Bréfasendingar alþingismanna

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 10:44:55 (6981)

2000-05-08 10:44:55# 125. lþ. 107.91 fundur 485#B bréfasendingar alþingismanna# (aths. um störf þingsins), GHall
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[10:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði að hún legði sig upp með það að senda bréf sem væru traustvekjandi og trúverðug. Það vill svo til að ég er með þriðja bréfið undir höndum sem flokkur jafnaðarmanna sendi út nokkru áður en hann réðst á mig með slíkri heift, og sendi þetta út í 8 þúsund eintökum til allra sjómanna og vitnaði þar um óstefnu ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum.

En það er annað. Ein persóna er sérstaklega tiltekin í því bréfi og gagnrýnd. Eru þetta góð vinnubrögð? Eru þetta góð vinnubrögð að á bréfsefni Alþingis og umslagi Alþingis skuli innihaldið vera hrein persónuleg árás á einstakling? Já, þetta eru vönduð vinnubrögð.

En að gefnu tilefni, herra forseti, óska ég auðvitað Samfylkingunni alls hins besta og óska formanni hennar gæfu og gengis. En ég ítreka alveg eins og hv. þm. Pétur Blöndal og hæstv. forsrh. komu hér inn á, að ef þessi hópur er að ráðast á þann einstakling sem hér stendur, þá hlýtur hann að svara fyrir sig og skiptir ekki máli hvort það er daginn eftir fermingarveislu Samfylkingarinnar eða ekki, það skiptir engu máli. Mér barst þetta bréf í hendur seinni hluta vikunnar og ég hef verið að skoða þetta. Það var líka athyglisvert að heyra hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur ekki minnast á sitt leiðandi ljós, Mörð Árnason, sem veltir mér upp úr því trekk í trekk að svívirðilegt sé hvernig ég hafi haldið á málum. En hvað þá með hans eigin flokk? Hvað með Samfylkinguna sem er ekki eingöngu að ráðast á ríkisstjórnina heldur einstakar persónur í bréfum sínum? Það er alvarlegt atriði.

Ég tek undir með hv. þm. Pétri Blöndal, virðulegi forseti. Það er vissulega kominn tími til að tekið sé á þessum hlutum.