Innheimtustofnun sveitarfélaga

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:53:53 (6961)

2000-05-04 22:53:53# 125. lþ. 106.21 fundur 545. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (kröfufyrning barnsmeðlaga) frv. 62/2000, Frsm. ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:53]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1123 um frv. til laga um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og farið yfir umsagnir sem bárust frá Félagi einstæðra foreldra, Tryggingastofnun ríkisins, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Ríkisendurskoðun, Innheimtustofnun sveitarfélaga og Félagi ábyrgra feðra.

Frv. er lagt fram í því skyni að lögfesta þá tilhögun að fyrningarfrestur endurgreiðslna meðlagskrafna á hendur meðlagsskyldum foreldrum verði tíu ár. Sá skilningur hefur lengi verið við lýði hér á landi að meðlagskröfur fyrnist ekki. Í dómi Hæstaréttar frá 24. ágúst 1999 í máli nr. 254/1999 var því hafnað og talið að kröfur til endurgreiðslu meðlags fyrndust á fjórum árum. Til þess að unnt sé að koma að verulegu leyti í veg fyrir að Innheimtustofnun sveitarfélaga tapi kröfum vegna hins stutta fyrningarfrests sem kveðið er á um í dóminum er lagt til að fyrningarfrestur endurgreiðslna meðlagskrafna verði tíu ár, en það er í samræmi við almennan fyrningarfrest í lögum um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. En undir nál. rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, Pétur H. Blöndal. Kristján L. Möller, Kristján Pálsson, Drífa Hjartardóttir, Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon með fyrirvara.