Staðfest samvist

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:03:02 (6949)

2000-05-04 22:03:02# 125. lþ. 106.14 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:03]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frv. til laga um breytingu á lögum um staðfesta samvist. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur var stjúpættleiðing rædd töluvert fyrir jólin þegar fjallað var um frv. um ættleiðingar. Ekki náðist samkomulag um að koma þessu ákvæði í ættleiðingarlögin en sú leið var farin að koma réttindamálum barna sem búa í staðfestri samvist inn í lög um staðfesta samvist. Þau líta hér dagsins ljós og hafa, eftir því sem ég hef fylgst með, fengið mjög góða og faglega umfjöllun í nefndinni, ekki bara nú varðandi þetta frv. heldur ekki síður í umræðunni um ættleiðingarlögin fyrir jólin.

Hér er fyrst og fremst verið að rýmka rétt fólks til þess að fara í staðfesta samvist með tilliti til laga í nágrannalöndum okkar. Auk þess kemur inn í lögin viðbótartillaga um að fólk í staðfestri samvist megi ættleiða barn hins sem hann hefur forsjá fyrir nema um sé að ræða kjörbarn frá öðru landi. Hér er með öðrum orðum verið að fjalla um stjúpættleiðingar. Ég vil leggja áherslu á að í dag eru margar fjölskyldur þar sem um er að ræða staðfesta samvist samkynhneigðra og börn eru til staðar. Það er verið að bæta réttarstöðu þessara barna til jafns við önnur börn. Ég tel þetta því vera mikið réttindamál, ekki aðeins fyrir þá sem eru samkynhneigðir og staðfesta sína samvist heldur sérstaklega fyrir börn þeirra.