Fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 14:49:54 (6901)

2000-05-04 14:49:54# 125. lþ. 106.7 fundur 586. mál: #A fullgilding Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn# þál. 13/125, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[14:49]

Frsm. utanrmn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. þál. um fullgildingu Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn sem gerð var 17. júlí 1998.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn, með aðsetur í Haag, mun hafa það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Unnið hefur verið að stofnun dómstólsins allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og verður stofnun hans að teljast mikilvægt framlag til mannréttindaverndar og friðar í heiminum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu, sem er fólgin í því að orðin ,,í Róm`` í tillögugreininni falli brott.

Undir nál. rita Tómas Ingi Olrich, Jón Kristjánsson, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Árni R. Árnason, Jónína Bartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Sighvatur Björgvinsson og Jóhann Ársælsson.