Þjóðlendur

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 13:44:30 (6890)

2000-05-04 13:44:30# 125. lþ. 105.2 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, JB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Framkvæmd laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, eins og hún hefur verið á þessu ári er alls ekki í þeim anda sem vænst var eins og komið hefur fram í máli einstakra þingmanna, ráðherra og landeigenda. Það ríkir afar takmarkaður trúnaður í garð allrar þeirrar framkvæmdar.

Ég tel, herra forseti, að doka eigi við og endurskoða alla framkvæmdina þannig að hún geti farið fram með trausti á milli þeirra sem eiga hlut að máli eins og ætlað var í upphafi og samkvæmt hljóðan laganna. 7. gr. í frv. er þó til bóta, um að sanngjarnan kostnað megi endurgreiða þeim sem hér eiga hlut að máli og sækja rétt sinn gagnvart ríkinu eða staðfesta rétt sinn. Ég vek þó athygli á því, herra forseti, að þetta er um málflutning til óbyggðanefndar. Að því loknu bera málsaðilar sjálfir kostnað.

Ég legg áherslu á það, herra forseti, að í þessu máli ber að fara fram af sanngirni og í trausti allra þeirra sem hér eiga hlut að máli svo lengi sem þess er nokkur kostur. Hér ber að doka við en 7. gr. samþykki ég.