Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 21:18:55 (6942)

2000-05-04 21:18:55# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[21:18]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Málið sem við ræðum og hefur skýrst nokkuð í þessari umræðu er í mínum huga stærra en það leit út fyrir í fyrstu. Því er nauðsynlegt að um það fari fram fagleg umræða í þinginu sem nefndin sem slík gæti síðan tekið upp. Ég fagna því, herra forseti, og vil ítreka það sem kom fram hjá hæstv. samgrh., að ákveðið hefur verið að þetta máli fari aftur inn í samgn. sem er mjög mikilvægt.

Einu finnst mér að menn megi aldrei gleyma þegar rætt er um breytingar á réttindum skipstjórnarmanna að við erum að fjalla um öryggi, um líf fólks, um verðmæti, og mikilvæga þætti sem skipta okkur öll máli. Til þess að standa vörð um þau verðmæti sem hér eru til umfjöllunar hefur þjóðfélagið, Alþingi og aðrir aðilar, komið sér saman um hvernig eigi að gæta þeirra með réttindum og menntun þannig að sem best sé á málum haldið.

Frá upphafi var gert ráð fyrir því að svokallað pungapróf væri bráðabirgðalausn, lausn sem einungis ætti við vegna þess að áður fyrr höfðu mjög margir sjómenn ekki tækifæri til að fara í skóla. Það voru ekki aðstæður hjá viðkomandi aðilum til að komast í skóla. Fiskimenn skorti aðallega réttindi þannig að það varð að samkomulagi að slíkt pungapróf yrði haldið og kennt víða um land. Það var framfaraspor á þeim árum. Allir sem vettlingi gátu valdið tóku pungaprófið. Það þótti stórt skref í þá daga og fagnaðarefni fyrir flesta að mögulegt væri að læra þó eitthvað um þessi mál. En allir gerðu sér grein fyrir því að þetta ætti við um þá menn sem væru réttindalausir og skipstjórar á þeim tíma, þeir sem kæmu nýir inn ættu að fara og afla sér fullra réttinda. Ég aflaði mér slíkra réttinda og það hafa fleiri hér á hv. Alþingi gert. Við höfum að sjálfsögðu viljað að þessi mál væru í öruggum höndum. Þess vegna bregðumst við ekki sérstaklega vel við þegar við sjáum að taka á skref sem eru þvert á þá stefnu sem alltaf hefur verið með þetta réttindanám.

Það er með ólíkindum hvað þessi undanþágumál hafa gengið lengi. Það er langt síðan að menn komu sér niður á að allar undanþágur væru í raun óþarfar. Sá tími ætti að vera liðinn að menn geti leitað sér undanþágu til vinnu um borð í skipum. Eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði áðan fara læknar ekki í gegnum neina skemmri skírn þó það vanti lækna. Þess vegna getur það vel staðist að með einhverju móti verði reynt að breyta þessum undanþágunefndum en ég sé enga ástæðu til að stofna nýja nefnd eða nýtt ráð, eða fara með þetta með öðrum hætti. Ég lít svo á að það eigi markvisst að stefna að því að fella niður undanþágur.

Sú breyting sem hér hefur verið til umræðu er ekki kynnt þannig að hún auki réttindi þeirra sem eru með pungapróf. Hún er kynnt þannig að hér sé einungis orðalagsbreyting. Mér finnst ekki gott þegar mál ber að með þessum hætti. Það á að segja hvern hlut eins og hann er. Það er verið að auka réttindi pungaprófsmanna um 30 tonn að minnsta kosti. Reyndar verður að viðurkennast að útreikningarnir í kringum þetta hafa oft verið sérstakir vegna þess að brúttómælingar skipa hafa byggst á rúmtaki, yfirbyggingu og lestarrými, á böndum í skipum o.fl. Þessu hefur oft verið breytt og nýjar mælingar komið. Síðan hefur þeim verið breytt á milli mælinga og komið í ljóst að margt hefur verið gert rangt. Það hefur augljóslega gerst í því tilfelli sem hæstv. samgrh. lýsti hér áðan, að skip sem ætti í raun að mælast 45 brúttótonn mældist 71 brúttótonn. En þetta er eina undantekningin í þessu tilfelli sem menn sjá fram á að hafi reynst alröng. Fyrir þennan leka var komist í frv. og óþarft hjá hv. samgn. að koma með þessa sérstöku tillögu sína. Á þessu er tekið í 11. gr. frv. frá hæstv. samgrh. um áhafnir íslenskra flutningaskipa, farþegaskipa, farþegabáta og skemmtibáta. Þar stendur í lokamálsgrein greinarinnar, með leyfi forseta:

,,Nú hefur skipstjórnarmaður skírteini til skipstjórnarstarfa, samkvæmt brúttórúmlestaviðmiðun, á skipi sem vegna breytinga á mælingum skipa mælist stærra en eldra skírteini hans veitti réttindi til eða aðrar hliðstæðar ástæður eru fyrir hendi og er þá heimilt að veita honum skírteini til starfa á sama skipi að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna.``

Hér er tekið á því ef mistök hafa átt sér stað eða einhverjar aðrar ástæður liggja að baki þannig að menn tapi ekki þeim réttindum sem þeir hafa öðlast þó einhvers staðar hafi orðið mistök í kerfinu.

Öllum hér inni er ljóst að aðsókn í sjómannanám hefur verið mjög á niðurleið og í dag er svo komið að enginn er á II. stigi í námi í Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Fyrir eyþjóð og fiskimannaþjóð eins og Íslendinga er það ástand sem getur ekki verið viðunandi. Það er ekki ásættanlegt að fá ekki ungt fólk til að mennta sig í sjómennsku ef við ætlum áfram að lifa á fiskveiðum í þessu landi. Upp á það er ekki hægt að horfa. Þess vegna hafa áhyggjur manna fyrst og fremst beinst að því að finna leiðir til að sýna fólki fram á möguleikana sem felast í að mennta sig til sjómennsku og reyna að gera námið meira aðlaðandi.

Ég veit að bæði hæstv. menntmrh. og sjútvrh., hæstv. samgrh. líka að öllum líkindum, hafa verið að skoða þessi mál. Einnig er ljóst að við ramman reip er að draga. Það er erfitt í samkeppninni í dag. En það gengur ekki að á sama tíma leggi Alþingi til að gefa enn meiri möguleika á því að sleppa við nám í Stýrimannaskólanum með fleiri undanþágum en fyrir eru, þ.e. að veita frekari undanþágu með því að auka þau réttindi sem koma út úr minnsta hugsanlega námi til þess að stjórna skipi. Þau réttindi hafa fengist með því að taka sérstakan kúrs í 10. bekk í grunnskóla sem valfag og að því loknu geta menn farið út á 75 tonna bát í dag ef breyting samgn. nær fram að ganga, farið á troll, dragnót eða línu og siglt hvert sem þeim sýnist. Þannig gæti hvaða gagnfræðingur sem tekið hefur þetta valfag gert þetta. Ég hefði haldið að nær hefði verið að hafa mörkin þau að svokallað pungapróf væri bundið við minni skip, við 6 tonna báta, krókabátana, frekar en að rýmka þessi mörk.

Látum nú vera að þetta sé óbreytt og menn vinni að því að auka aðsókn að Stýrimannaskólanum. Það gerum við ekki með þeim aðferðum sem hér eru notaðar. Ég skil í raun ekki hvernig stendur á því að málið kemur inn í þingið með þessum hætti. Komið hefur í ljós að hæstv. samgrh. vissi ekki um það. Ekki var haft samráð við neina aðra fyrir utan nefndina svo ég viti til. Málið er því mjög óljóst og ástæður þess óljósar.

[21:30]

Ég skora á hv. formann samgn. að endurskoða þetta mál mjög rækilega í nefndinni. Þar verður að hafa ýmislegt í huga að mínu mati. Öryggismál sjómanna eru stórmál. Það verður að leita eftir áliti þeirra sem best til þekkja á þessari breytingu, hvaða áhrif þeir telja að hún hafi á öryggismál sjómanna. Hvaða áhrif hefur þetta á menntun sjómanna og áhuga á menntun sjómanna? Hvaða áhrif hefur þetta á inngöngu sjómanna í Stýrimannaskólann? Við getum sjálf gefið okkur að í dag þurfa þessir 39 bátar að hafa tvo skipstjórnarmenn um borð, þ.e. 78 skipstjórnarmenn ættu því að vera alls um borð í þessum 39 bátum. Við sjáum að augljóslega mun draga úr þörfinni á menntun í Stýrimannaskólann með því að leyfa þessa stækkun og því er ljóst að þau rök eru augljós.

Herra forseti. Ég ítreka óskir mínar um að málinu verði vísað til samgn. á ný og vona að við þá afgreiðslu verði komist að þeirri niðurstöðu, sem hæstv. samgrh. hafði komist að með sínu fólki og samtökum sjómanna, að þessi mörk verði 50 tonn. Mér finnst einnig ástæða til að taka undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um undanþágunefndina, sem líka á að leggja niður og stofna í stað hennar nýja, öðruvísi nefnd. Ég tel að nær væri að kanna hvort þessar nefndir ættu nokkurn rétt á sér og kannski ættu að vera sólarlagsákvæði á þeim undanþágum sem nú eru í gildi.