Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 11:43:01 (6988)

2000-05-08 11:43:01# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, DrH
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu skýrsla utanrrh. um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Skýrslan er mjög ítarleg og þær upplýsingar sem koma fram varpa ljósi á stöðu Íslands eins og hún er í dag. Það gefur okkur tækifæri til að vega og meta hvaða skref við eigum að taka í framtíðinni.

Í skýrslunni er gerður samanburður á því hvaða afleiðingar full aðild að Evrópusambandinu gæti haft. EES-samningurinn hefur nú verið í gildi í rúm sex ár og óhætt er að fullyrða að hann hefur reynst hagstæður fyrir Ísland. Aðstæður eins og á Íslandi þekkjast ekki annars staðar innan Evrópusambandsins. Hér fer saman efnahagsleg velmegun og lífsgæði sem eru meiri hér á landi en að meðaltali innan Evrópusambandsins.

Herra forseti. Íslenskur efnahagur byggir að mestu leyti á atvinngrein sem telst til jaðaratvinnugreina innan Evrópusambandsins og tilheyrir því samtryggingarkerfinu. Allir þættir aðrir en sú staðreynd að hér á Íslandi er efnahagsleg velmegun gæfu tilefni til verulegra greiðslna úr sjóðum Evrópusambandsins.

Á Íslandi er dreifð byggð og erfið veðurskilyrði fyrir landbúnað. Sumarið er stutt og veturinn langur og vegna legu landsins eru skilyrði til ræktunar erfiðari hér en annars staðar í Evrópu. Það er ljóst að aðild að Evrópusambandinu mundi hafa veruleg áhrif á íslenskan landbúnað og sú landbúnaðarstefna sem rekin er hér á landi yrði lögð niður í núverandi mynd og löguð að sameiginlegri landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins. Hvað það mundi þýða fyrir afkomu landbúnaðar er erfitt að geta sér til um, en landbúnaður er sem kunnugt er undanþeginn EES-samningnum. Um landbúnaðinn gilda aðeins takmarkaður hluti reglna Evrópusambandsins. Má þar nefna áburð og fóðureftirlit. Hins vegar eru heilbrigðisreglur um matvæli og dýr að mestu leyti utan samningsins. Við inngöngu í Evrópusambandið yrðum við að taka allar reglur Evrópusambandsins upp á þessu sviði sem m.a. leiddi til þess að landbúnaðarvörur flytu hindrunarlaust yfir landamæri og það sama gilti um innflutning lifandi dýra. En hugsanlegar undanþágur frá reglu sambandsins um frjáls viðskipti með landbúnaðarafurðir milli aðildarríkjanna gætu byggst á sérstöðu Íslands hvað varðar sjúkdómahættu.

[11:45]

Ef slíkar undanþágur fengjust gætu þær takmarkað innflutning lifandi dýra, á hráu kjöti og kjötafurðum og vörum unnum úr gerilsneyddri mjólk frá vissum löndum innan Evrópusambandsins. Ljóst er að það mundi kosta margfalt eftirlit ef fylgjast ætti með og forðast að til landsins bærust skaðvaldar í plöntum eða sjúkdómar í dýrum. Við fulla aðild yrði Ísland aðili að innri markaði ESB sem þýðir að allar sömu reglur um framleiðslu, umhverfi framleiðslu, samkeppnisskilyrði, aðbúnað og hollustuvernd, sem þýðir að allt sem lýtur að skilyrðum til framleiðslu verða að vera hinar sömu. Okkur væri ekki stætt á því að setja strangari reglur um hollustu og heilbrigði vara en ákveðnar eru innan Evrópusambandsins.

Í dag eru miklum fjármunum innan ESB varið til landbúnaðarmála eða 48% af heildarútgjöldum. Ekki er unnt að áætla hve háar fjárhæðir rynnu til íslensks landbúnaðar væri Ísland aðili að Evrópusambandinu. Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að sauðfjárbúskap, mjólkuframleiðslu og jafnvel nauðgriparækt mundi geta vegnað þokkalega og betur en öðrum búgreinum og þá fyrst og fremst með því að fá aðgang að stuðningi frá ESB. Hins vegar er svo til enginn stuðningur til svínakjöts-, kjúklinga- og eggjaframleiðslu og mikil óvissa er hvernig grænmetis- og blómaræktin kæmi út. Nokkuð öruggt er að matvælaiðnaðurinn mundi eiga undir högg að sækja gagnvart innflutningi og íslenskir bændur gætu þar lent í vandræðum með afsetningu afurða sinna.

Ég vildi gjarnan sjá úttekt á því hver þróun í landbúnaði hefur orðið í Finnlandi og Svíþjóð eftir inngöngu þeirra í Evrópusambandið en eftir því sem ég hef heyrt frá bændum í Svíþjóð á landbúnaður þar verulega undir högg að sækja og þeir eru ekki allir ánægðir með aðildina.

Þegar á heildina er litið stendur íslenska þjóðin afar vel félagslega og efnahagslega sem dregur nokkuð úr væntingum sumra um veglegar greiðslur úr sjóðum ESB. En er það svo eftirsóknarvert þegar á allt er litið og almennt er álitið að Ísland mundi greiða hærri fjárhæð inn í þá sjóði en kæmi til baka eins og málin standa? Stækki ESB til austurs er ljóst að staða efnaðara ríkja innan ESB mundi versna þar sem þau ríki sem sótt hafa um aðild standa flest ekki vel efnahagslega. Að mínu mati er það ekkert sem knýr okkur til að sækja um aðild að ESB eins og staðan er í dag.