Afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 10:48:36 (6875)

2000-05-04 10:48:36# 125. lþ. 105.91 fundur 477#B afgreiðsla utanrmn. á þáltill. um endurskoðun viðskiptabanns á Írak# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[10:48]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. þm. Tómas Ingi Olrich, formaður utanrmn., segir ýmsar ástæður að baki því að mál sofni í nefndum og ég leyfi mér, herra forseti, að auglýsa eftir ástæðu fyrir því að í næstum áratug hefur þetta tiltekna mál verið svæft í þeirri nefnd sem hann veitir formennsku í.

Staðreyndin er sú að um 200 börn láta lífið í Írak á hverjum einasta degi af völdum viðskiptabanns Sameinuðu þjóðanna eða öllu heldur öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þetta alveg er óumdeilt. Það er óumdeilt að á aðra milljón manna hefur látið lífið af þessum sökum og hver yfirmaðurinn á fætur öðrum hjá Sameinuðu þjóðunum sem sinnir mannúðarhjálp í Írak hefur sagt upp störfum. Þeir hafa bent á að viðskiptabannið ... (TIO: ...efnislega ...) Á að reyna að koma í veg fyrir að upplýsingar komi fram hér í þinginu? Verið er að gagnrýna það að mál sé svæft í utanrmn. og menn eru að gera við það athugasemdir og ég er að segja að viðskiptabannið á Írak brýtur gegn Genfarsáttmálanum og viðauka hans sem kveður á um bann við sveltistefnu gagnvart almennum borgurum. Yfirmenn hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna hafa sagt af sér hver á fætur öðrum. Menn vilja ekki eiga það á samviskunni ...

(Forseti (GuðjG): Forseti fær ekki séð að hv. þm. sé að ræða störf þingsins. Hann er í efnislegri umræðu um málið en fékk orðið til að ræða um störf þingsins.)

Herra forseti. Ég læt hvorki forseta Alþingis né nokkurn annan mann takmarka málfrelsi mitt hér. Ég er að gera athugasemd við og taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að þetta tiltekna mál sé svæft í nefnd í nær áratug. Mér finnst það þinginu til skammar ef það ætlar að láta meiri hlutann komast upp með slíka ósvinnu.