Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:10:10 (6921)

2000-05-04 17:10:10# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:10]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þegar kemur að samkeppni þá gæti ég í samræmi við þá kenningu kvennakirkjunnar að Jesús sé kona, vitnað í Biblíuna með eftirfarandi hætti: ,,Mikil er trú þín maður.`` Þegar kemur að samkeppni þá er trú hv. þm. Péturs Blöndals óbifanleg. Það skal ætíð, ævinlega og alls staðar vera þannig að hún sé lausnarorð alls vanda.

Ég tel að samkeppni sé góðra gjalda verð þar sem forsendur eru fyrir henni og hún, óbjöguð, getur tryggt góða þjónustu og skynsamlega verðlagningu. En orkuframleiðsla og þá sérstaklega orkuflutningar og orkudreifing er óvenjulega óheppilegt dæmi í því sambandi. Hefur hv. þm. Pétur Blöndal trú á því að það verði mikil samkeppni um að leggja raforkulínur um landið og selja landsmönnum raforku, a.m.k. hinum dreifðu byggðum landsins? Það kann vel að vera að hægt sé að útfæra leikreglur sem tryggi að einhver tiltekin samkeppni í framleiðslu geti komist á. Þó eru á því ýmis vandkvæði, m.a. þau að fjárfesting er gríðarleg í fáum en mjög stórum mannvirkjum þegar þetta á í hlut o.s.frv. Þetta á því mest lítið skylt með svona dagsdaglegum atvinnurekstri þar sem samkeppnislögmálin eiga betur við.

Herra forseti. Ég held að hyggilegt sé að reyna að ræða þetta sem minnst sem trúarbrögð en meira af skynsemi og sem yfirvegaðar staðreyndir og þær eru tilteknar þegar að stöðu Íslands kemur, að núverandi stöðu mála í þessu sambandi, og ég hef aðallega byggt málflutning minn og röksemdafærslu á því sem ég veit um þá hluti en minna á kennisetningum eða trúarbrögðum.