Staðfest samvist

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:01:39 (6948)

2000-05-04 22:01:39# 125. lþ. 106.14 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:01]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Hv. formaður allshn., Þorgerður K. Gunnarsdóttir, hefur gert grein fyrir nál. frá nefndinni sem við nefndarmenn undirritum. Fyrir mér og flestöllum hér inni er málið einfalt. Þetta er spurning um rétt barna sem búa hjá samkynhneigðum foreldrum. Breytingin sem hér er lögð til er vegna þeirrar miklu faglegu og góðu umræðu sem átti sér stað þegar ættleiðingarlögin voru til umræðu um jólin. Þá kom þetta mál upp og var farið mjög ítarlega yfir málið, málefni samkynhneigðra og barna þeirra. Réttur þessara barna má ekki vera minni en annarra barna í samfélagi okkar. Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um þúsund börn sem búa hjá foreldrum í slíkum samböndum. Stjúpættleiðing er ekki nýtt úrræði. Til þess er oft gripið þegar faðir er ekki til staðar og börn eru ófeðruð, faðir barns látinn eða horfinn. Afar brýnt er að réttur þessara barna sé jafn og annarra í lögum.