Skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi

Mánudaginn 08. maí 2000, kl. 13:26:05 (6998)

2000-05-08 13:26:05# 125. lþ. 107.1 fundur 614. mál: #A skýrsla utanríkisráðherra um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi# skýrsl, GAK
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 125. lþ.

[13:26]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls þakka þá fróðlegu skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur látið semja um almenna stöðu Íslands í samstarfi við Evrópuríkin. Íslendinga virðist greina mjög á um hvaða kostir eru mögulegir og okkur hagstæðir í samskiptum og auknu samstarfi við Evrópusambandið og enn meiri og skarpari eru deilurnar ef hreyft er þeim viðhorfum að við gætum gerst aðilar að Evrópusambandinu.

Í Evrópu hafa breytingar verið örar og mörg lönd í austanverðri álfunni vilja nú sem óðast inn í Evrópusambandið. Hver verður staða Íslands í framtíð með sífelldri fjölgun ríkja í sambandinu? Varla verður endalaus varðstaða í þá veru að ræða ekki málin, okkur í smáríkinu Íslandi til framdráttar. Það er vissulega kominn tími til að leggja nýtt gildismat á veru okkar utan Evrópusambandsins og hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, EES-samningurinn, sé okkur sú heppilega trygging fyrir samvinnu og viðskiptum til framtíðar sem hann vissulega var þegar hann var gerður fyrir sjö árum. Ég fæ ekki séð annað en að okkur beri skylda til að skoða okkar stöðu upp á nýtt. Ef til vill komumst við að þeirri niðurstöðu að enn um sinn sé okkur best borgið með því að byggja á EES-samningnum og að við gætum eflt það samstarf.

Sá möguleiki að búa við EES-samninginn næstu 5--10 árin byggist, að því er lýtur að okkur, mikið á því hvort Norðmenn ætla sér að vera áfram utan Evrópusambandsins. Samkvæmt viðhorfskönnun þar í landi virðist sem svo að Norðmenn séu almennt að verða mun jákvæðari fyrir fullri aðild að Evrópusambandinu en áður var. Með sífellt fleiri aðildarríki eins og stefnir í og að því gefnu að Noregur muni á næstu árum ganga í ESB ber okkur skylda til að kanna hvaða kosti við gætum átt til aukins samstarfs eða aðildar. Þá vinnu ber stjórnvöldum þessa lands að láta fara fram, hún er í dag jafnsjálfsögð og það var á sínum tíma að vinna að gerð EES-samningsins og þar áður að aðild okkar að EFTA. Við höfum þegar leitt fjölmargt í lög hér á landi vegna samstarfs okkar og samninga við Evrópusambandið án þess að það hafi valdið okkur skaða, frekar að þar hafi margt verið til góðs.

Ég minnist þess við staðfestingu okkar á EES-samningnum á sínum tíma að varað var við frjálsri för launafólks á milli landa. Sá ótti okkar Íslendinga að hér yrði yfirfullt af útlendingum að leita sér vinnu hefur ekki átt við rök að styðjast. Ungt, vel menntað íslenskt fólk með góða tungumálakunnáttu lítur í dag á þetta frelsi til þess að leita sér að vinnu innan Evrópusambandslandanna sem opið og jákvætt tækifæri sér til handa. Ýmislegt sem lýtur að kjörum og aðbúnaði launafólks hefur komið hér til framkvæmda vegna samstarfs okkar við Evrópusambandið og aðildar að EES-samningnum. Þrátt fyrir skiptar skoðanir á sínum tíma um EES-samninginn eru sennilega fáir ef nokkrir sem leggjast gegn tilurð hans í dag. Sennilegt er að á næstu árum verðum við í síauknum mæli að aðlagast þeim kröfum og viðmiðunum sem stækkað samband Evrópuríkja mun móta. Í ljósi þess m.a. er varla við öðru að búast en að á næstu árum vaxi því fylgi hérlendis að leita eftir því hvaða kostir okkur bjóðast í stækkuðu Evrópusambandi.

[13:30]

Þau mál sem mestu skipta fyrir okkur ef til þess kæmi að mat okkar yrði að leita skyldi eftir ESB-aðild eru vafalítið fiskveiði- og sjávarútvegsmál. Rétti okkar til fiskveiða í okkar lögsögu verður varla fórnað að því marki að þar eigi aðrar þjóðir jafnríkan rétt og við til veiða og vinnslu á fiskimiðum landgrunnsins. Varla yrði deilt um sérrétt okkar innan 12 sjómílna fiskveiðilandhelgi og vafalaust gætum við afmarkað mörg svæði að 50 sjómílum. Þeim svæðum sem við höfum sjálfir skilgreint sem veiðisvæði á úthafsstofnum eins og úthafskarfa að 150 sjómílum frá grunnlínu væri ekki sjálfgefið að við héldum fyrir okkur nema því aðeins að við gætum sannað að djúpkarfastofninn og veiðar á honum í úthafinu séu í raun að minnka stofnstærð í djúpkarfa í landgrunnsköntunum. Flest virðist nú þegar benda til að á þeim stofni sé um mikla ofveiði að ræða. Við höldum þar sjálfir uppi miklu veiðiálagi, samanber síðustu ákvörðun hæstv. sjútvrh. um karfaveiðar í úthafinu við Reykjaneshrygg. Veiðar á djúpkarfa á hefðbundnum karfamiðum virðast hafa dregist saman.

Það verður eðlilega að mörgu að hyggja, ekki aðeins veiðum í okkar lögsögu, ef kanna á kosti og galla þess hvort aðild að ESB geti komið til greina. Eins og fram kemur í skýrslu utanrrh. er möguleiki til þess að mati hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,Þetta þýðir að starfsreglur ESB um úthlutun leiddu að óbreyttu til þess að Íslendingar sætu áfram einir að fiskimiðum umhverfis Ísland, þ.e. að svo miklu leyti sem um er að ræða stofna sem eingöngu eru innan lögsögu. Staða þeirra ESB-ríkja sem kynnu að vilja ásælast fiskveiðiréttindi við Ísland í mögulegum aðildarviðræðum yrði ekki ýkja sterk.``

Af þessari tilvitnun virðist mega draga þá ályktun að staða okkar til samninga um fiskveiðimál sé ef til vill ekki svo slæm þegar allt kemur til alls. Í sjávarútvegskaflanum segir hins vegar svo, með leyfi forseta:

,,Ef Ísland yrði aðili að ESB flyttist ákvarðanataka í mikilvægum málum til stofnana Evrópusambandsins, svo sem ákvörðun leyfilegs heildarafla og stjórnun veiða úr flökkustofnum á borð við úthafskarfa, kolmunna og norsk-íslenska síld. Undanþága sú sem fékkst í EES-samningi frá fjárfestingafrelsi í sjávarútvegi yrði torsótt svo ekki sé meira sagt.``

Miðað við þessar tvær tilvitnanir í skýrslu utanríkisráðherra og önnur viðhorf sem komið hafa fram í fjölmiðlum um hvað væri mögulega til í viðræðum um aðild að ESB, verður varla hjá því komist lengur að leggja vinnu í að kanna hvort okkur Íslendingum er leiðin inn í ESB opin með ásættanlegum skilyrðum eða ekki. Sú skýrsla sem við höfum hér verið að ræða er vissulega góður leiðarvísir til áframhaldandi umræðu og ákvarðanatöku.