Almannatryggingar

Fimmtudaginn 04. maí 2000, kl. 23:03:44 (6964)

2000-05-04 23:03:44# 125. lþ. 106.23 fundur 503. mál: #A almannatryggingar# (dvalarkostnaður foreldris) frv. 61/2000, Frsm. TIO
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 125. lþ.

[23:03]

Frsm. heilbr.- og trn. (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá heilbr.- og trn. um frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir að greiða óhjákvæmilegan dvalarkostnað annars foreldris við sjúkrahúsinnlögn barns yngra en 18 ára fjarri heimili. Ef um er að ræða erfiða meðferð við lífshættulegum sjúkdómi er heimilt að slík greiðsla nái til beggja foreldra barns undir 18 ára aldri.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Jónína Bjartmarz, Lára Margrét Ragnarsdóttir, Katrín Fjeldsted, Bryndís Hlöðversdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Tómas Ingi Olrich og Jón Kristjánsson.