Afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 10:45:35 (6873)

2000-05-04 10:45:35# 125. lþ. 105.91 fundur 477#B afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak# (aths. um störf þingsins), PHB
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vekur máls á mjög mikilsverðu og eiginlega grundvallaratriði og þó að hann noti til þess sérstakt mál þá er um það að ræða hvort Alþingi setji lög yfirleitt.

Sú hefð að láta mál saltast í nefndum veldur því að mál eru ekkert rædd. Þeim er vísað til nefndar eftir 1. umr. og svo heyrist ekkert meir. Það er aldrei tekin afstaða til mála. Ég legg til að við þá endurskoðun þingskapa sem nú er unnið að verði tekið á þessu og að nefndir vinni öll mál, mæli með samþykkt þeirra eða mæli með því að þingið hafni viðkomandi máli og þá með rökum eða þá að það vísi því til þess sem samdi frv. og flutti það til að viðkomandi vinni það betur og þá í einhverjum ákveðnum anda sem nefndin leggur til. Þetta mundi leiða til þess að þingmenn færu loksins að semja lög sjálfir.

Þannig er mál með vexti að eiginlega eru engin lög sem samþykkt eru á Alþingi samin af þingmönnum. Alþingi er ekki lengur löggjafarsamkunda. Alþingi er eingöngu endurskoðunaraðili á lög sem samin eru úti í bæ og þetta er mjög hættulegt. Þetta er hættulegt fyrir þingræðið og þetta er algerlega óháð því hvaða stjórnmálaskoðun menn hafa. Þetta er alla vega hættulegt fyrir þingræðið og það er mjög brýnt að þessu verði breytt. Við viljum öll hafa aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og þetta væri einn liður í því að Alþingi, alþingismenn sjálfir og nefndir semji lög og taki afstöðu til hvers einasta máls. Ef menn eru á móti málinu, þá greiða þeir bara atkvæði gegn því með ákveðnum rökum.