Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 20:52:26 (6935)

2000-05-04 20:52:26# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[20:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Þau frv. sem við ræðum hér eru um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjóra.

Ég ætla aðeins að víkja að þeirri umræðu sem fór hér fram milli þeirra hv. þm. Árna Johnsens og Kristjáns Pálssonar. Ég held það geti ekki farið á milli mála og ætti ekki að þurfa að vera deilumál, að verið er að auka við réttindi þeirra manna sem hafa 30 rúmlestir með því að hækka viðmiðunina upp í 75 brúttótonn. Þeir sem hafa haft hið svokallaða pungapróf fá því réttindi á stærri fiskiskip en þeir hafa fengið áður. Um það ættu menn varla að þurfa að deila varðandi þessa tillögu sem hér liggur fyrir.

Ég heyrði að þeir fóru báðir með sérstakar formúlur um það hvernig þetta væri fundið út allt saman. Síðasta sumar skoðaði ég hvernig íslenski flotinn er samansettur og hver væri hin eðlilega breyting í viðmiðun frá brúttórúmlestum yfir í brúttótonn. Ég hygg að nefndinni sem vann að málinu sem kynnt var hér í dag um áhafnir flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta, hafi verið send þau gögn sem við unnum upp í Farmanna- og fiskimannasambandi. Þar lögðum við til að sú regla sem notuð er við að breyta viðmiðun til réttinda úr brúttórúmlestum í brúttótonn yrði þannig að réttindin hækkuðu um 50%. Með þessu komumst við næst þegar við vorum búin að skoða flotann, hinn raunverulega íslenska flota, og bera saman til að finna út hvað ylli í raun og veru minnstri breytingu.

Með því að breyta réttindunum frá brúttórúmlestum í brúttótonn, komumst við að þeirri niðurstöðu að það sem ylli minnstri breytingu í allar áttir, bæði upp og niður, væri að hækka réttindin úr 30 brúttórúmlestum í 45 brúttótonn. Ég held að menn hafi sæst á að fara með þessa tölu í 50 tonn og rúnna hana þar af, enda stendur hún þannig í þessu frv. hér um áhafnir íslenskra skipa, eins og það kom frá nefnd sem samgrh. skipaði á sínum tíma og sem vann það mál upp. Þar var beinlínis lagt til að þessi viðmiðun yrði 50 brúttótonn í stað 30 brúttórúmlesta réttinda.

Með sama hætti hefði fyrsta stigið í Stýrimannaskólanum sem gefur í dag 200 brúttórúmlesta réttindi gefið 300 brúttótonna réttindi. Þegar það var skoðað, borið saman við íslenska flotann og kannað hvaða breytingu það ylli, kom í ljós að þar var minnsta mögulega breyting, þ.e. voru fæstir sem töpuðu og fæstir sem unnu.

Það varð því niðurstaða vinnu okkar hjá Farmanna- og fiskimannasambandinu að leggja til að taka upp þá reglu að hækka almennt viðmiðunina frá brúttórúmlestum í brúttótonn um 50%, þar kæmumst við næst því sem talið væri eðlilegt.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála að með því að fara með þessa viðmiðun hér í 75 brúttótonn þá eru menn sem hafa núna 30 brúttórúmlesta réttindi að fá réttindi á fiskiskip sem þeir hafa ekki haft atvinnuréttindi á áður. Það er því verið að víkka út réttindasvið þeirra.

Hitt er líka rétt að láta koma fram að hið svokallaða pungapróf eða kennsla til 30 tonna brúttórúmlesta réttindanna fer fram vítt og breitt um landið og er m.a. heimiluð í framhaldsskólunum. Þegar náminu í Stýrimannaskólanum var breytt og tekið var upp svokallað aðfaranám þá var einmitt 30 brúttórúmlesta réttindunum komið fyrir í þessu aðfaranámi ásamt hinum almennu fögum sem nemendur í Stýrimannaskólanum þurftu að vera búnir að fá kennslu í áður en þeir gátu farið í fagnámið, eins og námið er núna upp sett.

Þetta vildi ég sagt hafa um þetta atriði, þ.e. að breyta viðmiðuninni úr 30 brúttórúmlestum í brúttótonn og tel að þar séum við að teygja okkur of langt. Enda er í frv. sem við ræddum hér í dag heimildargrein sem segir fyrir um það, eins og venjulega er gert þegar verið er að breyta lögum sem kveða á um einhver réttindi manna, að ekki er tekinn af þeim eldri réttur. Í 11. gr. frv. sem við ræddum hér í dag segir, með leyfi forseta:

,,Sá sem er lögmætur handhafi skírteinis samkvæmt lögum sem falla úr gildi við gildistöku þessara laga skal halda sínum réttindum óskertum, ...``

Þetta er hin gullvæga regla sem alltaf hefur verið viðhöfð þegar atvinnuréttindum hefur verið breytt, þ.e. að menn halda þeim réttindum sem þeir höfðu áður til þess að sigla skipum.

Sá sem hér stendur var það snemma í Stýrimannaskólanum að hann öðlaðist rétt á farþegaskip upp að 400 brúttórúmlestum í innanlandssiglingum. Þau réttindi eru enn þá í gildi þó að menn fái ekki sams konar réttindi út úr Stýrimannaskólanum í dag. Réttindi gilda því hér áfram fyrir þá menn sem öðluðust þau, þ.e. réttindi sem við höfum áunnið okkur eru ekki af okkur tekin. Hins vegar verðum við að uppfylla alþjóðasamþykktir og þessi sérstöku réttindi okkar gilda þess vegna ekki út fyrir það sem nú er skilgreint í lögunum sem strandsigling innan 50 sjómílna.

[21:00]

Síðan komum við að ákvæði sem er í báðum þessum frv. um undanþágunefndina. Þar erum við að hverfa til þess tíma sem var fyrir gildistöku laganna nr. 112 og 113 sem sett voru árið 1984, um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna annars vegar og vélstjóra hins vegar. Þá voru undanþágur afgreiddar í samgrn. ef ég man það rétt. Ég held að ég fari örugglega með rétt mál í því. Mönnum þótti það alls ekki mjög hentugt fyrirkomulag. Mikil umræða var um það á þeim tíma hversu auðvelt væri að nálgast undanþágur hjá embættismönnum í kerfinu. Menn voru mjög ósáttir með framkvæmd laganna, hvernig undanþágum var fjölgað og þær gefnar út án þess að talið væri að það væri eðlileg eftirgjöf. Það er auðvitað þannig að þegar menn fara í skóla til að afla sér réttinda þá líta þeir svo á að þeir hafi aflað sér réttinda til ákveðinnar atvinnustarfsemi og telja að þeir eigi forgang til hennar. Ég hef ekki orðið var við að þó að það væri læknaskortur þá væri gefin sérstök undanþága á lækna. Ég ætla svo sem ekki að leggjast gegn því að við förum að nota svona fyrirkomulag. En ég held að svona fyrirkomulag þurfi hafa mikið aðhald.

Þegar lögin voru endurskoðuð árið 1984 var komið á laggir sérstakri undanþágunefnd. Það var sameiginleg nefnd sem sett var á laggirnar og að henni áttu aðild skipstjórnarmenn og vélstjórar og síðan útgerðarmennirnir hinum megin við borðið ásamt einum oddamanni skipuðum af ráðherra. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði síðan árið 1984 og í flestum tilfellum held ég að það hafi orðið til þess að koma skipulegri vinnubrögðum á undanþáguveitingarnar. Lengi framan af a.m.k. fækkaði undanþágum og það var ekki eins auðvelt að fá undanþágur og áður hafði verið. Þar að auki var tekið gjald fyrir undanþágurnar og það gjald var síðan látið renna í ákveðinn sjóð sem styrkti menn sem á undanþágum höfðu verið til þess að hefja nám í sjómannaskólunum. Mönnum var gert auðvelt að fá undanþágu ef þeir lögðu sig eftir því að gangast undir það að afla sér réttinda.

Þetta held ég að hafi að mörgu leyti verið skynsamlegt fyrirkomulag. Alla vega er það þannig í dag að stéttarsamtökin hafa ekki mælt með því að leggja þessa undanþágunefnd niður. Í frv. sem við ræddum hér fyrr í dag eru bæði ákvæðin um mönnunarnefnd og undanþágunefnd með sama fyrirkomulagi og verið hefur. Hins vegar hefur samgn. ákveðið í meðferð sinni á málinu að breyta því hvoru tveggja og færa þessi mál alfarið undir embættismenn hjá Siglingastofnun. Ég dreg mjög í efa að við séum að fara rétta leið í þessu máli.

Ég mælist til að þeim frv. sem við erum hér að ræða verði vísað til samgn., hún leiti umsagna og að fram fari viðræður milli hagsmunaaðila, stéttanna sem eiga þessi atvinnuréttindi, um það hvaða fyrirkomulag eigi að vera á þessu í framtíðinni. Það er ekki gæfulegt spor að efna til ófriðar um mál sem menn reyndu a.m.k. að leysa í sameiningu árið 1984 og koma þessu í form. Auðvitað eru mannanna verk ekki svo heilög að þau þurfi ekki að taka breytingum. En ég legg til við hv. formann samgn. að hann hagi málsmeðferðinni þannig að þessi frv. fari til samgn., þar verði aðilar máls kallaðir fyrir og reynt að leita sátta og að frv. um áhafnir skipa sem hér var rætt í dag, verði látið liggja meðan verið er að lenda þessum málum, þ.e. menn reyni að finna ásættanlegan flöt um framgang beggja þessara mála.

Það er einfaldlega þannig að ef frv. um áhafnir íslenskra skipa verður afgreitt þá þarf einnig að breyta þessum atvinnuréttindalögum vegna þess að annars eru lögin farin að stangast á. Þess vegna tengjast þessi lög mjög. Það væri auðvitað eðlilegt að þau væru til skoðunar og lagfæringar í samgn. og yrðu afgreidd saman vegna þess að það er ógerningur að afgreiða þau hvort í sínu lagi.