Atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 21:51:41 (6945)

2000-05-04 21:51:41# 125. lþ. 106.11 fundur 618. mál: #A atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða# frv., 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[21:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Árni Johnsen flutti hér ágæta ræðu og viðraði sjónarmið sín. Mér finnst hins vegar rétt að gera athugasemd við það að í Stýrimannaskólanum eru menn núna staddir á milli kerfa, þ.e. menn sem eru að læra á fyrsta stigi í Stýrimannaskólanum en ekki er verið að kenna á öðru stigi. Það eru ekki margir að taka próf á öðru stigi. Það er einfaldlega vegna þess að við erum að fara milli kerfa. Verið er að fara í þetta annakerfi í Stýrimannaskólanum, þeir sem hafa ekki lokið grunnskóla fara í aðfaranámið. Það þarf að keyra þetta kerfi áfram.

Ég hef farið í margar rökræður síðustu tvö árin um þessa breytingu í Stýrimannaskólanum. Ég held að við verðum einfaldlega að fá að sjá þessa breytingu gerast, sjá árgangana fara alla leið áður en við förum að segja að kerfið gangi ekki upp því við getum ekki dæmt það fyrr en við sjáum reynsluna af því.