Lánasjóður landbúnaðarins

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:47:24 (6959)

2000-05-04 22:47:24# 125. lþ. 106.18 fundur 625. mál: #A Lánasjóður landbúnaðarins# (lánsheimildir) frv. 89/2000, Frsm. HjálmJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:47]

Frsm. landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um Lánasjóð landbúnaðarins, nr. 68/1997. Þetta mál er ekki stórt í sniðum. Það er hins vegar mikilvægt fyrir þá sem skipta við Lánasjóð landbúnaðarins en hann hefur fremur stífar reglur. Með frv. eru þær rýmkaðar. Í 1. gr. kemur fram að tilgangur laganna er að auka sveigjanleika sjóðsins til endurfjármögnunar á rekstrar- og fjárfestingarskuldum bænda.

2. gr. er þannig:

,,Upphæð lána má vera allt að 65% kostnaðarverðs eins og meðalkostnaður sambærilegra framkvæmda er talinn ár hvert. Upphæð lána til kaupa á jörðum má vera allt að 70% af matsverði eignar. Lán er heimilt að veita í áföngum.``

3. gr. er gildistökuákvæðið, að lögin öðlist þegar gildi.

Herra forseti. Í athugasemdum með frv. kemur fram að tilgangur þess sé að rýmka heimildir Lánasjóðs landbúnaðarins til lánveitinga.

Með frv. er stefnt að því að lögfesta heimildir fyrir Lánasjóð landbúnaðarins til að veita bændum lán til endurfjármögnunar á rekstrar- og fjárfestingarskuldum bænda. Í lögum nr. 45/1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, var ákvæði sem heimilaði slík lán til endurfjármögnunar á rekstrar- og fjárfestingarskuldum bænda. Það er ekki ótvírætt í lögunum um Lánasjóð landbúnaðarins sem tók við af Stofnlánadeildinni. Því er brugðið á það ráð að fá breytinguna lögfesta, þ.e. slík heimild er þá ótvíræð verði þetta að lögum.

Í framkvæmd hefur komið í ljós að veruleg þörf er á slíku ákvæði þar sem fjölmargir bændur hafa farið þá leið að fjármagna framkvæmdir í búrekstri og kaup á vélum, bústofni og fóðri með skammtímalánum og sitja margir uppi með óhagstæð lán og mikla greiðslubyrði sem erfitt er að standa straum af með tekjum búsins. Því er farin sú leið að heimila lengri lán og væntanlega hagstæðari að þessu leyti.

Í annan stað felur frv. í sér rýmkun á heimild Lánasjóðs landbúnaðarins til lánveitinga. Samkvæmt gildandi lögum mega lánin nema allt að 60% kostnaðarverðs af framkvæmdum. Í frv. er gert ráð fyrir því að sú heimild hækki í 65% og enn fremur, eins og áður sagði, að jarðakaupalán megi hækka upp í 70% af matsverði eigna.

Eins og fram er komið flytur landbn. sjálf þetta mál. Ekki er gerð tillaga um að vísa því til nefndarinnar sérstaklega og vænti ég þess að það muni hljóta skjóta afgreiðslu.