni fyrir hönd þingsins og þingræðisins í landinu. Ég leyfi mér að beina því til hæstv. forseta að þessu gefna tilefni, en þau eru auðvitað fjölmörg fleiri, að forseti ræði í forsn. við formenn þingflokka og jafnframt við formenn fastanefnda hvort þetta sé sá háttur sem menn almennt vilja hafa á um þingstörfin, að í málum sem einhverjum þykir að því er virðist óþægilegt að komi til atkvæðagreiðslu í þinginu skuli meirihlutaafli í þingnefndum ítrekað beitt með þessum hætti, að liðið geti allt að áratugur án þess að tiltekin efnisatriði fái að koma til efnislegrar afgreiðslu hér.

Sé það vilji einhverra að fella þessa tillögu eða vísa henni til ríkisstjórnarinnar þá ættu þeir að sjálfsögðu að gera um slíkt tillögur eða greiða þannig atkvæði. Hinu, herra forseti, uni ég mjög illa að mál geti gengið fram árum og jafnvel áratugum saman með þessum hætti. Ég tel það veikja þingræðið og ég tel það í raun ólýðræðislegt og óefnislegt að mál séu meðhöndluð með þessum hætti.

Ég vona að forseti hafi heyrt óskir mínar.