Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 14:41:51 (6898)

2000-05-04 14:41:51# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, MF
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[14:41]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu stjtill. um staðfestingu ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum á bókunum við EES-samninginn. Um hana er í sjálfu sér ekki mikið að segja umfram það sem fram kom við fyrri umræðu. Við hv. þm. Sighvatur Björgvinsson stöndum að nál. meiri hlutans sem hér hefur verið skilað og mælum með samþykkt þessarar tillögu.

Eins og fram kom hjá frsm. þessa nál. hefur Ísland á þeim sex árum sem liðin eru frá því EES-samningurinn tók gildi beitt þessum fyrirvara, stjórnskipulegum fyrirvara, alls 38 sinnum. Nú á að freista þess að leita eftir samþykki Alþingis í formi stjtill. um að aflétta þessum stjórnskipulega fyrirvara. Þetta er aðferð sem ég tel að sé góð og sjálfsagt að við beitum. Ég verð samt að segja, virðulegur forseti, að það er dálítið sérkennilegt að af þessum 38 fyrirvörum sem við höfum gert við mál þá er um helmingur þeirra, þ.e. 19, við mál í tillögu sem hér er til umræðu.

Við erum að afgreiða sömu málin tvisvar í dag. Við höfum afgreitt hér stjfrv. þar sem kveðið er á um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara. Þar er um nákvæmlega sömu málin að ræða. Þessi 19 mál virðast mér að langstærstum hluta annaðhvort þegar afgreidd í hv. Alþingi eða við það að hljóta afgreiðslu. Það hefði verið eðlilegt í niðurstöðu nefndarinnar --- því miður sat ég ekki þennan síðasta nefndarfund þegar tillagan var afgreidd úr nefndinni --- að taka þau mál sem Alþingi hefur þegar afgreitt með þeim hætti sem hér hefur verið viðhafður á undanförnum árum.

Ýmis frv. sem tilheyra t.d. efh.- og viðskn. og koma frá hæstv. viðskrh. hafa þegar verið afgreidd en eru inni í tillögunni. Eins er um lög um mat á umhverfisáhrifum, foreldraorlof, ýmislegt sem lýtur að neytendavernd og lýtur bæði að hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskrh. en þessi frv. eru ýmist afgreidd eða verða afgreidd eftir örfáa klukkutíma. Eðlilegt hefði verið að þessar tilskipanir, sem hér hafa verið lögteknar eða á að fara að lögtaka, hefðu verið teknar út úr þessari tillögu.

Ástæða þess að við förum þessa leið er einfaldlega sú að við höfum dregið mun lengur en frestur var gefinn til að afgreiða ýmsar samþykktir EES-nefndarinnar. Sá fyrirvari sem okkur var gefinn er löngu útrunninn. Það er svo sem erfitt segja hverju er um að kenna, hvernig stendur á því að Alþingi hefur ekki fjallað um þessi mál áður en löglegur fyrirvari rann út.

[14:45]

Í sumum tilvikum eins og hvað varðar mat á umhverfisáhrifum tel ég að það hafi hreinlega verið með vilja gert að draga það að leggja fram nýtt frv. um mat á umverfisáhrifum langt umfram þann frest sem gefinn hafði verið. Síðan hafa frv. frá efh.- og viðskn. sem lúta að viðskiptum, vörum og þjónustu verið lögð fram í þrígang og eru núna fyrst að hljóta afgreiðslu.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins geta þess við umræðuna að það er dálítið hjákátlegt að vera að afgreiða í þáltill. að aflétta stjórnskipulegum fyrirvörum á málum sem Alþingi er þegar búið að afgreiða. Nóg er nú samt hver slóðaskapur okkar hefur verið að klára afgreiðslu ýmissa EES-samþykkta, en það þarf ekki að bæta fyrir það á þann hátt að við tvísamþykkjum málin á hv. Alþingi.

Þessa vildi ég geta, auk þess sem ég tel að mjög gott væri ef hæstv. iðn.- og viðskrh. gæti verið hér viðstaddur til að ræða tilskipun í orkumálum sem fjallað er um í þáltill.

En ég spyr, virðulegi forseti, er eðlilegt og er það samkvæmt þingsköpum að tvíafgreiða mál á þann hátt sem við erum að gera hér í dag? Við erum að enda atkvæðagreiðslu um mál frá efh.- og viðskn. sem eru í þessari tillögu. Væri ekki eðlilegt að prentað væri upp nýtt þskj. þar sem fram kæmu eingöngu þær tilskipanir eða ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem á eftir að afgreiða áður þessi tillaga fer til endanlegrar atkvæðagreiðslu? Spurning mín er einfaldlega þessi: Er eðlilegt að Alþingi afgreiði tvisvar sömu málin og það sama dag?