Orkunýtnikröfur

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 23:00:55 (6963)

2000-05-04 23:00:55# 125. lþ. 106.22 fundur 523. mál: #A orkunýtnikröfur# frv. 51/2000, Frsm. GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[23:00]

Frsm. iðnn. (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. iðnn. um frv. til laga um orkunýtnikröfur.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðjón Axel Guðjónsson frá iðnaðarráðuneyti, Jóhann Ólafsson frá Löggildingarstofu, Önnu Birnu Halldórsdóttur frá Samkeppnisstofnun og Stefán Guðjónsson og Guðrúnu Ástu Sigurðardóttur frá Samtökum verslunarinnar. Umsagnir um málið bárust frá Orkustofnun, Löggildingarstofu og Landsvirkjun.

Frumvarpinu er ætlað að veita iðnaðarráðherra heimild til að kveða á um orkunýtnikröfur tiltekinna véla, tækja og búnaðar í því skyni að orka verði nýtt á skynsamlegan og hagkvæman hátt. Við setningu reglna um orkunýtnikröfur einstakra tækja er gert ráð fyrir að innleiddar verði tilskipanir Evrópusambandsins um orkumerkingar og orkunýtni ýmiss búnaðar. Þannig yrði skyldum Íslands á þessu sviði vegna aðildar að Evrópska efnahagssvæðinu fullnægt. Nefndin ræddi nokkuð það fyrirkomulag að veita ráðherra svo víðtæka heimild til setningar reglugerða eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þó að því fylgi nokkrir ókostir lítur nefndin svo á að slík reglugerðarheimild til handa ráðherra sé heppilegri leið en að innleiða þurfi hverja tilskipun sérstaklega með lögum.

Nefndin telur að með lögfestingu ákvæða frumvarpsins verði stigið mikilvægt skref í þá átt að auka orkusparnað, bæta nýtingu verðmæta og draga úr sóun á orku. Nefndin bendir jafnframt á að ekki er hægt að skilja frumvarpið svo að það taki eingöngu til véla, tækja og búnaðar sem nýti raforku, heldur einnig aðra orku, svo framarlega sem skilyrði 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins séu uppfyllt.

Nefndin gerir breytingartillögu við 2. málsl. 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins þess efnis að ekki megi banna markaðssetningu vöru sem hafi CE-samræmismerki. Hafi vara slíkt merki er gert ráð fyrir að hún uppfylli kröfur um orkunýtni nema annað sé sannað.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svohljóðandi breytingu:

Við 3. gr. 2. málsl. 2. mgr. orðist svo: Óheimilt er að banna markaðssetningu vöru sem uppfyllir kröfur um orkunýtni og hefur CE-samræmismerki, enda uppfylli hún skilyrði annarra laga

Ísólfur Gylfi Pálmason var fjarverandi við afgreiðslu málsins en aðrir nefndarmenn iðnn., Hjálmar Árnason formaður, Guðjón Guðmundsson, Rannveig Guðmundsdóttir, Pétur H. Blöndal, Drífa Hjartardóttir, Árni Steinar Jóhannsson, Árni R. Árnason og Ásta R. Jóhannesdóttir, rita undir þetta nefndarálit.