Staðfest samvist

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:06:46 (6950)

2000-05-04 22:06:46# 125. lþ. 106.14 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:06]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er skoðun mín að sú niðurstaða sem hér lögð fram sé röng og hafi ekki við rök að styðjast miðað við almenna reglu sem við hljótum að miða við í þjóðfélaginu. Ég tel í rauninni að ekki eigi að setja sérstök lög sem varða mjög takmarkaðan hóp fólks. Nú hafa lögin um staðfesta samvist verið í gildi í tæp fjögur ár. Það eru alls skráðar 57 staðfestar samvistir hjá Hagstofu Íslands á fjórum árum, 13 á ári. Það er ekki há tala miðað við tilefni þess að setja lög í þessum efnum.

Það skýtur eitthvað skökku við í máli hv. þm. Guðrúnar Ögmundsdóttur að þúsund börn búi við þessar aðstæður. Ég býst við að mjög erfitt sé að koma því heim og saman að þúsund börn séu hjá 50 fjölskyldum. Það er skilyrði í lagasetningunni að staðfest samvist sé til staðar. Af þessum 57 staðfestu samvistum eru þó nokkrar sem slitnað hefur upp úr eins og gengur og gerist í samböndum fólks.

Ég er ekki að leggja neinn dóm á það fólk sem hér er um að ræða. Mér finnst engu máli skipta hvort menn séu að tala um einstaklinga, fjölskyldur eða hvort menn nota orðið samkynhneigðir eða kynvillingar. Mér finnst persónulegra orðið kynvillingur fallegra orð í íslenskri tungu og hef ekkert við það að athuga. Menn eru kallaðir villingar dagsdaglega, í skóla og annars staðar. Kynvillingur hefur tvenns konar merkingu sem er ósköp eðlileg í íslenskri tungu, annars vegar sá sem hefur tilhneigingu til þess að hafa kynmök við persónu af sama kyni og hann er sjálfur, hins vegar sá sem gerir kynvillu, þ.e. sá sem falsar ætt með því að rangfeðra barn. Þetta er auðvitað ekkert sem skiptir máli í þessu sambandi en það eru mjög strangar reglur á Íslandi um ættleiðingar. Það standa opnar dyr, hvort sem er fyrir hjón eða einstaklinga, að ættleiða börn með mjög ströngum reglum og þannig eiga þær að vera að mínu mati vegna þess að það er ákaflega viðkvæmt mál að fjalla um allt sem heitir réttindi barna.

Því hefur verið haldið fram af sumum talsmönnum samkynhneigðra að það séu mannréttindi að eiga barn. Þetta er rangt. Þetta er alrangt miðað við þá siðfræði sem við byggjum samfélag okkar á. Það eru ekki mannréttindi að eiga barn vegna þess að barn er ekki krafa, barn er gjöf. Við höfum leyft okkur að kalla barn gjöf guðs og það er ekki krafa. Þetta eru hlutir sem við eigum að taka tillit til og virða. Alls staðar í samfélaginu eru ákveðin vandamál sem við erum að glíma við, vandamál ákveðinna hópa eða persónuleg vandamál og hver hefur sinn djöful að draga, eins og sagt er. Við fjölgun í samfélagsinu þarf tvo til, þess vegna viljum við ugglaust byggja á helgi hjónabandsins sem hefur kannski farið svolítið halloka hjá okkur á Íslandi í velferðarsamfélaginu um nokkurt árabil þar sem við höfum mismunað hjónabandinu miðað við ýmislegt annað. En hjónabandið, eðlilegt hjónaband, er auðvitað langreyndasta aðferðin til að skapa eðlilegan grundvöll fyrir hamingju barns, barns sem er gjöf hvar og hvenær sem er.

Ég held að það sé rangt að setja lagaákvæði, sérákvæði sem á við svo þröngan hóp sem hér um ræðir þó ég geri engan mannamun. Lagasetning á að vera alhliða og á ekki að þróast út í þær öfgar sem reiðuleysi í nútímaþjóðfélagi kallar á svo margan hátt yfir okkur, agaleysi og óvissu sem er á skjön við þann siðferðisgrunn sem við eigum að byggja á, þá biblíu sem við viljum treysta og trúa á. Þess vegna er þetta fljótræði að mínu mati sem tryggir ekki rétt barnsins. Það er enginn þáttur í þessu sem tryggir rétt barnsins. Þetta frv. leggur fram tæknilega niðurstöðu án þess að hafa tekið siðfræðilega umræðu, siðfræðilega skoðun ofan í kjölinn, um hvaða farveg er verið að búa til fyrir barnið. Almenna reglan hlýtur að vera eina reglan sem við getum miðað við, sem er ásættanleg fyrir þjóðfélagið annars er fjandinn laus.

Það eru u.þ.b. 1.500 hjónavígslur á ári á Íslandi. Þeim hefur jafnt og þétt farið fjölgandi á undanförnum árum. Fyrir þremur árum voru þær 1.300, fyrir tveimur árum 1.400 og á síðasta ári liðlega 1.500. Það er sá grunnur sem við höfum til viðmiðunar. Þess vegna er hæpið að fara í þessa lagasetningu þó aðeins sé verið að ræða um stjúpættleiðingu. Þau börn sem um ræðir eru líka börn. Við eigum númer eitt, tvö og þrjú að tryggja rétt barnsins, ekki kröfuna um mannréttindi á röngum forsendum.