Skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 12:18:14 (6887)

2000-05-04 12:18:14# 125. lþ. 105.25 fundur 452. mál: #A skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu# (EES-reglur) frv. 57/2000, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[12:18]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu.

Tilgangur frv. er að uppfylla samningsskuldbindingar Íslands varðandi skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu sem geta haft í för með sér óheimilar tæknilegar viðskiptahindranir. Samningar þeir sem hér um ræðir eru samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið og samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir.

Við yfirferð málsins í nefndinni var sérstaklega spurst fyrir um hvort reglur um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur breyti á einhvern hátt þeim reglum sem gilda um innflutning landbúnaðarvara. Upplýst var að EES-samningurinn nær ekki til landbúnaðarvara nema annað sé tekið fram, sbr. 8. gr. samningsins. Skilgreining tilskipunar 98/34/EB, sem m.a. er fyrirhugað að innleiða með frv., tekur til landbúnaðarvara. Þar af leiðir að tilkynna verður sérstaklega um tæknilegar reglur sem fjalla um landbúnaðarvörur. Það að tilkynna ekki um tæknilega reglu sem varðar landbúnaðarvöru fæli í sér brot á samningsskuldbindingu á sviði upplýsingaskipta um tæknilegar reglur. Aftur á móti geta EFTA/EES-ríkin sem fá slíka reglu til umsagnar ekki beitt fyrir sig 11. gr. EES-samningsins sem bannar magntakmarkanir og ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif þar sem 11. gr. gildir ekki um landbúnaðarvörur. Þær athugasemdir sem EES-ríkin geta gert við tæknilegar reglur um landbúnaðarvörur geta því einungis verið almenns eðlis og geta ekki falið í sér að breyta þurfi reglum sem gilda um innflutning landbúnaðarvara.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali. Undir nál. rita Tómas Ingi Olrich, Jón Kristjánsson, Árni R. Árnason, Einar K. Guðfinnsson, Jónína Bjartmarz, Vilhjálmur Egilsson, Sighvatur Björgvinsson og Steingrímur J. Sigfússon.