Innheimtustofnun sveitarfélaga

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 22:55:50 (6962)

2000-05-04 22:55:50# 125. lþ. 106.21 fundur 545. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (kröfufyrning barnsmeðlaga) frv. 62/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[22:55]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu formanns rita ég undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur að því hvort það sé eðlilegur frágangur mála að hægt sé með tilteknum aðgerðum að endurvekja eða viðhalda kröfum á hendur einstaklingum, þess vegna ævilangt, vegna atvika sem orsakast geta af mjög sérstökum aðstæðum. Ég deili ekki um að nauðsynlegt er að tryggja að Innheimtustofnun sveitarfélaga geti á eðlilegan hátt innheimt kröfur sínar á hendur þeim sem stofnunin á kröfur á en hefur þegar innt af hendi greiðslur fyrir. Það er ljóst að um mjög sérstakt samband er að ræða þar sem opinber stofnun hefur innt greiðslur af hendi og á síðan endurkröfurétt á þá sem ekki hafa staðið í skilum með sín mál.

Engu að síður hlýtur að orka tvímælis, herra forseti, að hægt sé með tilteknum aðgerðum, þ.e. lögtaksaðgerðum eða aðför á 10 ára fresti, að endurvekja eða viðhalda slíkum kröfum, þess vegna um áratuga skeið. Enda eru til dæmi um ótrúlega gömul innheimtumál í kerfinu. Rétt er að hafa í huga að kröfur geta í þessu tilviki myndast vegna mjög sérstakra aðstæðna svo sem að lyktir fáist í faðernismál eða af öðrum ástæðum, að þá myndist skyndilega eftir eitthvert árabil há uppsöfnuð krafa.

Herra forseti. Ég tel aðrar leiðir koma til álita og það er ástæða fyrirvara míns. Ég hefði gjarnan viljað að kostur hefði gefist á að skoða hvort ekki væri, um leið og ófyrnanleiki þessara krafna er gerður jafnafdráttarlaus og hér er gert með 10 ára fyrningartíma og svo með það í huga að síðan væri hægt að halda kröfunni við með aðgerðum lengur, að setja á móti endanlegt þak eða sólarlag á hámarkslengd slíkra krafna, t.d. 20 ár eða annað í þeim dúr. Persónulega hef ég, herra forseti, ekki verið hrifinn af þeirri aðferð sem notuð er í tilviki sem að sumu leyti er hliðstætt, þegar um gjaldþrotameðferð á persónulegum fjárhag einstaklings hefur verið að ræða. Þá halda kröfur eftir meðferðina, sem ekki er í þeim skilningi fullnaðaraðferð, gildi sínu í 10 ár og er síðan með sams konar aðferðum hægt að endurlífga þær. Úr því getur komið sú staða að einstaklingar sem af ýmsum og jafnvel óviðráðanlegum ástæðum hafa lent í þessum aðstæðum eru eltir út lífið með slíkum aðgerðum. Að þessu leyti virðist það sama geta orðið upp á tengingnum. Mér er það nokkurt umhugsunarefni, herra forseti, þannig að ég hef þennan fyrirvara á um málið sem ég styð að öðru leyti. Mér er ljóst að það er nauðsynlegt í kjölfar þeirrar dómtúlkunar sem vitnað var til að koma þessum málum í fastar skorður.

Ég tek svo fram að lokum, herra forseti, að afstaða mín er alls ekki sprottin af sérstakri samúð með þeim sem ekki inna greiðslur sínar af hendi í þessum tilvikum. Það ber mönnum að sjálfsögðu að gera. Hins vegar geta komið upp tilvik þar sem óvenjulegar aðstæður valda því að krafan myndast og hefur jafnvel safnast upp á árabili og það er m.a. með slík tilvik í huga sem mér finnst ástæða til að hyggja að því hvort þetta sé nógu vandaður frágangur á málinu.