Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 11:07:12 (6985)

2000-05-08 11:07:12# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[11:07]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Skýrsla hæstv. utanrrh. um stöðu Íslands í Evrópusamstarfinu er mikið rit, er litlar 330 síður og þar er ítarlega farið í gegnum flest þau svið sem samningurinn nær yfir. Ég tel að þetta rit sé gagnmerkt plagg og ákaflega góður umræðugrundvöllur fyrir þetta flókna en mikilvæga mál. Hæstv. ráðherra á þakkir skildar fyrir framtakið.

Því er ekki að neita, herra forseti, að ég hefði á nokkrum stöðum í skýrslunni gert mér vonir um afdráttarlausari niðurstöður um ýmsa meginþætti. Hæstv. ráðherra gat þess í ræðu sinni að skýrslan endurspeglaði vinnu og aðkomu ýmissa undirstofnana. Það skýrir kannski ýmsa hluti, t.d. þá niðurstöðu sem er að finna í skýrslunni um félags- og vinnumál. Þar er engu líkara en meðvitað sé dregið úr hinum margvíslegu jákvæðu áhrifum EES-samningsins á réttarstöðu launafólks á Íslandi. Það eina sem þar er að finna jákvætt í þeirri samantekt er á bls. 108, herra forseti. Það er þessi makalausa setning, með leyfi forseta: ,,Halda má því fram að EES-samningurinn hafi bætt réttarstöðu launafólks á Íslandi.``

Ég trúi ekki eitt einasta augnablik, herra forseti, að hæstv. utanrrh. sem ber hina pólitísku ábyrgð á þessari skýrslu viti ekki betur um stöðuna í þessum málaflokki en svo að hann telji aðeins mögulegt að EES-samningurinn hafi bætt rétt launafólks. Ég tek þetta sem dæmi um að sums staðar sé niðurstöðum og samantekt áfátt og ekki í samræmi við ákaflega greinargóðan samandrátt á upplýsingum um skýrsluna. En hæstv. ráðherra má eiga það að í ræðunni sem hann var að ljúka við að flytja bætti hann þetta heldur betur upp. Mér finnst þessi ræða hæstv. ráðherra vera ákaflega góð samantekt á því sem þarna stendur. Ég er honum sammála um margar meginniðurstöður sem þarna koma fram. Til að mynda finnst mér það mikilvægt að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að hann er þeirrar skoðunar að Íslendingar geti hæglega lent í þeirri aðstöðu að eiga fárra kosta völ og enginn þeirra sé góður.

Hann segir jafnframt, herra forseti: ,,Við munum því standa frammi fyrir mikilvægum en jafnframt erfiðum ákvörðunum á næstu árum þótt ekki sé hægt að tímasetja þær á þessari stundu.`` Hæstv. ráðherra gengur lengra. Hann segir að við höfum réttinn til að sækjast eftir og fá fulla aðild að Evrópusambandinu, segir að vísu að ekki sé víst að það henti okkur en síðan segir hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: ,,... en réttinn eigum við og ég tel það þjóna hagsmunum Íslands að taka þann kost til skoðunar með reglubundnum hætti eftir því sem aðstæður breytast.``

Herra forseti. Nákvæmlega þetta er skoðun Samfylkingarinnar. Nákvæmlega þetta er það sem við höfum sagt og ég fagna því að hæstv. utanrrh. hefur með þessum hætti slitið fjötra bannfæringarinnar af umræðunni um Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að því. Eins og menn vita hefur meðvitað verið reynt að ýta því út úr umræðunni hér á landi síðustu árin.

Komið hefur fram að ýmsir eru þeirrar skoðunar að hitt og þetta vanti í skýrsluna. Ég vek athygli á því að í Morgunblaðinu í dag má lesa viðtal við Gísla Gíslason, bæjarstjóra á Akranesi, þar sem hann segir að aðild að EES mundi hafa margháttuð jákvæð áhrif fyrir sveitarfélögin í landinu. Eitt af því sem ég hef ekki rekist á í þessari skýrslu er umfjöllun um þetta.

Hæstv. ráðherra gat þess líka að nauðsynlegt væri að fá fram viðhorf ýmissa annarra félagasamtaka. Það rifjar það upp að Neytendasamtökin hafa harkalega gagnrýnt þann þátt sem snýr að umbjóðendum þeirra, íslenskum neytendum, í skýrslunni. Ég vek auðvitað athygli á því, herra forseti, að forustumenn ASÍ hafa gagnrýnt hvernig fjallað er um þann þátt skýrslunnar sem ég hef hér nefnt, um félags- og vinnumál. Þess vegna fagna ég því þegar hæstv. ráðherra segir að fá þurfi umsögn og álit ýmissa hagsmunasamtaka í samfélaginu. Síðan má spyrja hvers vegna hæstv. ráðherra lauk ekki þeirri hugsun. Spyrja má: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra þinginu að njóta góðs af umsögn og ályktun þessara stofnana því að hæstv. ráðherra sagði að til þess að hægt væri að fá óvilhalla og hlutlausa mynd af niðurstöðum skýrslunnar þyrfti þessi álit. Ég legg því til við hæstv. utanrrh. að þegar búið er að senda skýrsluna til umsagnar hjá þessum samtökum og fá skrifleg álit þeirra verði hún aftur tekin til umræðu í þinginu. Þetta finnst mér mikilvægt, herra forseti, til þess að við getum þróað þessa umræðu.

Ég get ekki látið hjá líða, herra forseti, vegna þess að ég sat í þeirri ríkisstjórn sem leiddi Ísland inn í Evrópska efnahagssvæðið, að fjalla lítillega um þann þátt skýrslunnar sem varðar þann gerning. Það má segja að kaflinn um Evrópska efnahagssvæðið sé samfelldur lofsöngur. Það hlýtur auðvitað að hafa komið hæstv. utanrrh. dálítið á óvart að lesa þetta vegna þess að eins og menn muna eftir þá var hann ekki alveg sömu skoðunar og ég og ýmsir skoðanabræður og -systur mínar á sínum tíma. En í skýrslunni, sem er á vegum hæstv. ráðherra, segir á bls. 7, með leyfi forseta: ,,EES-samningurinn hefur nú verið í gildi í rúm sex ár og er óhætt að fullyrða að hann hefur reynst Íslandi hagstæður.`` Það er líka ákaflega merkilegt, miðað við þær umræður sem hafa orðið um stöðugleikann í íslenskum efnahagsmálum, að þar er sagt að EES-samningurinn hafi án efla stuðlað verulega að þeim stöðugleika sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Ég held að flestir séu nú í ljósi reynslunnar komnir á þá skoðun að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi líklega verið einn af heilladrýgstu milliríkjasamningum sem við höfum gert. Ég tek fram, herra forseti, að ég er stoltur af þeim litla þætti sem ég og pólitískir ættingjar mínir hafa átt gagnvart honum.

Þegar við gerðumst aðilar að EES var það svar okkar við því mikilvæga skrefi sem Evrópusambandið var þá að taka með myndun innri markaðar. Það var gert í því ljósi að mikilvægustu viðskiptalönd okkar lágu þá innan Evrópusambandsins og myndun innri markaðarins hafði óhjákvæmilega ákaflega mikla þýðingu fyrir okkur. Sambandið er hins vegar í hraðri mótun meðan EES-samningurinn er kyrrstæður og hann tekur ekkert mið af breytingum innan ESB. Þetta er rakið nokkuð vel í skýrslunni og hæstv. ráðherra gerði það ágætlega í máli sínu áðan. Staða Íslands hefur verið að veikjast gagnvart Evrópusambandinu og það er kannski fernt sem ég vil leggja áherslu á í því sambandi.

Í fyrsta lagi liggur það fyrir að bandalagið er á barmi stækkunar. Sú stækkun leiðir til þess, eins og hæstv. utanrrh. sagði í svari við fyrirspurn frá mér fyrir nokkrum vikum, að staða Íslands eins og sér veikist.

Í öðru lagi hafa orðið breytingar á innviðum Evrópusambandsins sem beinlínis varða möguleika okkar til að hafa áhrif á ákvarðanir sem okkur varða. Sú hálfgildings aukaaðild sem má með réttu segja að við höfum haft gegnum EES hefur gefið okkur vissan rétt til áhrifa á ákvarðanir í gegnum samráð í sérfræðinganefndum. Þróunin hefur verið á þann veg að þessi möguleiki er mun minni en í upphafi. Á fundinum í Amsterdam fyrir þremur árum var Maastricht-sáttmálanum breytt og þær breytingar leiddu til þess að drjúgur hluti þeirra mála sem falla undir fyrstu stoð ESB, þ.e. EES-málanna, fylgir núna sérstöku samráðsferli sem var sett upp af kröfu Evrópuþingsins til að auka vægi þess. Án þess að ég vilji fara út í smáatriði þess ferlis þá er alveg ljóst að Ísland getur með engu móti komið að niðurstöðu mála í því ferli. Við höfum ekki tök á að koma sjónarmiðum okkar á framfæri.

[11:15]

Eins og kemur fram í skýrslunni hefur þekking á EES innan ESB farið dvínandi og það er ákaflega merkilegt að lesa á einum stað hvernig afstöðubreyting gagnvart EES hefur orðið en þar segir, með leyfi forseta:

,,ESB hefur orðið ósveigjanlegra í sambandi við undanþágur gagnvart EFTA/EES-ríkjunum.``

Það kemur líka fram, herra forseti, að EFTA/EES-ríkin hafa jafnvel gleymst í sambandi við lagasetningu innan ESB jafnvel þó að það séu augljóslega mikil tengsl millum þeirra og þessara lagasetninga.

Í þriðja lagi, herra forseti, liggur fyrir að stefna sambandsins um sameiginlega mynt hefur orðið að veruleika. Það skiptir miklu máli varðandi samkeppnisstöðu Íslands og það ber líka að taka áhrif þess inn í dæmið þegar menn eru að reikna hvað það kostar okkur eða hvað við kunnum að hagnast á því að vera innan ESB. Þetta er ekki metið í skýrslunni, sennilega vegna þess að fyrir liggja tvær aðrar ágætar skýrslur sem hafa metið það. Ég held að ekkert hafi gerst sem breytir meginniðurstöðum þeirra en þó hefði verið ágætt að fá samantekt á því í þeim ágæta kafla sem fjallar um tæknileg efni sem tengjast myntbandalaginu. Þetta ræði ég síðar, herra forseti, ef ég hef tíma.

Fjórða atriðið skiptir miklu máli varðar þá þróun sem hefur orðið í öryggis- og varnarmálum. Það eru uppi mikilvægar stefnubreytingar sem varða stöðu Íslands í hinu alþjóðlega og sérstaklega hinu evrópska öryggiskerfi. Núna er alveg ljóst að ESB mun byggja upp sérstaka varnarstoð Evrópusambandsins þar sem við höfum enga aðkomu í reynd að ákvörðunum. Þetta getur haft áhrif á stöðu Íslands í hinu alþjóðlega öryggiskerfi. Allt þetta, herra forseti, gerir það að verkum að það er hárrétt hjá hæstv. ráðherra að við þurfum að endurmeta stöðu okkar reglulega og við getum ekki lokað á þann möguleika að e.t.v. verði niðurstaðan sú að besti kosturinn fyrir Ísland verði að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hins vegar er ekki komið að ákvarðanatöku í því efni en skýrsla hæstv. ráðherra er mikilvægt skref til þess að auðvelda þjóðinni og Alþingi, ekki síst stjórnmálaflokkunum, að komast að ákvörðun um þetta.

Það hefur komið fram bæði frá hinum ysta væng vinstrisins og líka á hægri vængnum sú skoðun að hægt sé að leysa stöðu okkar með því að gera tvíhliða viðskiptasamning við ESB. Hæstv. ráðherra gerði því nokkur skil og komst að niðurstöðu sem ég er sammála. Ég tel að það sé sísti kosturinn í stöðunni. Ég tel hann reyndar handónýtan kost. Með því værum við í raun að smækka samskipti okkar og Evrópu niður í það eitt að fjalla um verslun með fisk en við eigum samleið með Evrópu í fjölda annarra mála. Það eru ekki bara hörðustu viðskiptahagsmunir sem eiga að ráða. Við þurfum líka að velta fyrir okkur stöðu okkar gagnvart hinni miklu vísinda- og rannsóknasamvinnu. Hvað með öll nemendaskiptin, félagslegu réttindin, réttindi neytenda og svo mætti lengi telja? Við Íslendingar þurfum líka að rífa okkur inn í framtíð þekkingarsamfélagsins og það er mikið áhersluatriði innan Evrópusambandsins. Allt þetta, herra forseti, hljótum við að þurfa að vega og meta.

Með dyggri aðstoð latra fjölmiðla hefur þeim sem einungis vilja tala með neikvæðum formerkjum um aðild að ESB tekist að snúa umræðunni upp í það að hún snúist um krónur og aura, hún snúist um 3 milljarða kr. Reiknað hefur verið út að árlegt framlag Íslands til ESB miðað við núverandi stöðu efnahagsmála okkar yrðu 8 milljarðar kr. Í kjölfar þess hafa vísir menn reiknað út að við fáum 5 milljarða til baka. Niðurstaðan er sú að við þurfum að greiða 3 milljarða. Maður hefur jafnvel heyrt ábyrga stjórnmálamenn halda því fram að þetta dugi til þess að það sé óðs manns æði að ætla að ganga þarna inn.

Herra forseti. Snýst möguleg aðild að Evrópusambandinu þá um 3 milljarða kr.? Að sjálfsögðu ekki. Málið snýst miklu fremur um það hvernig og hvort Íslendingar vilja taka þátt í þróun ESB. Vilja þeir það eða vilja þeir það ekki? Það snýst ekki um 3 milljarða. Ef ég hefði tíma, herra forseti, þá væri hægt að telja fjölmörg atriði sem benda til þess að líkast til mundum við hagnast verulega í krónum talið. En það er ekki það sem málið snýst um.

Það eru tvö atriði, herra forseti, sem mér finnst vanta sárlega í skýrsluna. Ég hef reifað annað örlítið. Það fyrra varðar sem sagt alvöru umfjöllun um evruna, hinn sameiginlega gjaldmiðil ESB og hitt atriðið varðar stöðu smáríkja innan ESB. Ísland er örsmátt ríki á mælikvarða Evrópusambandsins en innan ESB er líka að finna ákaflega smá ríki, jafnvel svo lítil að þau eru á svipuðu stigi og við. Eitt af því sem við þurfum að skoða er hvernig þeim hefur reitt af. Þetta er ekki síst nauðsynlegt að kanna vegna endurtekinna staðhæfinga um að smáríki á borð við okkur hefðu engin áhrif innan Evrópusambandsins.

Nú vill svo til að við Háskóla Íslands starfar ungur fræðimaður sem hefur nýlokið miklu vísindaverki sem einmitt fjallar um það hvernig smærri ríkjum hefur vegnað innan Evrópusambandsins, dr. Baldur Þórhallsson, og ekki er langt síðan Morgunblaðið birti prýðilegt viðtal við hann þar sem hann fjallaði um þetta efni. Niðurstaða þessa unga vísindamanns er sú að smærri ríkjum vegnar vel innan Evrópusambandsins. Þau una hag sínum þar og þau telja að innan sambandsins nái þau hagsmunum sínum vel fram. Það hlýtur auðvitað að skipta máli þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig okkur muni reiða af. Það er t.d. merkilegt að lesa það eftir þessum unga vísindamanni að það er niðurstaða hans að stjórnsýsla smærri ríkja Evrópusambandsins henti ákaflega vel til þess að eiga við Evrópusambandið. Óformlegir starfshættir, sveigjanlegt ákvarðanatökuferli í smærri stjórnsýslu komi þeim oftar einkar vel innan sambandsins. Þau séu líka fljótari að bregðast við og niðurstaða hans er sú að smærri ríkjunum vegni betur en hinum. Velgengni smærri ríkjanna kristallast t.d. í ákaflega glæsilegri meðhöndlun Finna á forsæti ráðherraráðsins á síðasta ári og góðum árangri Lúxemborgar, Danmerkur og Írlands í að ná málum sínu fram innan sambandsins.

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé þegar menn eru að velta fyrir sér mögulegri aðild að skoða hvaða áhrif það hefði á okkur ef við yrðum aðilar að hinu sameiginlega myntbandalagi. Það mundi hafa í för með sér ákaflega marga jákvæða hluti. Samkeppnisstaða fyrirtækja á evrusvæðinu gagnvart fyrirtækjun utan þess mundi batna vegna verðstöðugleika, lægri vaxta, hverfandi gengisáhættu og minni viðskipta- og skiptikostnaðar. Seðlabankinn hefur meira að segja sett verðmiða á þetta. Það eru að vísu 3--4 ár síðan og kannski er hann úr sér genginn sökum tímans en Seðlabankinn taldi fyrir nokkrum árum að þetta gæti varðað 6--12 milljörðum kr. ef ég man rétt.

Það er hins vegar ekki nema önnur hlið málsins. Hin hliðin er auðvitað sú að þó að Íslendingar beri talsverðan kostnað af því að vera með sína sjálfstæðu mynt er alveg ljóst að aðild að myntbandalaginu mundi hafa í för með sér ókosti sem við þurfum líka velta fyrir okkur. Að vera með sjálfstæða mynt gerir okkur kleift að bregðast við séríslenskum áföllum á borð við aflabrest en líka mikilli uppsveiflu eins og núna. Við höfum getað breytt genginu, veikt það ef þörf er á en líka styrkt það eins og menn eru að gera núna og auðvitað skiptir það miklu máli. Ég vek t.d. athygli á því að þegar Írar gengu inn í myntsamstarfið þurftu þeir að lækka vexti og þeir voru þá staddir á því stigi hagsveiflu sinnar að það var þeim ákaflega erfitt. Það hefur leitt til þess að verðbólga í Írlandi, ef húsnæðisþátturinn er tekinn út úr, sem er hin staðlaða mæling Evrópusambandsins, er hærri en á Íslandi. Þetta skiptir máli og þetta þurfum við að vega hvort á móti öðru og ég saknaði þess auðvitað að slíkt mat væri að finna í þessari skýrslu.

Ég nam það hins vegar af máli hæstv. ráðherra að hann telur nauðsynlegt að leggja þjóðhagslegt mat á marga þætti sem tengjast afkomu ýmissa atvinnugreina og þetta hlýtur auðvitað að vera einn af grundvallarþáttum í því.

Tvær atvinnugreinar hafa verið ákaflega mikið í umræðunni þegar við höfum rætt um ESB, það eru landbúnaður og sjávarútvegur. Ég hef jafnan skilið það svo að þeir sem andmæla ESB eða óttast ESB séu ákaflega hræddir við áhrifin á íslenskan landbúnað. Þess vegna kom það mér á óvart og ég viðurkenni að ég hafði ekki kynnt mér málið betur en ég las það í kaflanum um landbúnaðinn að líklega mundi íslenskum bændum vegna meira en bærilega innan ESB. Það segir í samantektinni:

,,Gera má þó ráð fyrir að sauðfjárbúskap, mjólkurframleiðslu og jafnvel nautgriparækt mundi geta vegnað þokkalega --- og betur en öðrum búgreinum --- fyrst og fremst vegna fremur greiðs aðgangs að stuðningi frá ESB. Sérstaklega mundi ýmis umhverfis- og harðbýlisstuðningur, sem tengist flatarmáli ræktaðs lands, nýtast þessum búgreinum. Hins vegar er svo til enginn stuðningur til svínakjöts-, kjúklinga- og eggjaframleiðslu fjármagnaður af ESB.``

Herra forseti. Ég hefði talið að þetta hljómaði eins og fegursta hljómkviða í eyrum ýmissa unnenda hefðbundins íslensks landbúnaðar. Þetta er eitt af því sem mér finnst ákaflega merkilegt að lesa, herra forseti. (Gripið fram í.) Herra forseti. Hér heyrist úr tveimur munnum, munni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hæstv. utanrrh., að þetta sé rugl. En þetta er tilvitnun sem ég las úr skýrslunni og get fundið stað ef menn vilja. (Gripið fram í: Það má lesa allan kaflann.) Herra forseti. Ég hef því miður ekki tíma til þess að lesa allan kaflann.

Herra forseti. Í sjávarútvegskaflanum vek ég eftirtekt á því að á bls. 37 er efnislega bent á þá staðreynd að sjávarútvegsstefnan er ekki óbreytanleg. Hún er í endurskoðun og það eru dæmi um að aðlögun gildandi stefnu að breyttum aðstæðum vegna brýnna hagsmuna, t.d. þegar sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB var hnikað til með tilliti til búskaparhátta á norðurslóðum í aðildarviðræðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Ég tel því ekki útilokað og reyndar fráleitt útilokað að Íslendingar fengju æski þeir þess sams konar girðingar gagnvart fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi og t.d. Danir hafa fengið gagnvart fjárfestingum útlendinga í dönskum sumarhúsum o.s.frv.

Herra forseti. Þetta er eitt af því sem þyrfti að semja um ef það kæmi til umsóknar. Ég geri mér grein fyrir því eins og flestir að staða EES-samningsins sem var óvírætt framfaraskref er að veikjast. Evrópusambandið er að stækka og breytast og atburðarásin getur leitt til þess eins og hæstv. utanrrh. sagði áðan að við stöndum frammi fyrir valkostum og við verðum að taka afstöðu en það er ekki hægt nema við vitum um hvað við eigum að semja og við hljótum að semja á grunni sérstöðu okkar, ekki síst í sjávarútvegi. Ég tel þess vegna eins og ég hef sagt núna í umræðum á stofnfundi Samfylkingarinnar að næsta skref í þessum málum sé að hefja skipulega vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslendinga í hugsanlegum aðildarviðræðum. Um þau markmið þarf að skapast meirihlutasamstaða meðal þjóðarinnar. Það er ekki skynsamlegt að sækja um aðild fyrr en slík samstaða er fyrir hendi og þar nægir að minna á dæmi Norðmannanna.