Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:47:52 (6933)

2000-05-04 20:47:52# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:47]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. viðurkenndi að 39 bátar mundu falla undir pungaprófsréttindin með þessum breytingum. Þar með hefur hv. þm. viðurkennt að þarna er um mikla breytingu að ræða.

Ég ætla ekkert að fara hér með formúlur. En ég get upplýst hv. þm. um að ein rúmlest í þessu er talin vera 2,83m3 og brúttótonn eru talin vera 0,031 sinnum meðallengd í öðru veldi sinnum breidd. Það er því hægt að fara með margar formúlur og segja sem svo að nú hljóti allir að átta sig á hvað þetta þýðir. En auðvitað er það ekki svo. Hér erum við fyrst og fremst að velta fyrir okkur þeirri spurningu hvort verið sé að draga úr kröfum um menntun skipstjórnarmanna. Við erum að gera það og hv. þm. viðurkenndi að 39 skip mundu falla undir pungaprófsregluna með þessari nýju breytingu.

Þetta er líka spurning um það hvort við séum að minnka öryggi um borð í skipum og draga úr aðsókn að Stýrimannaskólanum sem hefur átt í vök að verjast vegna þess að það vantar nemendur. Það vantar ekki ákvæði sem draga úr sókn í skólann. Það vantar frekar að herða á sókn í þennan skóla. Þess vegna verð ég að segja að það veldur mér vonbrigðum að fram skuli koma á hv. Alþingi tillaga sem beinist beinlínis gegn Stýrimannaskólanum með þessum hætti. Ég vil fara fram á það við hv. formann samgn. að hann sjái til þess að þetta mál verði tekið aftur inn í samgn. og brotið til mergjar því mér sýnist ekki liggja á hreinu hvernig þetta hefur verið fundið út.