Hópuppsagnir

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:51:08 (6960)

2000-05-04 22:51:08# 125. lþ. 106.20 fundur 469. mál: #A hópuppsagnir# (heildarlög, EES-reglur) frv. 63/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:51]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1122 um frv. til laga um hópuppsagnir.

Félmn. hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir sem bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Eyþingi, Bandalagi háskólamanna, Sjómannasambandi Íslands, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi og Samtökum fiskvinnslustöðva.

Frv. er lagt fram í þeim tilgangi að gera íslenska löggjöf um hópuppsagnir skýrari og laga hana að tilskipun 98/59/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna um hópuppsagnir samkvæmt skuldbindingum Íslands við aðild að Evrópska efnahagssvæðinu.

Nefndin lítur svo á að ákvæði frv. séu til bóta, einkum hvað varðar framkvæmd hópuppsagna, tilkynningarskyldu til svæðisvinnumiðlana og samráð við trúnaðarmenn stéttarfélaga.

Athugasemdir bárust um að áhafnir skipa væru í b-lið 2. gr. frv. undanskildar ákvæðum þess og ræddi nefndin nokkuð um ástæður þess. Sams konar ákvæði er að finna í gildandi lögum um hópuppsagnir og er þetta í samræmi við margar sérreglur um sjómenn, t.d. varðandi vinnutíma. Þá taka sérstök ákvæði sjómannalaga á réttindum og skyldum sjómanna. Að svo búnu taldi nefndin því ekki ástæðu til að hrófla við þessu ákvæði frv.

Nefndin leggur til breytingu á frv. þess efnis að orðið ,,öðru`` verði fellt brott úr 1. mgr. 4. gr. Ankannalegt er að tala um atvinnurekanda og annað fyrirtæki þar sem atvinnurekandi hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera persóna en ekki fyrirtæki í þeim skilningi sem gert er ráð fyrir í 1. mgr. 4. gr.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég nefndi. Undir nál. rita allir hv. þm. í félmn.