Flugmálaáætlun 2000 - 2003

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 15:01:59 (6905)

2000-05-04 15:01:59# 125. lþ. 106.8 fundur 299. mál: #A flugmálaáætlun 2000 - 2003# þál. 14/125, JónK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[15:01]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. formaður samgn. hefur gert grein fyrir áliti samgn. um till. til þál. um flugmálaáætlun. Ég stend að því nál. Ég vil undirstrika eitt atriði sem kom reyndar fram í ræðu formanns og kemur fram í nál., en það er varðandi eldsneytismálin. Það mál var rætt ítarlega í nefndinni. Ég legg afar mikla áherslu á að á þessu ári fari fram úttekt á eldsneytismálunum í samræmi við það sem lagt er fyrir í þessu nál. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu verði teknar ákvarðanir um hvort eldsneytisaðstaða tilheyrir flugvallarmannvirkjum og yrði þá tekið á því máli í flugmálaáætlun. Það er afar nauðsynlegt að þessi úttekt fari fram. Dæmið frá Egilsstaðaflugvelli, sem er skráður varavöllur fyrir millilandaflug, hefur verið nefnt. Menn eystra hafa hug á að markaðssetja þann flugvöll sem lendingarstað í millilandaflugi. Eldsneytismálin eru þrándur í þeirri götu og mikilvægt að á því sé tekið.

Ég tek einnig undir það sem kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., Kristjáns L. Möllers, að verðmunurinn á eldsneyti á flugvöllum úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu er óviðunandi. Það er nauðsyn fyrir flugmálayfirvöld að skoða samninga sína við olíufélögin í því ljósi. Þetta er óviðunandi aðstöðumunur og gerir það að verkum að þessir flugvellir, Egilsstaðaflugvöllur og aðrir slíkir, sem hafa möguleika til að taka á móti flugvélum í millilandaflugi, eru ekki samkeppnisfærir.

Þetta vildi ég undirstrika enn frekar. Ég er ánægður með að þetta skuli vera sett í farveg í áliti samgn. en vildi ítreka hvað þetta mál er aðkallandi.