Bréfasendingar alþingismanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 10:39:39 (6978)

2000-05-08 10:39:39# 125. lþ. 107.91 fundur 485#B bréfasendingar alþingismanna# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[10:39]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hlýjar kveðjur í upphafi fundar Alþingis í kjölfar stofnfundar Samfylkingarinnar sem við erum afskaplega ánægð með, átti von á góðum óskum félaganna og við höfum heyrt þær.

Þannig ber við að sú sem hér stendur er afskaplega hörð á því að póstur sem fer frá Samfylkingunni sé til sóma og brjóti ekki í bága. Sú sem hér stendur hefur öll þau ár sem hún hefur starfað á þingi sent af og til fréttabréf til flokkssystkina, ýmist í kjördæmi eða víðar út um land allt eftir því sem tilefni hefur verið til. Svo ber nú við að við höfum sent út bréf um nýhafið aldamótaár í íslenskum stjórnmálum um stjórnarsamstarf Sjálfstfl. og Framsfl. sem við erum að takast á við, um blikur á lofti í efnahagsmálum, vaxtahækkanir og viðskiptahalla, um umhverfismál og hvað er á dagskrá stjórnmálanna sem við erum að takast á við, fréttabréf til félaga okkar í kjördæminu um hver verkefnin eru sem við erum að fást við nú, og þykjumst við viss um eftir að hafa oft fjallað um það með góðu fólki í kjördæmi mínu að áþekk bréf hafi farið frá öðrum stjórnmálaflokkum.

Hið síðara bréf, sem sent var út 31. janúar 2000, er ef ég tek fyrirsagnirnar í því um stöðu Samfylkingarinnar á Alþingi, hvernig Samfylkingin hefur starfað, hvaða þingmál Samfylkingin hefur verið að vinna með, um nýja sjávarútvegsstefnu sem þingflokkur Samfylkingarinnar var að flytja og vinna með, um kjördæmaheimsóknir sem þingflokkurinn hefur verið að fara í, um nýtt fréttabréf þingflokksins sem mun koma með daglegar fréttir á vefnum, sem þingflokkurinn var að stofna, og síðan eru fréttir af því sem fram undan er og sem hv. þm. gerir að umtalsefni.

Herra forseti. Ég treysti mér til að leggja þessi bréf fyrir þingflokksformannafund með forseta eða forsætisnefnd og hún skoði önnur bréf sem hafa farið út héðan á vegum þingflokka.