Staðfest samvist

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:17:50 (6953)

2000-05-04 22:17:50# 125. lþ. 106.14 fundur 558. mál: #A staðfest samvist# (búsetuskilyrði o.fl.) frv. 52/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er mikilvægt mál á ferð og rétt að taka þessu máli með mikilli alvöru og það eru þingmenn að gera. Lesbíur og hommar lifa í þessu samfélagi sem er samfélag gagnkynhneigðra. Lesbíum og hommum er það mjög mikilvægt að finna að þau eigi sér málsvara, ekki bara á meðal samkynhneigðra heldur ekki síður á meðal gagnkynhneigðra. Eins og öllu fólki er nauðsynlegt að eiga stuðningsmenn sem hægt er að leita til, aðstandendur sem skilja vandamálin, þá er samkynhneigðum það nauðsynlegt að eiga hér stuðningsmenn, að eiga velviljað fólk sem skilur þau vandamál sem við er að etja. Samkynhneigðir eiga sér málsvara á Alþingi Íslendinga. Samkynhneigðir hafa átt sér málsvara á Alþingi Íslendinga á umliðnum árum.

Lög um staðfesta samvist voru samþykkt í þessum sölum í júlí 1996 og ef ég man rétt, herra forseti, þá var sama ár sett ákvæði í almenn hegningarlög að bannað væri hér á landi að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. En það hefur einungis verið í lögum, herra forseti, í fimm ár, kannski sex, en það er í lögunum sem við störfum eftir í dag. Á Íslandi er ekki heimilt að mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar og það er ekki réttlætanlegt að í landinu séu í gildi lög sem mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar. Það er ákvæði af því tagi sem verið er að leiðrétta hér og hv. allshn. hefur lagt til brtt. við það frv. sem hér er til umræðu og sú brtt. er alls góðs makleg og hún á það sannarlega skilið að vera samþykkt í þingsölum vegna þess að í henni felst yfirlýsing um stuðning við minnihlutahóp í samfélaginu.

Það eru ekki rangar tölur sem farið er með þegar talað er um að á að giska þúsund börn séu alin upp hér og nú á Íslandi á heimili þar sem foreldrarnir eru samkynhneigðir. Við höfum undir höndum tölur sem sýna hugsanlegan fjölda samkynhneigðra foreldra og barna þeirra miðað við mannfjölda á Íslandi í dag og miðað við erlendar forsendur um fjölda samkynhneigðra foreldra. Herra forseti. Íslendingar eru ekkert öðruvísi en aðrar þjóðir. Það að áætla að þúsund börn búi við slíkar aðstæður í dag er ekki vanáætlað.

Nú hefur það komið fram í umræðunni, herra forseti, að ekki séu til vísindalegar rannsóknir sem styðji það að samkynhneigðir séu síðri uppalendur en gagnkynhneigðir. Rannsóknir frá mörgum löndum sýna það og staðfesta að samkynhneigðir eru nákvæmlega jafngóðir uppalendur og gagnkynhneigðir, samkynhneigðir elska líka börnin sín eins og gagnkynhneigðir. Þess vegna eiga börn samkynhneigðra að sjálfsögðu sama rétt og börn gagnkynhneigðra.

Herra forseti. Þegar því er haldið fram að börn sem alast upp í samkynhneigðum fjölskyldum eigi frekar á hættu að verða samkynhneigð sjálf, þá er það rangt og nægir að nefna það að þeir sem eru samkynhneigðir í dag og hafa tjáð sig fyrir hönd Samtakanna '78 eru allir fæddir inn í gagnkynhneigðar fjölskyldur.

Herra forseti. Baráttan fyrir rétti til stjúpættleiðinga samkynhneigðra varðar vissulega mannréttindi. Hún varðar mannréttindi samkynhneigðra í staðfestri samvist. En umfram allt snýst þessi barátta samt sem áður um réttindi og hagsmuni og velferð þeirra barna sem um ræðir og þau börn eru að alast upp í okkar samfélagi í dag. Þetta eru börn sem sækja félagslegt og réttarlegt öryggi sitt einungis til þess kynforeldris sem þau búa með. Þetta eru börn sem eiga ekki kost á slíku frá hinu kynforeldrinu, í sumum tilfellum vegna þess að hitt kynforeldrið er látið en í öðrum tilfellum vegna þess að hitt kynforeldrið vill ekki af barninu vita og hefur afsalað sér forsjá þess.

Við hlið þessa barns stendur stjúpforeldri, sem er að ala barnið upp, sem samkvæmt þeim lögum sem við búum við í dag hefur ekki mátt ættleiða þetta barn. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til verður réttarbót í lífi þessa barns og það fær sömu mannréttindi sem önnur börn sem búa við sömu aðstæður hafa haft rétt til, og öll börn eiga að sjálfsögðu rétt á.

Herra forseti. Ég treysti því að fjölskyldur samkynhneigðra eigi jafnmarga málsvara á Alþingi Íslendinga og þær áttu árið 1996 þegar lögin um staðfesta samvist voru samþykkt hér í þingsölum.