Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 21:34:40 (6944)

2000-05-04 21:34:40# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., Frsm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[21:34]

Frsm. samgn. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Hér hafa verið ágætar umræður þar sem mörg sjónarmið hafa komið fram. Sitt sýnist hverjum og það er eðlilegt og af hinu góða að brydda upp á öllum hliðum mála. Það er hins vegar ástæða til að undirstrika, númer eitt, tvö og þrjú, að í allri meðferð hv. samgn. um þetta mál hefur öryggið auðvitað verið grundvallaratriðið, samræmi, jafnræði manna með reynslu og menntun að baki. Það er rauði þráðurinn í niðurstöðu nefndarálitsins, samdóma álits allra nefndarmanna samgn.

Í raun harma ég að það hefur komið fram hér í umræðunni hjá þingmönnum, sérstaklega hv. þm. Kristjáni Pálssyni, að þingnefnd eigi að vera einhver stimpilstofnun og að ámælisvert sé að þingnefnd breyti frv. sem kemur inn, hvort sem það er unnið af nefnd embættismanna, félaga eða á annan hátt. Það er hlutverk þingnefndar að komast að niðurstöðu að vel athuguðu máli með sanngirni í fararbroddi og árangur að leiðarljósi. Frv. sem samgn. tók við og fjallar fyrst og fremst um áhafnir skipa stendur hér óbreytt, einhvers staðar á milli 90 og 100%. Í raun er tveimur atriðum í frv. breytt. Þar eru ýmsar smávægilegar breytingar. En breytingarnar tvær eru líka smávægilegar. Þær varða kannski svolítið valdahégóma í kerfi sem hefur gengið sér til húðar. Breytingin sem lýtur að niðurfellingu undanþágunefndar og mönnunarnefndar færir það hlutverk inn til viðurkenndrar stofnunar, Siglingastofnunar Íslands sem hefur haft forustu í þessum nefndum um 16 ára skeið.

Ég ætla ekki að fjalla hér um ýmsar kvartanir sem hafa heyrst víða um land á undanförnum árum um starfsemi undanþágunefnda í þá veru að þar séu menn með hrossakaup, skipti á hagsmunum stéttarfélaga og annað slíkt. Ég læt það eiga sig. Engu að síður eru þetta hlutir sem hafa verið uppi á borðinu og allir þekkja sem fylgjast með í sjávarplássum landsins, allir. Þetta er annað atriðið, þ.e. undanþágunefndirnar sem breyta engu um réttindi skipstjórnarmanna.

Hvers vegna eru undanþágunefndirnar til staðar? Á að gefa út tilskipun af hálfu ríkisstjórnarinnar eða stjórnvalda í landinu um að þessi og hinn sæki sér ákveðna menntun, vélstjórnarmenntun eða skipstjórnarmenntun? Nei, það er ekki meiningin. Enginn hefur stungið upp á því. Það er af illri nauðsyn sem menn eru með undanþágunefndir, af illri nauðsyn vegna þess að menn reyna allt sem hægt er til að manna fiskiskipaflotann sem skapar þjóðinni gjaldeyri. Ég veit ekki mörg dæmi þess að kvartað hafi verið undan undanþágumönnum. Ég veit hins vegar mörg dæmi þess að reyndustu skipstjórar landsins hafa haldið því fram að jafnvel undanþágumennirnir væru bestu mennirnir um borð. Ég býst við að þeir sem eru skipstjórnarmenntaðir hér inni geti líka borið vitni um að það er ekki óþekkt.

Í raun er ekki mikill metnaður eða til mikils sóma að gera lítið úr þeim hundruðum sjómanna sem hafa sinnt störfum sínum við vél og stýri með undanþágu. Þeir hafa kannski haft takmarkaða menntun frá skólum en hafa haft mikla reynslu og þekkingu og sýnt mikla natni í störfum. Best væri ef engar undanþágur þyrfti að veita. En við búum bara ekki við þær aðstæður. Það er ekki raunveruleikinn í íslensku þjóðfélagi í dag og hefur ekki verið lengi. Pungaprófið var engin skammtímaákvörðun fyrir nær 60 árum þegar það var sett á. Það var til þess að þjóna menntun sem hentaði á smæstu bátum, samkvæmt kröfum þess tíma. Þær kröfur hafa margfaldast án þess að réttindin ykjust. Það hefur verið að frumkvæði þeirra sem hafa rekið sjálfstæða skóla, viðurkennda skóla og viðurkennd námskeið víða um land, að kröfurnar hafa verið auknar, ekki að frumkvæði stjórnvalda, verkalýðsfélaga eða sjómannafélaga. Við skulum bara horfa á hlutina eins og þeir eru.

Árið 1991 var gerð breyting. Þá voru samþykkt lög á hv. Alþingi um breytingu á skipstjórnarnámi. Það var að mínu mati mikil afturför. Fram til ársins 1991 voru flestir skipstjórar landsins menn sem lokið höfðu grunnskólanámi en fóru á sjó sem hásetar og unnu kannski í fimm eða tíu ár til sjós, stofnuðu til heimilis og keyptu hús eins og gengur. Og að fenginni reynslu fóru þeir margir í stýrimannanám 22--28 ára gamlir. Þessir menn eru kjarninn í skipstjórastétt landsins í dag. Þetta var stöðvað með lögum árið 1991, með frv. sem hæstv. þáv. menntmrh. lagði fram. Þegar menn gáðu að sér þá gekk þetta ekki eftir. Menn sáu að vandi var á ferðum og framgangi laganna var frestað. Síðan þróuðust mál þannig að nú þurfa þeir sem fara í stýrimannaskólana að vera tvö ár, fjórar annir, í framhaldsskóla til þess að geta farið í frekara nám í stýrimannaskólum. Það er búið að kippa úr leik þessum mönnum reynslunnar sem fóru ungir úr námi til sjós.

Á þessum tíma var reiknað með því að 16 ára unglingur tæki ákvörðun um það þegar hann færi í framhaldsskóla hvort hann ætlaði sér að verða skipstjórnarmaður, hvort heldur það væri skipstjóri eða vélstjóri. Við vitum ósköp vel að þetta gengur ekki upp og það hefur ekki gengið upp. Auðvitað stendur fólki á öllum aldri með ákveðin grunnréttindi það til boða að fara inn í framhaldsskóla, líka sjómönnum sem kannski 25 eða 30 ára gamlir mundu vilja hugsa sér til hreyfings og afla sér nýrra réttinda. En þeir fara bara ekki í framhaldsskólana og enginn getur skipað þeim að fara í þá. Kannski finna þeir sér ekki farveg með unglingunum og því unga fólki sem þar er. Þess vegna fjarar undan í stýrimannaskólum landsins. Það er óþarfi að vaða í villu í þeim efnum og búa til eitthvað annað. Þetta er skýringin á því hvers vegna fjarar undan í stýrimannaskólum landsins.

Það stendur upp á stjórnvöld að takast í alvöru á við menntun skipstjórnarmanna, hvort heldur er skipstjóra eða vélstjóra, svo hún verði í takt við þörf okkar í framtíðinni fyrir menntaða menn á fiskiskipaflota okkar ekki síður en kaupskipaflota. Fiskiskipaflotinn er nefnilega orðinn hornreka í þessum efnum. Aðalkrafa skólastjórnarmanna Stýrimannaskólans er að menntun skipstjórnarmanna sé svo yfirgripsmikil að skipstjóri geti nánast hvenær sem er á ferli sínum hætt til sjós og farið í hvaða starf sem er í landi. Hvað er raunhæft í þessu? Hvað erum við að búa til? Þótt Pólverjar séu ágætis fólk, ætlum við að stíla upp á að flytja inn 2.000 Pólverja á næstu tíu árum til að vera vélstjórar eða skipstjórar á íslenska flotanum af því að Íslendingar vilja ekki fara í þetta nám? Breytingin á 30 tonna viðmiðuninni í 75 tonn er smávægileg. Hún er samræming sem á við 3% af bátaflotanum.

[21:45]

Hv. þm. Kristján Pálsson gagnrýndi ekki að það fjölgaði um 24 báta miðað við 50 tonn en hann gagnrýnir að það fjölgi um 39 báta í viðbót miðað við 75 tonn. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði í dag að það lægi einhvers staðar á bilinu 50--75 tonn. Það er nefnilega engin skýr regla í þessu, engin margfeldisformúla eins á gengi verðbréfa. Einfaldlega vegna þess að nánast ekkert skip er eins, og lokuðu rýmin skipta miklu máli í slíkum útreikningi. Það er ekki verið að ganga á öryggisþáttinn og ekki verið að tala um stærri báta en hafa verið. Ekki er verið að tala um meiri togkraft þeirra báta sem um er að ræða. Það er verið að tala um samræmi. Og vissulega hefur verið gengið lengst til þess sem hafði réttindin á stærsta bátnum. Það er samræming. Það er jafnræði. Á blaði heitir það að pungaprófsmaður geti farið á eilítið stærri bát. Sá bátur getur verið með minni vél en hinn minni báturinn sem hann var með, það er engin regla um það. Það eru því mörg atriði í þessu afstæð.

Það er fjarri því og fáránlegt að leyfa sér að segja að pungaprófin dragi úr aðsókn að stýrimannaskólum landsins. Hvers lags vanþekking er þetta? Hvar hefur það rekist á? Það hefur aldrei rekist á. Aldrei. Það hefur miklu fremur verið hvatning til þess að menn öfluðu sér frekari menntunar. Það þýðir ekkert að segja svart hvítt og hvítt svart. Það þarf að segja hlutina eins og þeir eru, en vera ekki að búa til einhverjar rómantískar frásagnir í þessum efnum. Þetta er alvörumál. Það er alveg rétt eins og fram kom hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að vaggað hefði minnstu í þessu að miða við 50 tonnin. En þá var líka bara verið að taka réttindi af mönnum. Til þess var leikurinn ekki gerður. Samræmið í reglunni er 71 tonn með úttekt og samanburði Fiskifélags Íslands og Siglingastofnunar. Þetta liggur fyrir svart á hvítu. Á því byggir samgn. niðurstöðu sína og er sammála um það í einu og öllu.