Útvarpslög

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 11:47:44 (6881)

2000-05-04 11:47:44# 125. lþ. 105.3 fundur 207. mál: #A útvarpslög# (heildarlög) frv. 53/2000, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[11:47]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég vil bregðast við nokkrum atriðum sem komu fram í máli hv. þingmanna sem tóku þátt í umræðunum hér á undan.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir gerði 34. gr. að umtalsefni þar sem hæstv. menntmrh. er heimilað að hefja undirbúning að stafrænu útvarpi hér á landi. Ég tel að þetta sé mjög mikilvæg grein í frv. Það er alveg ljóst að þessi tækni tekur við í framtíðinni. Í rauninni er ekki spurning um hvort heldur hvenær og við Íslendingar megum ekki vera eftirbátar annarra þjóða sem eru af fullum krafti að undirbúa stafrænt sjónvarp hjá sér og þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að þessi grein skuli vera inni í frv. Þetta er heimildargrein þar sem ráðherra er heimilað að hafa forgöngu um þetta mál og kalla til þess þá aðila sem málið skiptir og það er alveg bráðnauðsynlegt að menntmrh. fái slíka heimild.

Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir nefndi líka Menningarsjóð útvarpsstöðva og hafði áhyggjur af því að með frv. sé verið að leggja hann niður. Það er alveg ljóst að Menningarsjóðurinn og ákvæðin um hann hafa verið mjög umdeild. Það eru því margir sem hafa viljað leggja hann niður og það er niðurstaðan í frv. Ég er sátt við að áhrifin af því eru í raun og veru þau að þá fá útvarpsstöðvarnar það fjármagn sem þær lögðu áður inn í Menningarsjóðinn til eigin ráðstöfunar og geta þá ákveðið til hvaða verkefna þeir fjármunir munu fara. Það er líka mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi það samkomulag sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir vitnaði einmitt til frá því í desember 1998 og gert var milli menntmrh., fjmrh. og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð, um stefnumörkun til að efla kvikmyndagerð hér á landi. Þar er kveðið á um að stefnt skuli að því að Kvikmyndasjóður geti varið allt að 100 millj. kr. árlega til framleiðslu styrkja til heimildamynda, stuttmynda og hreyfimynda. Þetta ákvæði kemur til framkvæmda ef Menningarsjóður útvarpsstöðva verður lagður niður og er þá miðað við að full fjárveiting náist til þessa verkefnis á fjórum árum eftir þetta.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi sérstaklega sérlög um Ríkisútvarpið og nauðsyn þess að endurskoða þau lagaákvæði sem standa eftir sem sérlög eftir lögfestingu þessa frv. Ég tek heils hugar undir orð hennar. Ég tel mjög brýnt að endurskoða lagaákvæðin um Ríkisútvarpið og ég vænti þess að hæstv. menntmrh. taki það til gagngerðrar skoðunar.

Hvað varðar 7. gr. sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi líka, um að hægt sé að heimila ef sérstaklega stendur á að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku, þá finnst mér það koma mjög skýrt fram í greinargerð með frv. að þetta ákvæði er túlkað þröngt. Þar segir:

,,Er ákvæði þetta sett til þess að unnt sé að sinna þörfum útlendinga sem hér kunna að dveljast um lengri eða skemmri tíma, og er þá hljóðvarp fyrst og fremst haft í huga. Þykir rétt vegna jafnréttis og tjáningarfrelsis að orða þessa heimild berum orðum í lögum þó að ekki sé gert ráð fyrir ásókn í að reka hér á landi stöðvar til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Frá sjónarmiði málverndar er auðvitað aðalatriðið að starfsmenn þeirra útvarpsstöðva sem útvarpa á íslensku tali rétt og vandað mál.

Hvað varðar 14. gr. um vernd barna gegn óheimilu efni þá tókst um það mjög góð samvinna í nefndinni eins og hv. þm. hafa einmitt komið inn á, að breyta þeirri grein og gera hana markvissari og ákveðnari hvað þetta snertir og ég tel að ágætlega hafi tekist til.

Ég vil að síðustu þakka nefndarmönnum í menntmn. fyrir ágæta samvinnu við umfjöllun okkar um frv.