2000-05-04 15:22:25# 125. lþ. 106.9 fundur 189. mál: #A áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta# (heildarlög) frv., Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[15:22]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta frá samgn. sem allir nefndarmenn standa að, einn þó með fyrirvara.

Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um málið og fengið á sinn fund Helga Jóhannesson frá samgönguráðuneyti, Jón Bernódusson, Sverri H. Konráðsson og Þórð Þórðarson frá Siglingastofnun Íslands, Guðberg Rúnarsson og Þorleif Valdimarsson frá Fiskifélagi Íslands, Benedikt Alfonsson frá Siglingaskólanum, Jónas Guðmundsson frá Snarfara og Egil Kolbeinsson frá Siglingasambandi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Vélskóla Íslands, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Landhelgisgæslu Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Skipstjóra- og stýrimannafélagi Íslands, Siglingastofnun Íslands, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, menntamálaráðuneyti, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, Samtökum atvinnulífsins og Siglingasambandi Íslands.

Tilgangurinn með frv. er að laga íslenskan rétt að alþjóðasamþykkt STCW frá 1978 um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafna, sem tekur til áhafna flutninga- og farþegaskipa, en henni var breytt verulega árið 1995. Evrópusambandið hefur fullgilt samþykktina og sett tilskipanir um lágmarksþjálfun sjómanna, 94/58/EB, með breytingum í 98/35/EB. Þær eru hluti gerða sem taka verður inn í íslenska löggjöf á grundvelli EES-samningsins.

Frv. fékk eins og ég sagði ítarlega umfjöllun í nefndinni og gerir hún tillögu um fjölmargar breytingar á því. Þá ákvað nefndin að leggja til breytingar á lögum nr. 112/1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, og lögum nr. 113/1984, um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, samhliða afgreiðslu þessa máls. Enda leiðir það af sjálfu sér miðað við þær brtt. sem lagðar eru til. Þær eru nauðsynlegar til að samræmi sé milli laganna. Nefndin leggur áherslu á að þau lög verði tekin til heildarendurskoðunar með það að markmiði að setja heildarlöggjöf um áhafnir allra íslenskra skipa. Nefndin telur mjög brýnt að það verði gert hið fyrsta, að unnið verði frv. þegar á þessu ári í þeim efnum. Þá verði réttindi til vélstjórnar skoðuð sérstaklega með hliðsjón af nýrri tækni í vélarrúmum skipa og því að hvaða leyti hún geti haft áhrif á mönnun skipa og lengd náms vélstjóra. Mælist nefndin til að þessari vinnu verði hraðað og að lagt verði fram frv. í upphafi næsta þings á grundvelli hennar.

Benda má á að mikið misræmi er milli réttinda vélavarða á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum. Þar er mikil ástæða til að samræma þannig að við sitjum við sama borð og þær þjóðir sem við erum í sem mestri nánd við.

Breytingarnar sem nefndin leggur til að verði gerðar á frv. eru eftirfarandi:

Lagt er til að 1. gr. frv. verði breytt og gildissvið laganna afmarkað betur, þ.e. að þau taki til allra flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta á íslenskri skipaskrá. Um skemmtibáta sem skráðir eru hér á landi gildi hins vegar aðeins 7. gr. laganna.

Lagðar eru til orðalagsbreytingar á skýringum á orðunum skírteini og brúttótonn í 2. gr. Einnig er lagt til að skilgreining á námsstigi falli brott þar sem hennar er ekki lengur þörf vegna annarra breytinga sem lagðar eru til á frv. Lagt er til að skýrt verði hvað felist í orðinu áritun. Þá er lagt til að næsti maður í vél á eftir yfirvélstjóra verði 2. vélstjóri, en ekki 1. vélstjóri. Er það í samræmi við alþjóðasamþykktina.

Lögð er til sams konar breyting á 4. gr. varðandi vélstjóra og 2. gr., þ.e. að næsti maður í vél á eftir yfirvélstjóra verði 2. vélstjóri.

Lagt er til að töflur í 5. gr. frv. verði felldar brott og miðað við að þær verði í reglugerð sem sett verði á grundvelli laganna. Þetta er til skýringar og auðveldunar í frágangi laganna að töflur séu fremur í reglugerð en í lagagreinunum sjálfum. Nauðsynlegt er að sveigjanleiki verði á skipulagi námsins þannig að ekki þurfi að koma til lagabreytinga í hvert sinn sem fyrirkomulagi og skipan náms er breytt eða fært að breyttum kennsluháttum. Þá leggur nefndin til að réttindaheiti og starfssvið verði í samræmi við alþjóðakröfur.

Lagt er til að tafla í 6. gr. verði felld brott líkt og í 5. gr. þar sem eðlilegra er að hún sé birt í reglugerð. Þetta tryggir að ekki sé gerð breyting á lögunum og að jafnari kröfur eru til meiri réttinda fyrir öll stærri skip, 1. stig og allt nám í Stýrimannaskólanum. Þó verður auðveldara að taka tillit til breytinga á kennslubókum, námsefni og öðrum þáttum.

Lagt er til að tafla í 7. gr. frumvarpsins verði einnig felld brott. Þess í stað verði í 7. gr. kveðið á um að kenna skuli samkvæmt námskrá sem menntamálaráðuneytið staðfestir að fenginni umsögn Siglingastofnunar Íslands og í samræmi við fyrirkomulag sem nú gildir, þ.e. námskrá sem er bundin við svokallað pungapróf. Það nám hefur verið stundað víða um land um áratuga skeið með mjög góðum árangri á undan frekari menntun í skipsstjórnarréttindum. Einnig yrði það til að efla áhuga almennings um land allt á sjósókn og tengslum við sjóinn. Það er mikilvægt að hægt verði að stunda þetta grunnnám víða um land á námskeiðum eins og verið hefur um áratuga skeið og í sjómannaskólum.

[15:30]

Reyndar er þetta námsefni að hluta komið inn í grunnskóla sem valgrein þar sem ungir og áhugasamir nemendur um sjósókn og sjómennsku geta sótt grunnmenntun í. Einnig má geta þess að nám í þessu minnsta prófi í skipstjórnarréttindum, pungaprófinu, kemur öllum að gagni hvort sem þeir eru á landi eða á sjó. Það er a.m.k. álit þess sem hér stendur að þetta nám ætti að vera skyldunám fyrir alla Íslendinga.

En varðandi námið sem um er fjallað í nál. er mikilvægt að hægt verði að stunda það víða um land á námskeiðum og í sjómannaskólum. Tekur nefndin undir sjónarmið sem koma fram um 7. gr. í grg. frv. um nauðsyn þess að þeir sem stjórna skráningarskyldum skemmtibátum hafi tiltekna kunnáttu og þekkingu sem staðfest verði með útgáfu skírteinis.

Þá er lagt til að ákvæði 9. gr. frv. um skipan sérstakrar undanþágunefndar verði fellt brott. Eðlilegra er að Siglingastofnun Íslands, sem er fagstofnun um siglingar á sjó, taki ákvarðanir um undanþágur til að starfa á sjó án tilskilinna réttinda fremur en fulltrúar þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Nefndin er sammála um að eðlilegt sé í nútímasamfélagi að fagleg sjónarmið stofnunar hafi með æðstu stjórn í þessum efnum að gera, að hún hafi þetta með höndum í stað þess að færa það inn á borð þeirra sem eiga vissulega hagsmuna að gæta á margan hátt.

Lagt er til að 10. gr. frv. verði breytt þannig að Siglingastofnun Íslands taki við hlutverki undanþágunefndar sem fjallað er um í 9. gr. frv. um að veita undanþágur þegar brýna nauðsyn ber til og menn með tilskilin réttindi vantar til starfa.

Þetta vandamál hefur verið á Íslandi nánast alla þessa öld sem nú er að líða og er vaxandi vandamál, því miður, og bregðast þarf við því á margan annan hátt en hér er fjallað um, en þarna eru menn að vonast til að þetta verði skilvirkara og geti leitt til þess að menn geti beitt kröftum sínum í að byggja upp nám og hvetja til náms í skipstjórnarfræðum og vélstjórnarfræðum.

Nefndin leggur áherslu á að ekki verði veittar undanþágur nema nauðsynlegt sé þar sem undanþáguveitingar geta leitt til þess að sjómenn sjái sér engan hag í því að leita sér frekari menntunar og réttinda. Í þessu efni verði að finna réttan meðalveg.

Lagt er til að þeir sem hafa réttindi til að vera skipstjórar á 30 rúmlesta skipum öðlist rétt til að verða skipstjórar á bátum sem eru 75 brúttótonn eða minni, en í frv. er miðað við 50 brúttótonn. Hér hefur verið gerð breyting á mælieiningu en í rauninni ekki breyting á réttindum. Nefndin telur nauðsynlegt að allir lögmætir handhafar 30 rúmlesta skírteinis við gildistöku laganna haldi réttindum sínum óskertum. Við meðferð málsins kom fram að nauðsynlegt er að miða við 75 brúttótonna báta til að ná því markmiði.

Það er rétt að útskýra það aðeins nánar. Í fljótu bragði átta menn sig kannski ekki á muninum á brúttórúmlestatölu og brúttótonnatölu. En verið er að breyta mælieiningunni frá brúttórúmlestum í brúttótonn. Brúttórúmlestatala skipa er reiknuð út eftir ákvæðum Óslóarsamþykktar frá 1947. Brúttórúmlestir eru rými undir mæliþilfari, að viðbættu rými ofan mæliþilfars sem samþykktir mæla fyrir um. Brúttórúmlestatalan er því summa eftirtalinna rúmtaka skipsins:

1. Rúmtak undir mæliþilfari.

2. Rúmtak milli mæliþilfars og efra þilfars.

3. Rúmtak reisna.

4. Umframmál lestaropa.

Nýja mælieiningin, brúttótonn, skammstafað bt. á móti brl. í brúttórúmlestum, þýðir að brúttótonnatala skips er rúmmál skips mælt samkvæmt Lundúnasamþykktinni frá 1969 sem tók gildi 1982. Brúttótonnatalan er heildarstærð skipsins, þ.e. heildarrúmmál allra lokaðra rýma skipsins.

Þetta er nú svo einfalt en flókið samt. Ekki er verið að auka réttindin í sjálfu sér. Ákveðin reynsla er komin á 30 tonna réttindin og þegar mælieiningunni er breytt þykir nefndinni rétt, og er sammála um það, að enginn hljóti skaða af eða tapi réttindum við breytingu á heiti mælieiningar. Þetta þýðir að enginn missir réttindi, en má segja að nokkrir sem hafa verið á minni bátum öðlist réttindi til að vera með heldur stærri báta en þeir hafa verið með, þó innan þess ramma að hvorki verði breyting á vélarafli né reynsluviðmiðun.

Varðandi farþegabáta og farþegaskip þar sem nefndin leggur til að brúttótonnin verði 75 er um að ræða 41 bát sem er minni en 75 brúttótonn. 40 bátar eru minni en 50 brúttótonn, og minni en 30 brúttórúmlestir eru 38 bátar. Tveir bátar eru stærri en 30 brúttórúmlestir en minni en 50 brúttótonn. Stærri en 30 brúttórúmlestir en minni en 75 brúttótonn eru þrír bátar. Stærri en 30 brúttórúmlestir en milli 50 og 70 brúttótonn er einn bátur. Með þessari breytingu færast því aðeins tveir farþegabátar upp á við ef réttindi yrðu 50 brúttótonn, en þrír ef réttindin yrðu 75 brúttótonn. Það þýðir að einn farþegabátur færist ofar ef réttindin yrðu færð úr 50 brúttótonnum í 75 brúttótonn.

Varðandi fiskibáta og fiskiskip, smábátana, þá er alls 1.661 bátur minni en 75 brúttótonn. 1.619 bátar eru alls minni en 50 brúttótonn. Alls minni en 30 brúttórúmlestir eru 1.602. 24 bátar eru stærri en 30 brúttórúmlestir, gamla viðmiðunin, en minni en 50 brúttótonn. Stærri en 30 brúttórúmlestir en minni en 75 brúttótonn eru 63, og stærri en 30 brúttórúmlestir, gamla einingin, en milli 50 og 75 brúttótonn eru 39 bátar. Þetta þýðir einfaldlega að 24 litlir fiskibátar færast upp ef réttindi yrðu 50 brúttótonn, 24 færðust upp ef réttindi yrðu 50 brúttótonn en 63 ef réttindi væru 75 brúttótonn eins og nefndin leggur til. Þetta þýðir að 39 litlir bátar færast ofar ef réttindi eru færð úr 50 brúttótonnum í 75 brúttótonn.

Þetta eru um 3% frávik af heildarbátaflotanum sem er inni í þessum pakka, eða liðlega 1.600 bátar.

Lagt er til að 13. gr. frv. verði felld brott og að í stað þess að mönnunarnefnd ákveði mönnun flutningaskipa verði það falið Siglingastofnun Íslands.

Lagt er til að 14. gr. frv. verði breytt vegna hins sama, þ.e. að Siglingastofnun ákveði öryggismönnun allra íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa og farþegabáta.

Lagt er til að bætt verði við frv. nýrri grein um úrskurðarnefnd siglingamála sem hafi endanlegt ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi. Verði unnt að skjóta til hennar ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögunum, svo sem um útgáfu skírteina, áritana, veitingu undanþágna og mönnun skipa. Verði nefndin skipuð þremur mönnum.

Lagt er til að orðalagi 15. gr. verði breytt.

Lögð er til breyting á fyrirsögn 16. gr. þannig að hún verði í samræmi við efni hennar.

Lögð er til smávægileg breyting á orðalagi 17. gr.

Þá er lagt til að lögin taki gildi 1. júlí nk. Nokkur tími mun því gefast til að kynna efni laganna og til útgáfu reglugerða.

Loks er lagt til að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða. Er þar mælt fyrir um að þeir sem starfa á farþegabátum eða farþegaskipum skuli fyrir 1. júní 2001 sækja sérstakt námskeið um farþegaflutninga með skipum og stjórnun mannfjölda á neyðarstundu.

Þess er skemmst að minnast að þegar úttekt var gerð á þeim þætti í rekstri farþegaskipa þótti ábótavant hvernig menn voru í stakk búnir til að bregðast við og það er ekki síst í samhengi við það sem þetta ákv. til brb. er sett inn til að skerpa á mikilvægi þjálfunar skipshafna, þjálfunar þeirra sem þurfa að sinna þjónustu við farþega á sjó og að sjómenn kunni vel til verka og fari ekkert á milli mála að unnið sé fumlaust og ákveðið þegar upp kynni að koma neyðarstaða.

Svo mörg voru þau orð um frv. til laga um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta.

Ég ítreka að nefndin telur mjög mikilvægt að frekari frumvörp fylgi í kjölfarið, sem ég hef getið um, og að á næsta starfsvetri Alþingis verði unnt að fjalla um þessi mál og hnýta upp, því það er auðvitað kominn tími til að spúla dekkið í þessum efnum á margan hátt. Það er gert í þessu frv. og reynt að koma þessu skilvirkt og markvisst fyrir, farið svolítið úr fornum hjólförum og reynt að leysa þannig úr ákveðnum hlutum sem hafa skapað vanda um langt skeið.