Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 16:32:37 (6913)

2000-05-04 16:32:37# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[16:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Vegna orða hv. þm. og þeirra spurninga sem hann bar upp alveg í lokin verð ég að segja að ég hef ekki þær áhyggjur af þessu máli eins og hv. þm. virðist hafa. Ég tel að þessi tilskipun falli ágætlega að orkumálum okkar og við í iðn.- og viðskrn. erum komin mjög langt með að vinna frv. til breytinga á raforkulögum sem er unnið í framhaldi af þeirri skýrslugerð sem hv. þm. vitnaði til. Það munaði bara hársbreidd að við hefðum getað sýnt það frv. á hv. Alþingi áður en því lýkur í vor en því miður verður það ekki en því mun verða dreift strax í haust og ég tel að þar sé um mjög metnaðarfullar tillögur að ræða fyrir okkar hönd.

Ég get tekið undir með hv. þm. að orkumál okkar eru á margan hátt sérstök og á margan hátt mikið ævintýri og við getum verið mjög hreykin af því hvernig við höfum leyst okkar mál á þessu sviði. Það sem hv. þm. talaði mest um, að hér eigi að koma á samkeppni bæði í vinnslu og sölu, er náttúrlega mál sem ekki þarf að koma neinum á óvart. Ég minni á að fyrrv. hæstv. iðnrh. lagði fram á hv. Alþingi þáltill. um nýskipan raforkumála þar sem þessi mál voru öll til umfjöllunar og hv. þm. höfðu þá tækifæri til þess að fjalla um málið þó að tillagan hafi ekki verið afgreidd endanlega, og varð ég ekki vör við að svo gífurlegur ágreiningur væri um framtíðarskipan þessa mikla og mikilvæga málaflokks.

Mér held að það gæti orðið neytendum í hag að þessari samkeppni verði komið á og hugsunin er sú. Ég óttast ekki það sem hv. þm. talaði einnig um og varðar einkavæðingu á þessu sviði. Með þeim hugmyndum sem uppi eru er reiknað með að hvað varðar Landsnetið svokallaða verði ekki um samkeppni að ræða og eignaraðilar að því verða þeir sem eiga núna þær línur sem mynda þetta Landsnet og síðan getum við séð til með hvernig það mun þróast í framtíðinni en í flutningnum á Landsnetinu yrði ekki um samkeppni að ræða heldur í vinnslunni og síðan í sölunni.

Við skulum reikna með að með því að neytendur fái valið þurfi ekki að hafa áhyggjur af því sem hv. þm. nefndi einnig og varðaði það að tryggja jafnt verð á raforku um allt land.

Mér finnst þetta mál vera langt komið í vinnslu í ráðuneytinu og ég er sjálf mjög áhugasöm um að vonandi á þessu ári geti verið hægt að breyta raforkulögunum þannig að áfram verði haldið á þeirri braut að koma á samkeppni í orkugeiranum. Í sjálfu sér er það engin nýjung að við þurfum að taka upp samkeppni í sambandi við vinnsluna. Ég held að allmörg ár séu síðan við gerðum okkur grein fyrir því að Landsvirkjun gæti ekki haldið þeirri einokun sem má segja að hún hafi haft á því sviði.

Svo getur hv. þm. náttúrlega haft áhyggjur af og verið ósammála því að vera aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar er ég ekki sammála honum. Ég tel að í sjálfu sér hafi það verið gæfuspor að við Íslendingar skyldum stíga það skref. Og þetta mál er eitt af því sem þar hefur verið til umfjöllunar. Auðvitað má segja að Ísland eða Alþingi hefði mátt koma meira að málinu á undirbúningsferli þess eins og sjálfsagt að öllum málum sem varða Evrópska efnahagssvæðið. En ég tel að ekki þurfi að koma neinum á óvart núna að málið og staða þess sé í þeim farvegi sem raun ber vitni.