Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 17:34:29 (6927)

2000-05-04 17:34:29# 125. lþ. 106.5 fundur 225. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (fjöldauppsagnir) frv. 67/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er að hefjast umræða sem mun að öllum líkindum taka nokkurn tíma. Fyrir liggur að ræða frv. til laga um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þetta er 3. umr. málsins. 2. umr. var stutt en markviss og gekk út á það fyrst og fremst að fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann tæki þetta mál út úr þingsal og leitaði eftir því að ná samkomulagi við samtök opinberra starfsmanna, þau samtök þeirra starfsmanna sem eiga hlut að þessum lögum eða lögin taka til. Nú hefur komið á daginn að hæstv. fjmrh. vill ekki hafa þann hátt á heldur taka þessa umræðu áfram. Út á hvað gengur þetta mál, herra forseti?

Frv. er ekki mikið að vöxtum. Það er tvær lagagreinar. Sú fyrri er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Það telst til verkfalla í skilningi laga þessara þegar starfsmenn leggja niður venjuleg störf sín að einhverju eða öllu leyti í því skyni að ná tilteknu sameiginlegu markmiði. Sama gildir um aðrar sambærilegar aðgerðir af hálfu starfsmanna sem jafna má til verkfalla.``

Síðan kemur 2. gr. frv. og kveður á um að lög þessi öðlist þegar gildi.

Í athugasemdum með lagafrv. er fyrst vikið að svokallaðri friðarskyldu. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Í friðarskyldunni felst að aðilar mega ekki á samningstímabilinu knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun, þ.e. verkfalli eða verkbanni. Almennt hefur verið talið að friðarskyldan hvíli bæði á aðilum kjarasamnings og þeim sem bundnir eru af ráðningarsamningum sem styðjast við kjarasamninginn. Meginsjónarmiðið um að samninga beri að virða liggur til grundvallar friðarskyldunni en kjarasamningum er ekki síst ætlað að skapa starfsfrið á samningstímanum.``

Þetta segir m.a. í athugasemdum með frv.

Síðan er vikið að því að á undanförnum árum hafi það ítrekað gerst að fjöldi starfsmanna í sömu starfsstétt hjá hinu opinbera hafi sagt störfum sínum lausum á svipuðum tíma vegna óánægju með launakjör og að slíkum uppsögnum hafi jafnan eða yfirleitt fylgt að gengið hafi verið til viðræðna um kjörin og að viðræðunum hafi ætíð lyktað með einhvers konar samkomulagi eða samningi um launahækkanir til starfsmanna sem hafa þá dregið uppsagnir sínar til baka eða sótt aftur um fyrri störf.

Síðan er í þeim athugasemdum, sem fylgja frv., vísað í nýfallinn dóm Félagsdóms sem féll í lok síðasta árs og var til úrlausnar hvort uppsagnir fjölda opinberra starfsmanna í sömu starfsstétt á sama tíma hjá sveitarfélaginu Árborg fælu í sér brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings. Um var að ræða 12 leikskólakennara sem höfðu sagt upp störfum á leikskóla í Árborg og sveitarfélagið sótti starfsmennina eða öllu heldur félag þeirra til saka.

Síðan er í athugasemdunum farið nokkrum orðum um þær lagabreytingar sem verið er að gera tillögur um og segir að þær gangi fyrst og fremst út á að samræma lögin sem gildi um opinbera starfsmenn því sem gerist á almennum vinnumarkaði og fella lagagrein um sama efni frá lögum nr. 80/1938, reyndar með breytingum sem gerðar voru 1996 einmitt á þeirri lagagrein sem hér kemur til álita, inn í lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Nefndin sem fjallaði um þetta mál, efh.- og viðskn. Alþingis, klofnaði og meiri hlutinn, sem saman stendur af þingmönnum stjórnarmeirihlutans, var eindregið á því að það bæri að gera þessar breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og einnig í nefndarálitinu líkt og gerðist í athugasemdum með frv. er vísað til félagsdómsmálsins í sveitarfélaginu Árborg.

Þessi dómur Félagsdóms er nokkuð undarlegur fyrir ýmissa hluta sakir og sannast sagna kom mér ekki á óvart að hann féll á þann veg sem hann féll. En svo fór að stafsmennirnir eða félag þeirra var sýknað af kröfum Árborgar. Þetta kom mér ekki á óvart og ég held fáum sem vel þekkja til þessara mála.

Í fyrsta lagi gengu dómkröfur stefnanda út á það að fá viðkomandi starfsmenn sem sagt höfðu upp störfum sínum dæmda fyrir brot á friðarskyldu á gildistíma kjarasamnings þannig að staðfest yrði með dómsúrskurði að um ólögmæta vinnustöðvun hefði verið að ræða.

Í öðru lagi var þess krafist að stefndi yrði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Félagsdómi, þar með talinn kostnað stefnanda af lögmannsþjónustu. Hver skyldi nú hafa verið hinn stefndi? Hinn stefndi var Félag íslenskra leikskólakennara, til húsa að Grettisgötu 89 í Reykjavík. Félaginu var stefnt. Ef svo hefði farið að málinu hefði verið stillt upp á þann veg að félagið hefði einnig verið gert ábyrgt fyrir umræddri vinnustöðvun, sem hefði verið eðlilegt að mínum dómi að gera, þ.e. að ganga úr skugga um að sá sem verið er að stefna væri ábyrgur fyrir lögbroti, þá hefði verið heil brú í þessum málatilbúnaði. En svo er ekki. Í greinargerð sem fylgir dómsúrskurðinum kemur fram að stefndi hafi lagt áherslu á að Félag íslenskra leikskólakennara hafi engan þátt átt í ákvörðun leikskólakennaranna um að segja upp störfum. Engu að síður er verið að höfða mál þar sem félagið er gert skaðabótaskylt og málið er höfðað á þeirri forsendu að félagið sé sekt. En um leið segir í málflutningnum að félagið sé með öllu saklaust. Hér stendur ekki steinn yfir steini. Það er ekki heil brú í þessu. Ekki var við því að búast að Árborg mundi vinna þetta mál. Það bjuggust afskaplega fáir við því enda kemur fram að það er félagið sem er gert ábyrgt í kröfu á hendur því og skaðabótaskylt. En jafnframt er þess getið að það hafi ekki á nokkurn hátt komið nærri þessum málum. Því er beinlínis lýst yfir þannig að ekki var við því að búast að málið mundi vinnast af hálfu Árborgar.

Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, í þeim lagabálki sem verið er að gera tillögu um að breytingar verði gerðar á, kemur fram í 13. gr. að aðilar kjarasamnings beri fébótaábyrgð á samningsrofum sem þeir sjálfir eða fulltrúar þeirra gerast sekir um í störfum sínum fyrir þá. Á samningsrofum einstakra félagsmanna bera félög því aðeins ábyrgð að þeim verði gefin sök á samningsrofinu. Út á þetta hefði málflutningurinn að sjálfsögðu átt að ganga. Þess vegna er það svo að samkvæmt lögum sem gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna er hægt að fá stéttarfélög dæmd ef þau eiga hlut að máli, ef þau hafa komið að vinnustöðvuninni sem er ekki í samræmi við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar eru sett mjög ströng skilyrði fyrir því hvenær megi beita verkfallsvopninu og miklu strangari skilyrði en þekkjast í þeim lögum sem gilda um hinn almenna vinnumarkað. Þetta er staðreynd. Það eru miklu þrengri reglur, það eru miklu meiri skorður reistar, í lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna en í lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938. Því er ekki saman að jafna.

[17:45]

Ef stéttarfélag er ábyrgt fyrir samningsrofi er hægt að sækja það til saka. Um þetta eru skýr ákvæði í þessum lögum. Stjórnarmeirihlutinn segir með öðrum orðum: Það er fallinn dómur í máli okkur í óhag og nú þurfum við að breyta lögunum og það er eðlilegt að þeim verði breytt til samræmis við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Eða vilja menn ekki samræma þær leikreglur sem almennt gilda í þjóðfélaginu um þessi efni? Jú. Ég er sammála því. En þá skulum við líka ganga alla leið og ekki aðeins taka það sem atvinnurekendahliðin telur sér henta þá stundina, heldur skulum við ganga alla leið.

Þá skulum við hyggja að því hvernig þessi lög eru til komin. Hvernig skyldu þau vera til komin? Það vill svo til að þau lög byggja á kjarasamningum. Þau byggja á kjarasamningum frá því í árslok 1986. En 24. nóvember árið 1986 var undirritað samkomulag af hálfu fjmrh., af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og af hálfu BSRB, BHM og Bandalagi kennarafélaga hins vegar. Þetta samkomulag er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Með kjarasamningum fjármálaráðherra á þessu ári við heildarsamtök opinberra starfsmanna, þ.e. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), launamálaráð ríkisstarfsmanna innan BHM (BHMR) og Bandalag kennarafélaga (BK), fylgdu bókanir þess efnis að nefndir samningsaðilar skyldu undirbúa endurskoðun á núgildandi lögum um gerð kjarasamninga.

Eftir fyrstu fundi í þessum nefndum, þar sem kynntar voru fyrstu hugmyndir um breytingar á núgildandi kjarasamningalögum, ákváðu bandalögin að ganga sameiginlega til þessara viðræðna og undirbúnings. Eftir að viðræður voru hafnar óskaði Samband íslenskra sveitarfélaga eftir aðild að viðræðunum og tók síðan þátt í þeim.

Um miðjan nóvember lagði viðræðunefndin fram drög að nýju frumvarpi um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem kynnt var innan bandalaganna. Í framhaldi af því var vinnu við frumvarpið lokið og liggur það nú fyrir í þeirri mynd sem viðræðunefndin og forustumenn framangreindra heildarsamtaka opinberra starfsmanna hafa komið sér saman um, eins og eftirfarandi samkomulag, sem aðilar undirrituðu 24. nóvember sl., ber með sér en það hljóðar svo:

,,Í efnislega samhljóða bókunum með aðalkjarasamningum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM og Bandalags kennarafélaga er ákveðið að aðilar þeirra samninga vinni að endurskoðun á gildandi lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Fulltrúar aðila að þessum samningum hafa ásamt fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga unnið sameiginlega að þessum málum síðastliðna mánuði og hafa samið drög að frumvarpi til laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Meginbreytingar frumvarpsins frá gildandi lögum eru:

1. Ein lög gildi um kjarasamninga opinberra starfsmanna hjá ríki, sveitarfélögum og stofnunum þeirra.

2. Þau félög, sem nú hafa sérkjarasamninga við ríki eða sveitarfélög á grundvelli gildandi laga, fái fullan samningsrétt og verkfallsrétt og önnur stéttarfélög fái þennan rétt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

3. Undanþágur frá verkfalli verði skýrt markaðar í lögunum, kjaradeilunefnd verði lögð niður og hafa aðilar náð samkomulagi um stefnumarkandi lista um þá sem verði undanþegnir verkfalli, skv. 19. grein frumvarpsins.

Efni frumvarpsins hefur verið kynnt innan þeirra heildarsamtaka sem aðild hafa átt að samningu frumvarpsins og eru þau ásamt fulltrúum fjármálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga sammála um að leggja til að frumvarp þetta verði lagt fram hið fyrsta sem stjórnarfrumvarp. Mun fjármálaráðherra beita sér fyrir því að fá frumvarp þetta samþykkt á Alþingi á þessu ári.

Reykjavík, 24. nóvember 1986.````

Undir þetta rita fyrir hönd BSRB, Kristján Thorlacius, fyrir hönd launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM, Birgir Björn Sigurjónsson, fyrir hönd Bandalags kennarafélaga, Elín G. Ólafsdóttir. Fjmrh. Þorsteinn Pálsson undirritar samkomulagið, Indriði H. Þorláksson og Þorsteinn Geirsson. En fyrir hönd Sambands ísl. sveitarfélaga undirritar Magnús E. Guðjónsson þetta samkomulag sem var gert í nóvembermánuði árið 1986.

Í hvaða plagg skyldi ég vera að vitna? Jú, ég var að lesa samkomulag. En ég var að vitna í athugasemdir sem ríkisstjórnin birti með frv. sínu um þetta efni. Ég er að vitna í athugasemdir við lagafrv. þar sem skýrt er tekið fram að hér sé um samninga að ræða, enda kom það fram við umræðuna sem fram fór á Alþingi í kjölfarið.

Fyrir þessu frv. mælir þáv. fjmrh. landsins, Þorsteinn Pálsson. Honum verður tíðrætt um tildrögin að því að frv. er lagt fram. Hann segir, og vitna ég í umræður sem fram fóru á þingi 3. desember 1986, með leyfi forseta:

,,Meginrökin fyrir sérstökum lögum um samningsrétt opinberra starfsmanna felast annars vegar í sérstöðu þeirra hvað ráðningarkjör varðar og hins vegar í sérstöðu ríkisins sem vinnuveitanda og þeim skyldum sem ríkið hefur lögum samkvæmt á ýmsum sviðum og ekki má verða háð verkfalli hvort sinnt verður eða ekki.

Eftir fyrstu fundi í nefndum með hverju bandalagi um sig`` --- áður hafði ráðherrann vísað í viðræður sem hann hafði átt við bandalögin --- ,,þar sem kynntar voru fyrstu hugmyndir um breytingar á núgildandi kjarasamningalögum ákváðu bandalögin að ganga sameiginlega til þessara viðræðna og undirbúningsvinnu. Skipuðu þessir aðilar sameiginlega viðræðunefnd sem skilaði af sér 24. nóv. sl. frv. þessu og samkomulagi allra þessara aðila, fjmrn. og fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga um að vinna því brautargengi.``

Um að vinna því samkomulagi brautargengi, þeim samningi sem gerður hafði verið af hálfu ríkisstjórnarinnar, af hálfu hæstv. þáv. fjmrh., Þorsteins Pálssonar, við þessi samtök. Hér velkist enginn í vafa um að menn eru að tala um samning. Menn eru að tala um samkomulag og samning. Áður hafði ég vísað í skírskotun í kjarasamning vegna þess að þetta samkomulag var byggt á bókunum í kjarasamningum sem gerðir höfðu verið.

Undir lok framsöguræðu sinnar segir fyrrv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Herra forseti. Ég hef í máli mínu rakið aðdraganda og helstu atriði þess frv. sem hér liggur fyrir. Mál þetta er brýnt. Miklu skiptir að samskipti og samningar um kaup og kjör milli ríkis og sveitarfélaga og starfsmanna þeirra geti farið fram með eðlilegum hætti og samkvæmt leikreglum sem báðir aðilar viðurkenna.``

Þetta sagði forveri hæstv. fjmrh., Geirs Haarde, Þorsteinn Pálsson, á Alþingi um það lagafrv. sem hér er til umræðu og byggir á einhliða ákvörðun hæstv. fjmrh. þvert á vilja þeirra samtaka sem áttu aðild að þessu samkomulagi. Hér er fyrrv. fjmrh. að tala um þær leikreglur og þær séu með eðlilegum hætti og samkvæmt leikreglum sem báðir aðilar viðurkenna og ég held áfram, með leyfi forseta, og sleppi nokkru úr:

,,Að samningu þessa frv. unnu með fjmrn. öll heildarsamtök opinberra starfsmanna en innan þeirra eru næstum allir þeir starfsmenn sem lögin munu taka til, ef samþykkt verða. Fulltrúar þessara aðila hafa lagt fram mikið starf og sýnt mikinn samstarfsvilja í þeim tilgangi að tryggja málinu brautargengi. Fullkomin samstaða er milli þeirra og fjmrn. um frv. þetta og ágreiningur um einstök atriði var lagður til hliðar í stað þess að láta hann spilla öðrum málum brýnni og mikilvægari sem full samstaða er um.``

Síðan lýkur fyrrv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, máli sínu.

Næstur tekur til máls í þeirri umræðu fyrrv. alþm. Svavar Gestsson. Hann ítrekar þetta sjónarmið að á ferðinni sé frv. sem sé í reynd samningur milli félaga opinberra starfsmanna annars vegar, þ.e. Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, launamálaráðs ríkisstarfsmanna innan BHM og Bandalags kennarafélaga og opinberra aðila, sveitarfélaga og ríkisins hins vegar.

Ég var þar kominn í máli mínu þegar hæstv. fjmrh. þurfti að bregða sér frá að ég hafði vitnað í framsöguræðu fyrrv. fjmrh., Þorsteins Pálssonar, þar sem hann lagði áherslu á að sátt ríkti um þær reglur sem menn settu sér varðandi kjarasamninga opinberra starfsmanna og að frv. sem þá lá fyrir væri byggt á samkomulagi. Ég vék einnig að því að í máli annarra þingmanna hefði það sjónarmið komið fram, t.d. í máli fyrrv. hv. þm., Svavars Gestssonar, sem fyrstur tók til máls um þetta efni.

En núv. hæstv. félmrh. hefur í seinni tíð haft talsverð afskipti af félagslegum málum, þar á meðal samningum um stéttarfélög og vinnudeilur, og hefur ekki alltaf ríkt sátt um störf hans. En hann þekkti hug sinn í þessu efni, a.m.k. á þessum tíma, 1986, því að hann sagði um þetta efni, með leyfi forseta:

,,Þarna er um samning að ræða sem ég held að hafi tekist dável og hafi verið unnið skynsamlega að og ég kann þeim þakkir sem festu hann á blað. Það er alveg ljóst að á þeim lögum sem í gildi eru hafa komið í ljós ýmsir annmarkar og ágreiningur hefur risið um túlkun á ýmsum ákvæðum laganna. Þannig held ég að fullkomin ástæða sé til að finna betra form á þessi vandasömu og viðkvæmu samskipti. Ég held að það hafi verið unnið skynsamlega að undirbúningi þessarar lagasetningar hér til og ég vonast eftir því að Alþingi beri jafnframt gæfu til að vinna skynsamlega að sínum hluta.``

Hæstv. félmrh., Páll Pétursson, komst svo að orði um þau lög sem hæstv. fjmrh. gerir tillögu um að Alþingi breyti einhliða án samráðs, án samkomulags, ekki er nú alveg rétt að það sé án samráðs að öllu leyti, en án samkomulags við hlutaðeigandi stéttarfélög.

[18:00]

Það voru að sjálfsögðu margir aðrir sem tóku til máls. Um þetta spunnust allmiklar umræður í þinginu og um minni háttar breytingar sem voru gerðar á frv. kom fram, m.a. hjá hæstv. félmrh., Páli Péturssyni, þáv. hv. þm., við annað tækifæri, við aðra umræðu, ítrekun á að um samkomulagsmál fjmrn. og BSRB, BK, þ.e. Bandalag kennarafélaga og BHMR væri að ræða.

,,Ekki var því tiltækilegt að breyta því mikið`` --- sagði hæstv. núv. félmrh. --- ,,en málsaðilar óskuðu eftir því að viðbótarsamkomulag, sem þeir höfðu gert með sér, birtist í nál. þannig að um túlkun á ákveðnum atriðum í 14. gr. og 17. gr. frv. yrði ekki ágreiningur.`` --- Á 14 gr.? Er það ekki sú grein sem við erum að gera breytingu á núna? Ég hefði haldið það. Þarna er tekið með þeim hætti á málum að þegar um er að ræða breytingu sem gera á á frv., þá gæta menn mjög vel að því að það sé gert í sátt við þá aðila sem stóðu að samkomulagi um frv.

Talsverð umræða spannst um bæði 14. og 17. gr. frv., en upp úr stendur að um samkomulag sé að ræða.

Fyrrv. alþm. Svavar Gestsson, segir á einum stað: ,,Hér er einnig um að ræða samkomulagsmál sem fulltrúar BHMR, BSRB og BK litu á sem hluta af samkomulagspakka þannig að ég mun fyrir mitt leyti láta þetta frv. fara afskiptalaust hér í gegn.``

Guðrún Agnarsdóttir, fyrrv. alþm., kemst svo að orði, með leyfi forseta: ,,Það ber að gleðjast yfir þeim góðu vinnubrögðum sem höfð voru við gerð þessa frv. Þau eru árangur af samstarfi fjmrn., Sambands ísl. sveitarfélaga og viðkomandi stéttarfélaga, BSRB, BHMR og BK eða Bandalags kennarafélaga. Á fund nefndarinnar komu fulltrúar þeirra hagsmunasamtaka launafólks sem í hlut eiga og lögðu þeir mikla áherslu á það að fullt samkomulag væri um öll frv. fjögur.`` --- Hér er vísað í frv. um lögreglumenn og önnur frv. sem voru þá einnig fyrir þinginu, allt byggt á samkomulagi. --- ,,Þeir lögðu jafnframt mikla áherslu á að þau fengju afgreiðslu á Alþingi fyrir jól. Við þingkonur Kvennalistans höfum ekkert við þrjú þessara frv. að athuga og stöndum að samþykkt þeirra og fögnum þeirri auknu réttarstöðu sem opinberir starfsmenn fá með samþykkt þeirra.``

Í sama streng tekur Kjartan Jóhannsson, fyrrv. alþm. Hann segir m.a.: ,,Eins og komið hefur fram í máli þeirra sem talað hafa hér á undan mér af hálfu nefndarmanna er hér fyrst og fremst um að ræða samkomulagsatriði aðila vinnumarkaðarins, þ.e. fjmrn. annars vegar og BSRB og BHMR hins vegar og BK.``

Þegar fer að nálgast lokastig umræðunnar nokkrum dögum síðar ítrekar fyrrv. fjmrh., Þorsteinn Pálsson, þá afstöðu enn. Hinn 15. desember 1986 segir hann, með leyfi forseta:

,,Með samkomulagi sem gert var 24. nóvember sl. milli fjmrn. annars vegar, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, launamálaráðs starfsmanna innan BHM og Bandalags kennarafélaga hins vegar varð samkomulag um stuðning við meginbreytingar á gildandi lögum.``

Hann segir enn fremur við afgreiðslu málsins hinn 17. desember --- nei, ég fer með rangt mál, þetta er ekki Þorsteinn Pálsson, þáv. fjmrh., sem kemst svo að orði, heldur hv. núv. þm. Jón Kristjánsson og sakna ég hans úr salnum, það væri skemmtilegt fyrir hann að heyra hver afstaða hans var þegar þessi mál voru til umfjöllunar á Alþingi 1986. Því hann sagði þá, með leyfi forseta:

,,Svo háttar með þetta mál að það hefur verið til umfjöllunar í neðri deild og var samþykkt þar samhljóða, enda byggist þetta á kjarasamningum ríkisins við BSRB. Nefndin hefur rætt frv. og haft samband við formann BSRB um efni þess og leggur til að frv. verði samþykt óbreytt.``

Fyrrv. alþm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir segir einnig líkt og hver einasti þingmaður sem tekur til máls og tjáir sig um málið, með leyfi forseta:

,,Það er náttúrlega ljóst þegar um samkomulagsmál er að ræða að allir hafa þurft að láta nokkuð af sínum ýtrustu óskum og vitaskuld er þetta frv. því marki brennt.``

Ég ætla ekki að vitna meira í þær umræður sem fram fóru í nóvember og desember árið 1986, en ég held að enginn þurfi að velkjast í vafa um það lengur að hér er um að ræða lagafrv. sem byggði á kjarasamningum og samkomulagi. Það segir svo og er tekið skýrt fram í athugasemdum með frv. að svo hafi verið. Reyndar er samkomulagið birt sem þinggagn og við umræður á þinginu var hver einasti aðili sem tók til máls um málið, bæði jafnt úr stjórnarliði sem stjórnarandstöðu á því máli að um samninga væri að ræða á milli fjmrn. og Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og samtaka launafólks hins vegar, BSRB, BHMR og Bandalags kennarafélaga.

Hingað erum við komin þá í mannkynssögunni að hæstv. fjmrh., Geir H. Haarde, hefur lagt fram lagafrv. um breytingar á þessum lögum sem byggja á kjarasamningum og samkomulagi. Það gerir hann einhliða og í ósátt við þau samtök sem áttu hlut að fyrrnefndu samkomulagi og samningum. Hann gerir það í ósátt við þau. Eru þau mjög andsnúin þessum breytingum sem verið er að leggja til? Þau eru andsnúin því að farið sé fram með þessum hætti.

Í landinu gilda almenn lög um stéttarfélög og vinnudeilur, lög sem voru upphaflega samþykkt árið 1938, en á þeim hafa verið gerðar síðari breytingar. Þetta eru almenn lög sem taka til vinnumarkaðarins. Síðan eru önnur lög, lög sem gilda um kjarasamninga opinberra starfsmanna og það eru þau lög sem ég hef vitnað í og eru frá árinu 1986. Þau taka á því sem sértækt er fyrir opinbera starfsmenn, þau taka á þeim málum. Samkvæmt þessum lögum og öðrum sem gilda um opinbera starfsmenn hefur t.d. fjmrh., atvinnurekendahliðin ýmis tæki og völd á hendi sem atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði hafa ekki. Hæstv. fjmrh. getur t.d. framlengt ráðningarsamninga einstaklinga. Ef einstaklingar segja upp störfum svo margir að til auðnar horfir í stéttinni, eitthvað á þá leið segir í lögum, þá getur hæstv. fjmrh. framlengt ráðningarsamninga viðkomandi einstaklinga. Hann getur tekið af þeim völdin og framlengt þessa samninga. Það hefði hann t.d. getað gert gagnvart hjúkrunarfræðingum á sínum tíma og gagnvart sjúkraliðum núna. Til slíkra ráða hefði verið hægt að grípa.

En hvað er það þá sem vakir fyrir hæstv. fjmrh.? Vill hann fá fólkið dæmt, er það það? Þarf að fá fólk dæmt fyrir lögbrot? Eða gera menn sér ekki grein fyrir því að ef ekki ríkir sátt um þær reglur sem eiga að gilda um verkföll og vinnudeilur, þá verður hún aldrei búin til með lögregluvaldi. Hún verður því aðeins til að allir hlutaðeigandi aðilar vilji að reglurnar og lögin gangi upp. Þannig verður friður tryggður.

Ég get alveg fullvissað hæstv. fjmrh. um að innan samtaka opinberra starfsmanna hafa margir haft áhyggjur af þeirri tilhneigingu sem hefur gætt í vaxandi mæli, að hópar starfsfólks beita hópuppsögnum, stéttir beita hópuppsögnum. Menn hafa af því vaxandi áhyggjur.

En menn hafa ekkert síður áhyggjur af framgöngu atvinnurekendahliðarinnar. Menn hafa ekkert síður áhyggjur af því þegar t.d. er spurt um kjaraþróun innan sjúkrahúsanna, eins og gert var hér um daginn. Beint var spurningum til hæstv. fjmrh. og það var svarað út í hött eða engu svarað. Það er bara svarað útúr. Menn hafa áhyggjur af því ef ekki er staðið við samninga gagnvart því fólki sem hlut á að máli. Það eru tveir aðilar sem koma að samningum, þ.e launagreiðandinn og launamaðurinn.

Auðvitað hafa menn af því þungar áhyggjur þegar ekki er staðið við kjarasamninga. Að sjálfsögðu hafa menn það. Og þegar verið er að reyna að ganga úr skugga um hvernig atvinnurekendahliðin hefur staðið að verki, t.d. með því að fá upplýsingar á borðið eins og krafist var hér um daginn, þá fá menn ekki svör, það er bara svarað útúr. Ef svarað er þá yfirleitt. Það var ekki gert gagnvart þeim spurningum sem ég bar fram. Þeim var mörgum hverjum ekki svarað af því það hentaði ekki.

Þegar menn síðan koma fram á þennan hátt og ætla einhliða að rifta samningum og samkomulagi sem gert hefur verið og skella framan í launafólkið og gegn vilja þeirra samtaka, frv. af því tagi sem hér liggur fyrir, þá hafa menn að sjálfsögðu áhyggjur af því. Ekki einvörðungu út af lagagreininni, heldur framgangsmátanum og afstöðu ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjmrh. í þessu tilviki. Enda eru umsagnir sem komið hafa um frv. mjög í þessum anda.

Hér segir t.d. í umsögn sem þinginu barst frá BSRB, með leyfi forseta:

,,BSRB leggst alfarið gegn því að frv. þetta verði að lögum með eftirfarandi röksemdum:

1. Frumvarpið er brot á samkomulaginu. Í árslok 1986 voru sett ný heildarlög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þau voru sett á grundvelli samkomulags um efni laganna sem undirritað var 24. nóvember 1986 milli BSRB, BMH og Bandalags kennarafélaganna annars vegar og fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar. Með umræddu frumvarpi er fjármálaráðherra að breyta lögunum einhliða og án samráðs við samtök launafólks. Með þessu er fjármálaráðherra að rifta því samkomulagi sem gilt hefur í 13 ár um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem vinnuveitenda og stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem fulltrúa launafólks.``

[18:15]

Í athugasemdum við lagafrv. þetta kemur eftirfarandi fram í 1. mgr., með leyfi forseta:

,,Meðan kjarasamningar eru í gildi ríkir svokölluð friðarskylda. Í friðarskyldunni felst að aðilar mega ekki á samningstímabilinu knýja fram breytingar á því sem um hefur verið samið með vinnustöðvun, þ.e. verkfalli eða verkbanni. Almennt hefur verið talið að friðarskyldan hvíli bæði á aðilum kjarasamnings og þeim sem bundnir eru af ráðningarsamningum sem styðjast við kjarasamninginn. Meginsjónarmiðið um að samninga beri að virða liggur til grundvallar friðarskyldunni en kjarasamningum er ekki síst ætlað að skapa starfsfrið á samningstímanum.`` --- Ég er að vitna, herra forseti, í umsögn BSRB, en í þeirri umsögn er vísað í athugasemdir með frv.

Í álitsgerð BSRB segir síðan áfram, með leyfi forseta:

,,Er lögð áhersla á mikilvægi þess að friðarskylda sé virt meðan kjarasamningar eru í gildi. Undir það tekur BSRB. Fullur vilji hefur verið hjá BSRB að ræða um þær breytingar sem koma fram í frumvarpinu. Jafnframt hefur BSRB lagt fram tillögur um breytingar á lögunum sem bandalagið telur brýnt að eigi sér stað samhliða þeirri breytingu sem fjármálaráðherra vill gera á frumvarpinu. Þá hefur BSRB ítrekað lýst því yfir að rétt sé að endurskoða lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna frá grunni með hagsmuni ríkisvalds og samtaka opinberra starfsmanna að leiðarljósi. Var óskað eftir því við fjármálaráðherra með bréfi dags. 19. nóvember sl. að skipuð yrði nefnd í því skyni með fulltrúum þeirra sem starfa eftir lögunum. Einhliða breyting á lögunum nú er að mati BSRB brot á því samkomulagi sem gert var árið 1986 með setningu laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og þar með rof á friðarskyldu fjármálaráðherra.

2. Þrenging á réttarstöðu opinberra starfsmanna.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að niðurstaða Félagsdóms þar sem Félag íslenskra leikskólakennara var sýknað af kröfum launanefndar sveitarfélaga f.h. Árborgar vegna uppsagna starfsmanna á leikskólum sveitarfélagsins Árborgar, kalli á að ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna verði breytt að þessu leyti til samræmis við ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur, enda standi engin rök til þess að aðrar reglur gildi um friðarskyldu opinberra starfsmanna.

Að hluta til hefur röksemdafærslan fyrir þessu frumvarpi verið sú að ekki gangi að opinberir starfsmenn búi við önnur réttindi en starfsfólk á almennum vinnumarkaði og því sé full þörf á að samræma reglur um vinnustöðvanir og banna hópuppsagnir með lögum.

Fjármálaráðherra hefur f.h. ríkisstjórnarinnar lýst því að vilji sé til að samræma reglur sem gilda hjá opinberum starfsmönnum við þær sem eru við lýði á almennum vinnumarkaði. Eins og fram kemur fyrr í umsögn þessari hafnaði fjármálaráðherra tillögum BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands þar sem reynt var að samræma reglurnar því kerfi sem er á almennum vinnumarkaði. Við þennan samanburð þarf að gæta að því að mikill munur er á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem gilda á almenna vinnumarkaðnum.

Í fyrsta lagi eru stórir hópar opinberra starfsmanna án verkfallsréttar eins og t.d. lögreglumenn og tollverðir.

Í öðru lagi býr verulegur hluti opinberra starfsmanna við takmarkaðan verkfallsrétt, eins og t.d. starfsfólk heilbrigðisstofnana, þar sem skylt er að tryggja nauðsynlega þjónustu komi til verkfalls.

Í þriðja lagi má benda á 46. gr. í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Samkvæmt 2. mgr. er forstöðumanni stofnunar heimilt að lengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef svo margir leita lausnar samtímis eða um líkt leyti að til auðnar um starfrækslu þar mundi horfa ef beiðni hvers um sig væri veitt.

Þetta ákvæði takmarkar rétt opinbers starfsmanns til að segja upp störfum sínum. Engar sambærilegar reglur takmarka rétt starfsmanna á almennum vinnumarkaði til þess að segja upp störfum sínum eða boða til verkfalls. Umrætt frumvarp fjármálaráðherra þrengir enn frekar að réttarstöðu opinberra starfsmanna og felur ekki í sér þá samræmingu á reglum um opinbera starfsmenn við þær reglur sem gilda á almennum vinnumarkaði eins og látið hefur verið í veðri vaka að stefnt sé að. BSRB áréttar framkomna andstöðu við að þetta frumvarp verði að lögum.``

Undir bréfið skrifar Svanhildur Halldórsdóttir fyrir hönd BSRB.

Með þessari álitsgerð sem kemur frá BSRB fylgja nokkur önnur gögn og þar á meðal bréf sem fjmrh. var ritað hinn 19. nóvember sl. eftir að ljóst varð að hann var staðráðinn í því að leggja þetta frv. fram þar sem fram komu tillögur BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands um breytingar sem gera mætti á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna í samræmingarátt. Samtökin voru á því máli að ef fjmrh. féllist á einhverjar tilslakanir gagnvart opinberum starfsmönnum gæti náðst um þetta viðunandi samkomulag.

En á það féllst ráðherrann hins vegar ekki. Hvað var það sem menn vildu gera? Á hverju vildu menn fá einhverjar breytingar? Jú, menn vildu t.d. fá breytingu á frestunar\-ákvæðum í samningunum. Að heimila aðilum að fresta áður boðuðu verkfalli. Þetta er nokkuð sem er miklu rýmra á almennum vinnumarkaði en gerist hjá opinberum starfsmönnum og hefur sannarlega oft komið opinberum starfsmönnum í koll og reyndar atvinnurekendahliðinni einnig, því þetta hefur oft sett kjaradeilur í verri hnút en efni standa til. Ef menn geta frestað, ef samningar eru í sjónmáli, má ætla að auðveldara verði að ná lausn á friðsamlegan hátt ef ekki kemur til verkfalls, ef hægt er að fresta verkfallinu. Þetta var eitt af þeim atriðum sem menn lögðu til að samkomulag yrði gert um.

Síðan voru önnur atriði. Menn voru reiðubúnir að taka upp aðferðir sem eru í lögum um vinnudeilur um boðun verkfalls. Opinberir starfsmenn eiga mun erfiðara með að boða verkfall en gerist á almennum vinnumarkaði, þar þarf yfir helmingur starfsmanna í viðkomandi stétt að samþykkja verkfallið en það er fimmtungur á almennum vinnumarkaði. BSRB, BHM og Kennarasambandið eru hins vegar því fylgjandi að mjög ströng skilyrði séu. Á almennum vinnumarkaði er það fimmtungur af greiddum atkvæðum en í hinu tilvikinu er það helmingur af öllum þeim sem verkfallið gæti hugsanlega tekið til sem verður að samþykkja verkfallið. Mér finnst eðlilegt að gerðar séu mjög strangar lýðræðislegar kröfur áður en boðað er til verkfalls. Þarna voru menn því tilbúnir að sýna tilslakanir einfaldlega vegna þess að menn töldu að hér væri ekki óeðlileg lýðræðisleg krafa á ferðinni.

Það voru önnur atriði þessu áþekk sem menn vildu ræða og óskuðu eftir því að hæstv. fjmrh. skyti þessum málum á frest.

Á þetta var ekki fallist og svo fór að BHM, BSRB og Kennarasamband Íslands sendu frá sér yfirlýsingu sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Í árslok 1986 voru sett ný heildarlög um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þau voru sett á grundvelli samkomulags, sem undirritað var 24. nóvember 1986 milli BSRB, BHM og Bandalags kennarafélaga annars vegar og fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar um efni laganna sem aðilar komu sér saman um.

Í 13 ár hafa þessi lög gilt um samskipti ríkis og sveitarfélaga sem vinnuveitenda við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem fulltrúa launafólks. Lögin eru þær leikreglur sem gilda á hinum opinbera vinnumarkaði.

Nú ætlar annar aðilinn sem starfar eftir lögunum, sem jafnframt fer með löggjafarvaldið, að breyta þeim einhliða og án samráðs --- hvað þá með samkomulagi við viðsemjendur sína eins og þegar lögin voru sett. Í þessu felst gróf misbeiting ríkisvalds enda hafa samtök opinberra starfsmanna nú nýverið ítrekað þá afstöðu að rétt sé að endurskoða lögin frá grunni með hagsmuni beggja að leiðarljósi.

Lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar þrengir enn frekar að réttarstöðu opinberra starfsmanna sem þegar er mun þrengri en reglur sem gilda á almennum vinnumarkaði. Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að opinberir starfsmenn segi upp störfum sínum til þess að ná fram sameiginlegu markmiði. Fullur vilji hefur verið til þess að ræða um slíkar breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna samhliða öðrum breytingum á lögunum. Breytingar á sameiginlegum leikreglum verður hins vegar að ákveða með samkomulagi en ekki aðeins breyta því einu sem vinnuveitendum er í hag hverju sinni.

Það er með öllu óviðunandi að annar aðilinn breyti leikreglunum einhliða skömmu áður en aðilar setjast að samningaborði.

Um það verður aldrei sátt.``

Nú er ég alveg sannfærður um að margir mundu segja og eiga eflaust eftir að segja að Alþingi hafi löggjafarvaldið. Það sé Alþingi sem setji lögin en ekki aðilar utan Alþingis og það er rétt. Það er alveg hárrétt. Ég þykist vita að hv. þm. Pétur H. Blöndal muni koma hér upp á eftir og segja nákvæmlega þetta. Það sé Alþingis að setja lögin.

En Alþingi og ríkisstjórn ber að leita eftir sátt í þjóðfélaginu og að sátt ríki milli þeirra aðila sem sérstaklega þessi lög eiga að taka til og kveða á um leikreglur um hvaða reglur skuli gilda í samskiptum þessara aðila. Ég staðhæfi að ef slík sátt er fyrir hendi eru miklu meiri líkur á því en ella að samskiptin verði góð.

Hinn 10. desember sendi BSRB frá sér svohljóðandi ályktun:

,,Sameiginlegur fundur stjórnar og formanna aðildarfélaga BSRB mótmælir harðlega þeirri ákvörðun fjármálaráðherra að breyta einhliða leikreglum sem gilda um kjarasamninga hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga.

Fjármálaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna án þess að gert hafi verið samkomulag um það við þá. Kjarasamningslögin voru sett árið 1986 eftir að undirritað hafði verið samkomulag um efni laganna á milli fjármálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga annars vegar og BSRB, BHM og Bandalags kennarafélaga hins vegar. Þessu samkomulagi hefur fjármálaráðherra nú rift. Þetta er óábyrgt og með öllu óforsvaranleg vinnubrögð og lýsir BSRB fullri ábyrgð á hendur fjármálaráðherra.``

Hér er ég með í höndunum mjög athyglisverðan samanburð sem tekinn var saman af framkvæmdastjóra BHM, samanburð á milli laganna sem gilda um almennan vinnumarkað annars vegar og opinbera starfsmenn hins vegar. Þar kemur fram að opinberum starfsmönnum eru í mjög mörgum tilvikum reistar hærri og meiri skorður en gerist hjá launafólki á almennum vinnumarkaði. Og ef mönnum er einhver alvara í því að þeir vilji samræma, hvers vegna í ósköpunum er skrefið þá ekki stigið til fulls? (PHB: Að fella lögin úr gildi?) Að fella lögin úr gildi, já. Og þá vakna ýmsar spurningar hv. þm. Pétur H. Blöndal. Þá vakna ýmsar spurningar um hvað gerist hjá þeim stéttum sem hafa ekki neinn samningsrétt, lögreglumönnum, hjá ýmsum hópum innan heilbrigðisþjónustunnar o.s.frv. Ég er sammála hv. þm. um að ef þær reglur giltu á heilbrigðisstofnunum gagnvart opinberum starfsmönnum sem gilda um aðra hópa sem þar starfa, ég nefni Eflingu, Sókn hér áður, og sambærilega hópa, þá er ég alveg viss um að þessum hópum og stéttum væri fyllilega treystandi fyrir því að beita verkfallsvopninu á ábyrgan hátt.

[18:30]

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson hvort hann eigi langa ræðu eftir vegna þess að fyrirhugað er að gera hlé vegna nefndafunda frá 18:30 til 20:30 eins og tilkynnt var í morgun.)

Ég á langa ræðu eftir.

(Forseti (ÁSJ): Væri þingmanninum sama þó við gerðum fundarhlé? )

Já, ég vil beina því til hæstv. forseta að ég lét það koma fram við forseta og fleiri en einn hér fyrr í dag að ég ætti mjög erfitt með að vera hér á milli klukkan hálfníu og hálfellefu og ef unnt væri að fresta umræðunni um þetta málefni fram yfir klukkan hálfellefu --- ég get verið hér eftir þann tíma og eins og lengi og þurfa þykir --- þá mundi ég óska eftir því að það yrði tekið til skoðunar án þess að ég geri kröfu um að fá nokkur svör við því núna.

(Forseti (ÁSJ): Forseti mun taka það til skoðunar.)