Staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:13:55 (6923)

2000-05-04 17:13:55# 125. lþ. 106.6 fundur 587. mál: #A staðfesting ýmissa ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar# þál. 12/125, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:13]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er einmitt meinið að sá sem hér talar hefur gert það. Ég hef fylgst með reynslunni af einkavæðingu og samkeppni í orkumálum, t.d. bæði í Bretlandi og Nýja-Sjálandi og ég leyfi mér að halda því fram að það hafi ekki verið til hagsbóta almennum notendum í þeim löndum. Reyndar mætti bæta þar við New York fylki við sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi hér.

Ég ætla ekki að fara að taka afstöðu í þessu máli eða færa það niður á það plan að menn eigi að horfa á hagsmuni sinna kjördæma og vera svo með eða á móti samkeppni eða einkavæðingu orkufyrirtækja út frá því. Þetta er grundvallarmál í mínum huga og ég tek afstöðu til þess sem slíks. Ég tel að þessi þróun hafi einmitt sýnt á sér stórkostlega ágalla þar sem þetta hefur verið gert vegna þess að það er verið að reyna að þvinga fram samkeppni á sviði þar sem viðskiptin lúta eðli málsins samkvæmt alltaf og óhjákvæmilega í besta falli fákeppnisaðstæðna en oftar en ekki einokunaraðstæðna vegna þess hvers eðlis þessi viðskipti eru. Það er erfitt að sýna fram á hagkvæmni þess að leggja margföld dreifikerfi um landið eða margar raflínur inn í hvert einasta hús eða margar vatnspípur o.s.frv. Og þá sitja menn uppi með það að alltaf verða vandamál því samfara að ætla eftir sem áður að reyna að þvinga þarna inn einhverjar samkeppnisaðstæður. Og þau hafa alls staðar skotið upp kollinum þar sem menn hafa verið að reyna þetta.

Auðvitað hefur verið knúið á um það af ofstækisfyllstu frjálshyggjumönnum víða um lönd að einnig þetta svið sé gert að markaðstorgi gróðaaflanna þannig að menn geti grætt á þessu eins og öðru og það hafa menn ótæpilega gert og það reyndar svo mjög að í Bretlandi varð að taka í taumana þegar veitufyrirtækin þar höfðu farið offari í okri um nokkurra ára skeið eftir að þau fengu til þess aðstöðu á Thatcher-tímanum.

Mér finnst hv. þm. Pétur Blöndal eiga sér þá þjóðfélagssýn í þessum efnum að það eigi að innleiða frumskógarlögmálið einnig í raforku og láta þá rafmagnið þess vegna vera tíu sinnum dýrara á Bakkafirði en í Reykjavík og senda svo Bakkfirðingum einhver aumingjastyrki til þess að vega þar eitthvað upp á móti. Ég vil beita samtakaaflinu og m.a. opinberum fyrirtækjum til að gera þetta á annan hátt.