Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 11:27:34 (6986)

2000-05-08 11:27:34# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, TIO
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[11:27]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Það sem þessi ítarlega nýja skýrsla hefur umfram eldri úttektir er það ljós sem reynslan af EES-samstarfinu hefur varpað á málin. Skýrslan svarar með mjög tæmandi hætti spurningum um gildi EES-samningsins og kostum og göllum aðildar að ESB. Gagnvart EES-samningnum er niðurstaða skýrslunnar afar ljós. Þróun fjórfrelsisins og samkeppnisreglna EES-svæðisins hefur gengið vel. Íslenskir hagsmunir hafa fallið mjög vel að þróun viðskipta- og atvinnuumhverfis í Evrópusambandinu. Stofnanaþáttur sambandsins hefur gengið með viðunandi hætti, við höfum í stuttu máli átt fulla samleið með ESB í viðskipta- og atvinnumálum.

Í inngangi skýrslunnar er vikið að meintri togstreitu milli EES-samningsins og þróunar ESB sem gæti dregið úr samræmi á EES-svæðinu verði ekkert að gert eins og segir orðrétt í henni. Ekki er að finna í skýrslunni neitt dæmi um slíka togstreitu í framkvæmdinni. Þau vandamál sem upp hafa komið hafa verið næsta tæknilegs eðlis og voru leyst án vandræða. Ljóst var við gerð samningsins að hann væri lifandi ferli og tæki breytingum, að staða EFTA/EES-ríkjanna yrði ekki sú sama og aðildarríkjanna og að aðkoma okkar yrði sterkari á fyrri stigum ákvarðanaferilsins en á þeim síðari.

Þá var einnig ljóst við samningsgerð að þrjú EFTA-ríki mundu ganga inn í ESB. Allt lá þetta fyrir. Staða EFTA/EES-ríkjanna hefur ekki breyst að þessu leyti og samningurinn stendur fyrir sínu eins og skýrslan segir umbúðalaust. Valdahlutföll hafa hins vegar breyst innan ESB, ekki aðeins vegna nýmæla í stofnsáttmálum ESB heldur einnig vegna sífelldrar togstreitu milli stofnuna sambandsins svo og innan þessara stofnana. Í skýrslunni er kvartað undan því að vald framkvæmdastjórnarinnar hafi minnkað og það hafi leitt til þess að framkvæmd EES-samningsins sé örðugri en ella hefði verið. Hér gætir nokkurrar nærsýni. Málið snertir ekki aðeins EFTA/EES-ríkin heldur og stöðu smáríkja almennt í ESB eins og síðasti ræðumaður vék að.

Smáríkin innan sambandsins hafa lagt traust sitt á framkvæmdastjórn ESB og hafa af því áhyggjur að vald hennar fari dvínandi. Smáu aðildarríkin ráða í raun ekki við umfang þeirra ákvarðana sem teknar eru innan sambandsins. Ástæðan fyrir þessu er einföld. Þau hafa ekki bolmagn til þess. Stjórnsýsla er svo óburðug að þessi ríki verða að forgangsraða í þeim málaflokkum þar sem mestu hagsmunir þeirra liggja til að ná fram málum. Þetta kemur mjög skýrt fram hjá þeim vísindamanni sem hér var vitnað í áðan, Baldri Þórhallssyni lektor.

[11:30]

Smáríkið Lúxemborg sem er þó fjölmennara en Ísland ræður ekki við að mæta á alla fundi. Þegar þeir mæta ekki fer Belgía með samningsumboð þeirra. Við getum séð fyrir okkur að Ísland innan ESB afhenti Dönum samningsumboð Íslands og mundi ýmsum þykja ærið kynlegt. Smáríkin hafa því almennt séð mjög takmarkað svigrúm til að nýta sér þá stöðu sem þau hafa samkvæmt stofnsáttmálum ESB. Eftir því sem samstarf ESB-ríkjanna verður fyllra og dýpra, eftir því sem aðildarríkjunum fjölgar, því meira takmarkast svigrúm þeirra til að koma sérmálum sínum fram, ekki síst smærri ríkjanna. Kerfi sambandsins verður því hægvirkara og þyngra í vöfum sem það nær til fleiri ríkja og aðlögunarhæfni þess minnkar að sama skapi.

Umfjöllun skýrslunnar um kosti aðildar bera þess vitaskuld merki að höfundar skýrslunnar eru embættismenn og fjalla því einkum um breytta stöðu aðildarríkis samkvæmt stofnsáttmálum og formreglum. Álitamálið um aðild Íslands varðar hins vegar fyrst og fremst styrk og hæfni þeirra pólitísku stofnana sem stýra Evrópusambandinu og stjórna nýsköpun þess og þróun. Þessar stofnanir liggja allar undir mikilli gagnrýni um forustuleysi, áhugaleysi og getuleysi. Í Frankfurter Allgemeine Zeitung og í Le Monde birtust nýlega greinar þar sem harkalega er ráðist á stofnanir ESB. Stækkun sambandsins er talin illa undirbúin og ótímabær. Ríkjaráðstefnunni er ekki ætlað að ná neinum umtalsverðum árangri í stofnanaþættinum. Þeir sem vilja hleypa af stað hraðari þróun ákveðinna kjarnaríkja vita ekki einu sinni til hvaða sviða svigrúm þeirra á að ná.

Æðsta stofnun ESB, ráðherraráðið, situr nú undir harðri gagnrýni eins af æðstu embættismönnum sínum sem heldur því fram að mánaðarlegir fundir utanrrh. ESB séu ómarkvissir, einkennist af alvöruleysi og skorti á undirbúningi og þeir fáu ráðherrar sem koma til fundar gefi sér naumast tíma til að sitja þá. Í raun hefur framkvæmdastjórn ESB viðurkennt að hinar miðstýrðu stofnanir sambandsins hafi seilst til valda á viðamiklum sviðum sem þær ráði ekki við. Evrópuþingið glímir einnig við sinn hluta af stofnanakreppu og áhugaleysi innan ESB. Aðild Íslands mundi færa pólitísk örlög þjóðarinnar og hluta af fullveldi hennar inn á þennan vettvang, óráðsíu úrræðaleysis og ósamlyndis þar sem ESB hefur sjálft komist að þeirri niðurstöðu að verulegur halli ríki á lýðræðinu.

Um leið og nauðsynlegt er að viðurkenna þann árangur ESB á sviði viðskiptareglna og frjáls flæðis fólks, varnings, fjármuna og þjónustu sem þeir hafa náð og því er fagnað að við höfum orðið aðilar að þessum árangri með aðild að EES er með öllu óviðunandi að ekki séu viðurkennd þau miklu vandamál sem pólitískt forustuleysi og hugmyndafátækt hafa skapað innan ESB ásamt því þrátefli um vald og ábyrgð innan stofnana sambandsins sem virðist ekki ætla að taka neinn endi. Þessi vandamál eru hluti af ESB, hluti af uppbyggingu þess og innviðum. Það er hins vegar næsta eðlilegt að embættismenn veigri sér við að fjalla um þennan hápólitíska þátt þegar metin er staða Íslands í Evrópusamstarfinu.

Evrópa þróast hratt í átt til viðskiptaheildar með því áhersluleysi í menningarmálum sem slíkum heildum fylgir jafnan. Þessu reynir ESB að svara með menningarlegum stefnumarkmiðum sínum. Fjölbreytileika og litskrúðugu menningarlífi verður hins vegar ekki stýrt af stofnanaveldi. Menningarleg fjölbreytni verður að eiga rætur í efnahagsstyrk hvers ríkis. Önnur innri mótsögn ESB er líka tákn um lofsverða viðleitni og það er nálægðarreglan svokallaða. Hún gengur hins vegar þvert á grundvallarhugmyndir ESB um dýpkun samstarfsins og þverrandi sjálfstæði þjóðríkjanna. Mótsagnir af þessu tagi eru skýringin á því hversu djúpstæður ágreiningur er innan ESB um þróun þess og hugsjónir og hve mikils sannfæringarleysis gætir meðal almennings. Eitt skref til samruna er jafnan keypt með hálfu skrefi til baka.

Stöðu smáríkis eins og Íslands verður að meta í ljósi þessara mótsagnakenndu stefnumiða ESB. Ísland hefur hingað til viðhaldið og ræktað sína þjóðlegu menningu á eigin forsendum og sótt styrk sinn í íslenskt atvinnulíf. Aðild að EES hefur styrkt hvort tveggja, íslenskt atvinnulíf og íslenska menningu. Ísland hefur á eigin forsendum en einnig vegna EES bætt efnahag sinn og er nú í flokki efnuðustu þjóða heimsins. Landið er hins vegar í jaðri evrópsks samfélags, efnahagslífið er enn nokkuð fábreytt og sveiflukennt. Getur því reynt mjög á viðbragðsflýti og aðlögunarhæfni þegar aðstæður breytast skjótt og ljóst er að nánari tengsl við ESB munu ekki auka viðbragðsflýti og aðlögunarhæfni íslensks samfélags. Þvert á móti mun aðild gera okkur samstiga flóknu og þunglamalegu þróunarferli ESB og sú náttúra sambandsins mun styrkjast með dýpra sambandi og auknum fjölda aðildarríkja. Ekki fer milli mála að Íslendingar yrðu veitendur fremur en þiggjendur í efnahagslegum skilningi gengju þeir í ESB. Íslenskum skattgreiðendum og íslenskum fyrirtækjum yrði beitt fyrir styrkjavagn ESB því ákafar sem sambandið stækkaði meira. Að einhverju leyti kæmumst við í styrkjapottinn. Hve mikið fengist úr honum, hve lengi þess nyti við og hversu farsælt slíkt pot yrði fyrir íslenskt samfélag er allt miklum vafa undirorpið. Eflaust mundi innganga í ESB örva viðskipti við ESB-ríkin en jafnframt mundi það draga úr viðskiptum við ríki utan sambandsins. Eggjunum mundi fjölga í ESB-körfunni.

Þegar þetta er vegið og metið er í mínum huga fullljóst að staða okkar er ákjósanleg og engin ástæða er til að ala með sér hræðslu og fullyrða að við eigum ekki annan kost en að sækja um aðild að ESB. Eins og segir í skýrslunni standa engin rök til þess að ESB kjósi að segja upp EES-samningnum þótt Noregur t.d. gengi í ESB. Tengsl okkar við sambandið eru traust og árangursrík. Þjóðin hefur svigrúm til að ræða stöðu mála og finna lausnir ef vandamál koma upp í samskiptum hennar við ESB, en þar á hún margar vinaþjóðir og samstarfsaðila. Íslendingar mega ekki gleyma því að þeir eiga að verja hagsmuni sína og rækta sem víðast í heiminum, ekki síst beggja vegna Atlantshafsins. Grundvallaratriðið er að hafna því að þjóðin búi nú eða í náinni framtíð við nauðung í utanríkismálum og eigi ekki nema einn kost. Slík sýn styðst ekki við nein rök eða raunveruleika.